02.03.1950
Neðri deild: 58. fundur, 69. löggjafarþing.
Sjá dálk 67 í C-deild Alþingistíðinda. (2710)

37. mál, sveitarstjórar

Skúli Guðmundsson:

Herra forseti. Ég hafði við 2. umr. málsins flutt brtt., sem snerti næstsíðasta lið 3. gr., um það, að ekki væri heimilt að binda ráðningu sveitarstjóra við kjörtímabil hreppsnefndar eða önnur ákveðin tímamörk. Þetta ákvæði taldi ég ekki rétt að lögfesta, vegna þess, að ég tel ekki, að hreppsnefnd eigi að geta ráðið sveitarstjóra til lengri tíma, kannske lífstíðar, ef henni býður svo við að horfa. Þess vegna lagði ég til, að þetta ákvæði væri fellt niður. Nú hefur n. borið fram till. um að orða þetta svo, að í staðinn fyrir „ekki heimilt“ komi: ekki skylt, eins og hv. frsm. n. hefur getið um. Sé ég því ekki ástæðu til þess að leggja mína till. fram aftur, því að ég skil þetta ákvæði þá þannig, að það sé á valdi sveitarstjóra að segja upp starfi sínu og sveitarstjórnarinnar að segja honum upp, alveg án tillits til þess, hvernig hann hefur innt sitt starf af hendi.