28.03.1950
Neðri deild: 76. fundur, 69. löggjafarþing.
Sjá dálk 102 í C-deild Alþingistíðinda. (2774)

58. mál, ríkisborgararéttur

Jóhann Hafstein:

Herra forseti. Það er aðeins út af því, sem hér hefur nokkuð verið deilt um, sem ég vildi segja nokkur orð, sem sé það, hvort brotnar séu reglur ríkisborgararéttarlaganna með því að veita manni ríkisborgararétt, sem hindraður hefur verið frá því að uppfylla 10 ára búsetuskilyrði þeirra l., áður en þessi réttur sé honum veittur. Ég tel, að það sé nokkurt atriði í þessu sambandi, að hv. þm. sé ljóst, þegar talað er um brot á reglum ríkisborgararéttarl., að það er nú svo, að þessar reglur ríkisborgararéttarl. hafa mjög oft verið brotnar Alþ. hefur mjög oft veitt mönnum ríkisborgararétt án þess að þessi skilyrði hafi verið uppfyllt, og í því sambandi er því bara á venjulegan hátt verið að brjóta þessa reglu þeirra laga, því að ég held, að óumdeilanlega hafi ríkt sá skilningur á Alþ., að ríkisborgararéttarl. settu ekki fram annað, en leiðbeiningarreglur, sem eigi að sýna í aðalatriðum, hvernig eigi að fara um veitingu ríkisborgararéttar, en Alþ. geti vikið frá, því að Alþ. má veita mönnum ríkisborgararétt með l. Og það þing, sem á sínum tíma setti ríkisborgararéttarl., getur ekki bundið það þing, sem nú situr, við þær reglur, sem þar eru settar. Þó að þessar reglur hafi því verið settar fram í l. sem venja, er eðlilegt væri, að fylgt væri, þá hefur oft verið frá þessu ákvæði vikið. Og það sýnist aldrei vera fremur ástæða til þess að gera það, en þegar svona stendur á eins og hér, að útlendingur, sem um er að ræða, er fluttur af landi burt, án hans óska og honum ósjálfrátt með öllu, aðeins fáum dögum áður, en hann hefði annars uppfyllt búsetuskilyrði l. Og oft hefur verið vikið frá þessu búsetuákvæði l., þegar um hefur verið að ræða fólk af íslenzku bergi brotið, m. a. þegar um hefur verið að ræða konur, sem hafa misst íslenzkan ríkisborgararétt og flutzt aftur heim. Það hefur ekki verið fylgt þeirri reglu um þær, að þær væru látnar uppfylla 10 ára búsetuskilyrðið áður, en þær fengju íslenzkan ríkisborgararétt. Og sama hefur verið látið gilda um aðra, sem af íslenzku bergi hafa verið brotnir.