21.02.1950
Neðri deild: 49. fundur, 69. löggjafarþing.
Sjá dálk 55 í C-deild Alþingistíðinda. (2693)

37. mál, sveitarstjórar

Pétur Ottesen:

Mér skilst, að aðalbreytingin, sem gerð er á þessu frv., eigi rót sína að rekja til nokkurra mótmæla frá sveitarfélögunum, að því sé slegið föstu að ráða sérstakan sveitarráðsmann, til þess að standa fyrir málefnum hreppsfélaganna. Þessu er nú slegið upp í aðeins heimild til þess að gera þetta, og er það sjálfsagt miklu réttara, því að ég geri ráð fyrir, að kostnaður við framkvæmd þessara mála geti orðið nokkuð þungbær fyrir ýmis hin smærri sveitarfélög. En þá er þess eigi að dylja, að þá er ekki orðinn mikill munur á miðað við það, sem nú er heimilt, því að algengt er, að hin stærri hreppsfélög ráði sérstakan mann til framkvæmda þessara mála í samráði við oddvita. Að vísu er þetta ekki bundið við kjörtímabilið, en þótt það sé ekki bundið við það né önnur tímamörk, þá er hægt að segja þessu starfi upp með 6 mánaða fyrirvara af hvorum aðila. Ég vil taka undir það, að þegar vel tekst til með ráðningu manns til þessara starfa, þá er hagkvæmt að hann geti verið áfram, þrátt fyrir að breytist pólitísk hlutföll í hreppsnefndinni.

Í sambandi við 7. brtt. vil ég benda hv. n. á að athuga hana nokkru nánar, því að ég held, að hún stangist á við gildandi l. í þessu efni. Eins og hv. þm. V-Húnv. tók fram, er sá háttur á hafður, að sýslunefnd tilnefnir þrjá menn til hreppstjórastarfa og sýslumaður tilnefnir svo einn af þeim til starfans. Hér skilst mér, að gengið sé á snið við þá tilhögun, sem nú er á þessu, þar sem hreppsn. er nú orðin aðalatriði í þessu máli, því að þetta á að byggjast á samkomulagi hreppsn. og sýslumanns fyrir hönd sýslunefndar. Ég vona þó, að skilja eigi þetta ákvæði þannig, að setja eigi þennan mann sem hreppstjóra til bráðabirgða, en endanlega eigi að fara að lögum samkvæmt.

Ég vil því skjóta því til hv. n., hvort hún vilji ekki taka þessa brtt. aftur til 3. umr., og mér skilst, að við nánari athugun gæti niðurstaðan orðið sú, að þessi brtt. kæmi ekki fram. En svo mætti auðvitað skjóta því inn í frv., að sveitarstjórinn mætti taka að sér ýmis önnur störf, t. d. hreppstjórastarfið. — Ég vildi aðeins benda á þessi atriði.