25.11.1949
Neðri deild: 5. fundur, 69. löggjafarþing.
Sjá dálk 126 í C-deild Alþingistíðinda. (2838)

18. mál, hvíldartími háseta á togurum

Einar Olgeirsson:

Herra forseti. Hv. 3. landsk. (GÞG) hefur gert sig sekan um að reyna, eins og stundum er talinn lærðra manna háttur, að hártoga. Hann hefur skapað upp skoðanir hv. 6. þm. Reykv. Það, sem hann sagði, var, að ef svona frv. eins og það, sem hér lægi fyrir, yrði ekki samþ. hér á þingi, þá mundu sjómenn verða að knýja svona mál fram sjálfir með sínum samtökum, og með því, eins og hann var að skýra í sinni síðustu ræðu, væru togaravökulögin, einmitt þessi l., sem hásetar hafa átt undir Alþingi, sett úr gildi. Þetta vildi hann nota sem röksemd fyrir því, að Alþingi bæri að laga þessi l. samkvæmt því frv., sem nú liggur fyrir.

Ég undirstrikaði það í ræðu minni, hvað það væri þýðingarmikið, ekki aðeins sem mannúðarmál, að gera þetta í samræmi við það, sem gert var fyrir tveimur áratugum, heldur einnig hvaða þýðingu það hefði fyrir þjóðarbúskap okkar að láta ekki til þess koma, að sjómannasamtökin yrðu að beita valdi sínu utan þingsins til að knýja fram það, sem við getum fengið með lagasetningu. Ég held, að þetta eigi að vera nokkuð ljóst. Og ef hv. 3. landsk. þm. hefði verið þetta ljóst fyrir tveimur til þremur árum síðan, hefði hann vafalaust þá barizt fyrir því að fá þetta frv. okkar samþ. hér í þinginu. En það hefur lítið borið á þessari baráttu, enda hefur Alþfl. staðið svo tvístígandi í þessu máli, þegar það áður var flutt hér, að maður vissi varla hvar hann var.

Viðvíkjandi vinnuverndarlöggjöfinni virðist mér, satt að segja, mesta yfirlætið út af V.- kaflanum horfið hjá hv. 3. þm. Reykv., eftir að hann athugaði, að þarna var ekki einu sinni komizt með tærnar í löggjöfinni, þar sem verkalýðsfélögin höfðu hælana, þar sem verið er eða á að lögbjóða átta stunda vinnudag hjá mönnum, sem voru búnir að knýja fram átta stunda vinnudag. Ég held, að okkur bæri frekar að sameina okkur um það að lögbjóða átta stunda vinnudaginn heldur en að halda áfram þeim deilum, sem nú hafa hér orðið og eðlilegast er, að fái sína reynslu í praksís í því, hvort menn vilja vera með því eða móti að samþykkja þetta frv., sem hér liggur fyrir.