05.01.1950
Neðri deild: 22. fundur, 69. löggjafarþing.
Sjá dálk 49 í B-deild Alþingistíðinda. (266)

81. mál, ríkisábyrgð á útflutningsvörum bátaútvegsins o.fl.

Stefán Jóh. Stefánsson:

Herra forseti. Mér þykir hlýða við 1. umr. þessa máls að fara um frv., sem hér liggur fyrir, nokkrum almennum orðum. Hæstv. ríkisstj. lýsti því yfir, þegar hún tók við völdum, að vera mætti, að hún sæi sér ekki annað fært, a.m.k. fyrst um sinn, en að feta einhverjar troðnar slóðir í dýrtíðarmálunum. Þessar leiðir, sem nú hafa verið kallaðar troðnar slóðir, eiga sér nokkra forsögu og höfuðslóðirnar voru ekki einu sinni, a.m.k. ekki á vissan hátt, lagðar af fyrrv. ríkisstj., heldur af ríkisstj. þeirri, er sat næst áður, og það var hlutverk þáv. atvmrh., hv. þm. Siglf. (ÁkJ), að leggja það til fyrst hér á Alþ., að ríkið tæki ábyrgð á ákveðnu verði fyrir útfluttar afurðir bátaútvegsins. Það var í lok ársins 1946. Síðan má segja, að þessar götur, sem þá voru lagðar, hafi að nokkru leyti verið troðnar síðan, með breyt., sem þurft hefur að gera frá ári til árs, vegna þess, hvernig á hefur staðið. Og nú má einnig segja, að í frv. því, sem hér liggur fyrir til umr., a.m.k. í 1. kafla þess, sé haldið áfram þessar troðnu slóðir. Þó þykist maður sjá það, að sett hafi verið upp eins konar vegarskilti í 12. og 14. gr. frv., sem boði nýja vegi, sem leggja eigi í náinni framtíð. En sá galli er, á þeirri gjöf Njarðar, að ekkert vita menn, hvert sá vegur liggur né hvernig hann verður lagður, hvað traustur hann verður og til hvers hann leiðir. Framundan er, hvað það snertir, myrkviður og óvissa um vegarlagninguna í framtíðinni. Alþfl. hefur fyrir sitt leyti ekki farið dult með það, að hann hefur talið það nauðsynlegt og telur enn nauðsynlegt að tryggja það, að bátaútvegurinn gangi, svo mikið sem allir landsmenn eiga undir því, að bátarnir séu reknir, bæði til öflunar verðmæta og gjaldeyris og eins til þess að halda uppi atvinnu í landinu. Alþfl. hefur því fyrir sitt leyti undanfarin ár verið með því og að því stuðlað, að slík ábyrgð væri veitt fyrir afurðir bátaútvegsins af hálfu ríkissjóðs, sem löggjöf síðari ára ber vitni um. Að sjálfsögðu skiptir Alþfl. ekki um skoðun, hvað þetta atriði snertir, þó að hann eigi ekki hlut að ríkisstj. Hann er þess vegna meðmæltur því, að það verði, a.m.k. fyrst um sinn, veittar einhverjar slíkar ábyrgðir fyrir afurðir bátaútvegsins, sem nægilegar eru, við skynsamlega yfirsýn og athugun til þess að bátaútvegurinn geti gengið, a.m.k. að það sé þá ástæðulaust fyrir þá, sem reka bátaútgerð, að fara ekki af stað, ef ákveðnar ábyrgðir eru í boði. Ég get ekkert um það sagt og hef ekki ástæðu til að dæma um það, hversu mikið þyrfti að hækka ábyrgðarverðið á afurðum sjávarútvegsins frá því, sem það var ákveðið í árslok 1948. Í þessu frv. er lagt til, að fiskurinn sé hækkaður um 10 aura kg, hraðfrysti fiskurinn um 20 aura pr. lbs. og um 23 aura pr. kg af útfluttum saltfiski. Á bátafiskinn nemur þetta um 15%. Það er kunnara en frá þurfi að segja, að frá því að sams konar löggjöf var sett, fyrir rúmu ári, hefur framleiðslukostnaður aukizt, sem meðal annars kemur nú í ljós hvað bátaútveginn snertir í hækkuðu olíuverði, svo að eitt af fleiri dæmum sé nefnt. Það verður hins vegar ekki um það dæmt, hvort þessi hækkun á ábyrgðarverðinu sé eðlileg eða ekki, en ég hef ástæðu til að ætla, að ríkisstj. hafi gengið svo langt í, ef svo má segja, að „prútta“ niður kröfum bátaútvegsmanna sem hún sá sér fært. Ég vil lýsa því yfir af hálfu Alþfl., að hann mun vera með því, að tekin sé ábyrgð á einhverju ákveðnu verði á afurðum bátaútvegsins.

Í þessu frv. eru 1.–11. gr. að mestu leyti og sumar alveg samhljóða tilsvarandi gr. í l., sem afgreidd voru á seinasta Alþ., óbreyttar að öðru leyti en því, sem ég hef nú um getið og hæstv. atvmrh. tók fram, þegar hann fylgdi frv. úr hlaði. að ábyrgðarverðið er hækkað.

Ég gæti gert ráð fyrir því, að fulltrúar kommúnista mundu sízt telja þetta ábyrgðarverð of hátt, því að á seinasta Alþ. fluttu þeir, í frv.- formi m.a. till. um það að ákvarða verðið á bátafiskinum 70 aura pr. kg í stað 65 aura pr. kg, sem ákveðið var, og kr. 1.45 fyrir lbs. fob. í stað kr. 1.33, sem var í ábyrgðarl. síðustu, og fyrir saltfiskinn kr. 2.40 fyrir kg fob. í stað kr. 2.25, sem ákvarðað var sömuleiðis í l. frá síðasta þingi. Auk þess var lagt til í þessu frv, kommúnista, að bátaútvegsmenn fengju hálfan þann gjaldeyri. sem þeir fengju fyrir sölu á afurðum sínum, algerlega frjálsan, ekki eingöngu til þess að kaupa fyrir hann nauðsynlegar vörur til útgerðarinnar, heldur líka til innkaupa á öðrum varningi. sem gert var ráð fyrir, að leyfður yrði innflutningur á. Á þessu má sjá, að a.m.k. þessi flokkur hefur á síðasta þingi verið með því að veita ábyrgðina og hana ekki órífari en gert var í l. s.l. ár, og nokkuð í áttina við það, sem lagt er til nú með þessu frv.

En það eru viss atriði í 12. og 14. gr. frv., sem ég fyrir mitt leyti get ekki mælt með, eins og þau liggja fyrir. Í 12. gr. er gert ráð fyrir, að ef ekki verður fyrir lok febrúarmánaðar n.k. sett löggjöf, er leysi til frambúðar rekstrarvandamál bátaútvegsins, að dómi ríkisstj., þá framlengist gildi þessara l., þar til slík löggjöf hefur verið sett, þó ekki lengur en til 14. maí 1950. Fyrst og fremst er það athugavert við orðalag þessarar gr., að þegar rætt er um framtíðarrekstur bátaútvegsins, þá er það komið undir dómi ríkisstj. að meta, hvort Alþ. hefur getað sett frambúðarákvæði um rekstrarmál bátaútvegsins. Þar sem Alþ. setur um þetta mál löggjöf og ber að því leyti á því ábyrgð, þá tel ég með öllu ótækt, að það sé ríkisstj. að ákveða og undir hennar dómi komið, hvort Alþ. hefur sett frambúðarlöggjöf um rekstur bátaútvegsins, og sérstaklega er þetta að mínum dómi alveg fráleitt, ef meiri hl. Alþ. er þeirrar skoðunar, að hann hafi gert slíkt, en ríkisstj., sem styðst við minni hl. á Alþ., væri annarrar skoðunar, og hennar dómar ættu þá að ráða á móti dómum meiri hl. Alþ. Ég er þeirrar skoðunar, að skurðarpunkturinn í þessu efni eigi að vera 1. marz, eins og að nokkru leyti er lagt til í frv. ríkisstj. Því miður varð það niðurstaðan rétt fyrir jólin, að ekki var samþ. till., sem hv. þm. V. Ísf. (ÁÁ) flutti af hálfu Alþfl., um að framlengja gildi III. kafla dýrtíðarlaganna, l. nr. 100 frá 1948, til 1. marz í stað 1. febrúar. Ég álít, eins og ég sagði áður, eðlilegast, að skurðarpunkturinn verði þar og þetta sé hvað ábyrgð snertir ákvarðað eins og ríkisstj. leggur til, en séu svo ekki heldur hvað snertir fjáröflun og aðrar leiðir, sem meira veltur á í framtíðinni, teknar ákvarðanir á þessu stigi málsins, áður en frekari ráðstafanir eru gerðar. Af þessari skoðun minni leiðir, að ég tel, að 12. gr. fái ekki staðizt. Ég tel ekki heldur rétt að framlengja III. kafla dýrtíðarl. allt árið 1950, miðað við það að ákveða ábyrgðarverðið á afurðirnar til 1. marz. Ég endurtek það, að ég tel, að miða eigi við 1. marz með fiskábyrgðina og fjárútvegun í því skyni, eða þangað til kemur að þeim till., sem áreiðanlega verða fram komnar og sjá dagsins ljós og verða lagðar fyrir Alþ. af stj. og hún hefur boðað og telur að verði frambúðarlausn í þessum efnum. Ég skal engan dóm á það leggja, hvort þær till. eru líklegar til að verða frambúðarlausn, af því að ég hef ekki hugmynd um. í hverju þær till. verða fólgnar, þar sem ríkisstj. hefur ekki farið um það mál nema almennum orðum og ekkert látið í það skina, hvaða nýjar leiðir eigi að leggja inn á. Þá fyrst, þegar fyrir liggja ákveðnar till., er tími til þess kominn að taka til þeirra ákveðna afstöðu. Einnig hvað snertir 14. gr. frv., tel ég, að ekki eigi að veita þær gífurlegu heimildir til fjáröflunar, sem í henni felast, meðan ekkert er vitað um, hvaða tilraunir á að gera um frambúðarlausn málsins. En þar er lagt til, eins og skýrt hefur verið frá og gr. ber með sér, að söluskatturinn. sem um ræðir í 21. gr. l. nr. 100 frá 1948, verði hækkaður allt upp í 30%, úr 6% í 30%, eða m.ö.o. Fimmfaldaður. Nú vil ég ekkert um það dæma, hve mikið þetta kynni að gefa í ríkissjóð. Hv. 1. þm. S-M. var með ágizkanir, byggðar á tölum og upplýsingum, sem hann hafði fengið, og þykir mér ekki ólíklegt, að það sé nærri lagi, sem hann gat um. Það er athyglisvert, að undantekningarákvæðin í 23. gr. l. nr. 100 1948 ná einungis til rekstrarvara, en ekki til neinna nauðsynjavara. Undanteknar þessum gífurlega háa söluskatti, ef hann verður lögfestur eins og 14. gr. segir, fyrir utan íslenzkar landbúnaðarafurðir, eru fiskumbúðir, veiðarfæri, önnur en sporttæki, kol, salt, hráolía, brennsluolía, smurningsolía, flugvélabenzín, tilbúinn áburður, dagblöð og vikublöð. Það lætur að líkindum, hve gífurlegur skattur þetta verður, ef hann nær lögfestingu, þar sem söluskatturinn verður fimmfaldur á allri neyzluvöru, sem til landsins flyzt, miðað við það, sem nú er í l. Það er fyrirsjáanlegt hversu stórkostleg verðhækkun þetta er á nauðsynjavörum almennings. Það má því réttilega segja, eins og tekið er fram í niðurlagi grg. fyrir frv. þessu, að þessi mikla hækkun á söluskatti sé í raun og veru beinn gjaldeyrisskattur. Hann er beinn gjaldeyrisskattur við innkaup á öllum nauðsynlegum nauðsynjavörum almennings í landinu. Ég vil undirstrika það, að fyrrv. ríkisstj. í leit sinni að tekjuöflun til þess að geta staðið undir ábyrgðum á afurðum bátaútvegsins og til þess að geta greitt niður verð á innlendum vörum kostaði kapps um það að afla teknanna, eftir því sem auðið var, með þeim hætti, að það kæmi sem minnst til verðhækkunar á allar brýnustu nauðsynjar almennings. Þetta sést bezt, þegar athuguð eru ákvæði 30. gr. dýrtíðarl. frá 1948. Þar er, eins og annars staðar, leitazt við að afla teknanna að vísu á vörum, sem eru margar hverjar þannig, að menn vilja fá þær, en ekki geta talizt til þeirra vöruflokka, sem mætti nefna brýnar nauðsynjar almennings. En hækkunin á söluskattinum næði fyrst og fremst til þessara vara og yrði þá þess valdandi, að þær hækkuðu geysilega í verði.

Ég held, að ég þurfi ekki að hafa orð mín öllu fleiri varðandi þetta frv., sem fyrir liggur til umr. Ég hef lýst yfir fylgi mínu við það að tryggja með ábyrgð útflutningsvörur bátaútvegsins, og ég get fyrir mitt leyti fallizt á það, að skurðarpunkturinn væri, hvað það snertir, 1. marz, þannig að fyrir þann tíma gæfist Alþ. kostur á því að leggja inn á nýjar leiðir, ef meiri hl. væri fyrir því hér á Alþ. Alþfl. mun að sjálfsögðu taka afstöðu til þessara leiða út frá sínum stefnumálum og þá að gefnu tilefni benda á þær leiðir, sem hann teldi heppilegastar, hvort sem þær yrðu nokkuð nálægt því, sem hæstv. ríkisstj. eða aðrir flokkar teldu, að rétt væri. Segja mætti, að það væri mjög óheppilegur tími fyrir útgerðina, ef þessi ábyrgð yrði algerlega felld úr gildi og ekki hefði verið gripið til annarra ráða 1. marz, á miðri vertíð, en hæstv. forsrh. tók það fram í ræðu sinni við þessa umr., að bátaútvegsmenn teldu það ekki nægilegt fyrir sig, að ábyrgðinni væri lofað til 1. marz. En ég er þeirrar skoðunar, eins og kom einnig fram í ræðu hæstv. forsrh., að a.m.k. meiri hl. Alþ. mundi ekki sjá sér fært annað, en að gera þá einhverjar þær ráðstafanir, sem tryggðu það, að bátaútvegurinn gæti haldið áfram, jafnt eftir 1. marz sem fyrir 1. marz. Og meðan við vitum ekki neitt um þær leiðir, sem hæstv. ríkisstj. mun leggja til, að farnar verði, álít ég skynsamlegast að miða við 1. marz. Alþ. hefur hátt á annan mánuð til stefnu til að ákveða, hvað við skuli taka þá, og ég ætla, að það muni nægur tími. Ég vænti þess, að hæstv. ríkisstj. flýti því svo sem auðið er að leggja sínar frambúðartill. fyrir Alþ., af því að mig uggir, að vera kynni, að Alþ. yrði ekki að öllu leyti sammála um þær till., sem fram kynnu að koma. Því hefur verið slegið fram, að hæstv. ríkisstj. mundi ekki vilja leggja till. sínar fram fyrir bæjarstjórnarkosningarnar, en ef svo er, þá tel ég það bera vott um, að till. hennar séu þess eðlis, að þær séu ekki álitlegar fyrir almenning í kaupstöðum landsins. Ef hæstv. ríkisstj. hefur trú á því, að till. hennar séu réttar, sanngjarnar og eðlilegar, þá ætti hún ekki að hika við að leggja þær fram, heldur jafnvel telja sér það til styrktar að koma með þær fyrir bæjarstjórnarkosningarnar. Ég teldi það rýra gildið á trú þeirra, ef þær yrðu fyrst bornar fram að afstöðnum bæjarstjórnarkosningunum. Sem sagt, ég vænti þess fastlega, að till. frá ríkisstj. komi sem allra fyrst, og þá mun Alþfl. taka afstöðu til þeirra, algerlega málefnalega og út frá sínum höfuðsjónarmiðum.

Ég lýsi því yfir að lokum að Alþfl. er fylgjandi því, að veittar verði ábyrgðir fyrir bátaútveginn, og getur fyrir sitt leyti gengið inn á, að þær séu fyrst um sinn ákvarðaðar til 1. marz. En hann vill ekki fyrir sitt leyti ákvarða að leggja á stórkostlega nýja tolla og skatta né gefa minnihlutastjórn mjög víðtækar heimildir, eins og gert er ráð fyrir í 12., 13. og 14. gr. frv. Að sjálfsögðu verður þetta frv. nánar athugað í fjhn., og gefst þá tækifæri til að ræða málið, þegar það kemur frá n., og mun hæstv. ríkisstj. án efa gefa n. og Alþ. þær upplýsingar, sem óskað verður eftir, til nánari skýringa á sumum ákvæðum frv.

Ég vil taka undir það, sem hv. 1. þm. S-M. sagði, að ég tel það vandræði, þó að fyrrv. ríkisstj. hafi gengið inn á það af illri nauðsyn, að hafa það á valdi ríkisstj. og ólögbundið að ákveða, fyrir hvaða hluta af afurðum bátanna útvegsmenn megi sjálfir nota gjaldeyri til innflutnings á erlendum vörum. Og ég tek undir ósk hv. 1. þm. S-M. um það, að hæstv. atvmrh. vildi segja Alþ. frá meðferð þessa máls, eins og hann sem fjmrh. og sjútvmrh. í fyrrv. stj., undir meðferð sams konar máls á Alþ., lýsti því, hvernig ríkisstj. hefði hugsað sér að greiða fyrir útvegsmönnum með því að láta þá fá frjálsan gjaldeyri fyrir slíkan takmarkaðan hluta af afurðunum og þá sérstaklega þeim afurðum, sem ekki væru seljanlegar við kostnaðarverði erlendis, nema gerðar væru til þess sérstakar ráðstafanir, eins og t.d. hrogn, en þeim var kastað, unz útgerðarmönnum var leyft að ráðstafa sjálfum gjaldeyri þeim, er þeir fá fyrir þau. Það voru því rök fyrir því að veita þessa undanþágu, þó að farið sé með þessu móti inn á hálar brautir og varhugaverðar, sem skapa misræmi og óréttlæti í verðlagi og vöruflutningi til landsins. Ég mun svo láta staðar numið um þetta mál að sinni.