02.05.1950
Neðri deild: 94. fundur, 69. löggjafarþing.
Sjá dálk 145 í C-deild Alþingistíðinda. (2879)

63. mál, fjárhagsráð

Frsm. minni hl. (Skúli Guðmundsson):

Herra forseti. Frv. það, sem hér liggur fyrir, er um breytingu á l. um fjárhagsráð og snertir úthlutun innflutningsleyfa fyrir erlendri vöru. Horfur í viðskiptamálum eru óglæsilegar og hefur svo verið undanfarið. Markaðir fyrir ýmsar útflutningsvörur hafa dregizt saman og verðið lækkað. Afleiðingin hefur orðið sú, að innflutningurinn er háður miklum takmörkunum, og þegar svo er ástatt, verður að sjá um, að hið takmarkaða vörumagn skiptist sem réttlátlegast á milli landsmanna, og einnig hitt, að sem mest frjálsræði ríki í viðskiptunum innanlands, svo að menn séu sjálfráðir um það, hvar þeir kaupa vörurnar. Að í þessu hvoru tveggja er stefnt með þessu frv.

Ég legg til, að á frv. verði gerðar nokkrar breytingar, og taka þær að mestu leyti til formsins, en ekki efnisins. Allar miða þær að því að gera auðveldara að taka ákvörðun um úthlutun leyfa fyrir hverjum vöruflokki fyrir sig heldur en var samkv. frv. Mun ég nú víkja með nokkrum orðum að brtt. mínum.

1. brtt. felur í sér, að 10. gr. l. falli brott. Undir fjárhagsráði hefur starfað viðskiptanefnd, en nú hefur sú nefnd verið lögð niður, eins og kunnugt er. Þetta er því aðeins staðfesting á því fyrirkomulagi, sem nú er komið til framkvæmda. — 2. brtt. er um breyt. á 11. gr., og er það ekki efnisbreyt. frá því, sem nú er í l., heldur aðeins afleiðing, þar sem lagt er til, að fjárhagsráð annist sjálft úthlutun leyfanna. — Í 3. brtt. er svo lagt til, að á eftir 2. gr. frv. komi ný grein, og breytist greinatalan skv. því. Mun ég nú víkja nánar að efni greinarinnar.

A-liður snertir úthlutun á kornvörum, kaffi og sykri og er lagt til, að leyfi séu veitt eftir óskum, ef innflytjandi hefur tryggt sér gjaldeyri til greiðslu á vörunum. Nú er sykur skammtaður og verður svo vafalaust fyrst um sinn.

Næsti liður till. er um úthlutun leyfa fyrir byggingarefni. Þar er það nýmæli, að lagt er til, að innflutningsleyfi verði látin fylgja fjárfestingarleyfum. Gerir þetta mönnum stórum auðveldara að ná í efni til framkvæmda en nú er, og með svo hagstæðu verði sem kostur er á. Allir þekkja þá erfiðleika, sem nú eru á því að snapa saman efni til bygginga hingað og þangað — með ærinni fyrirhöfn og auknum tilkostnaði. Ekkert virðist sjálfsagðara en það, að þeir, sem fá fjárfestingarleyfi til bygginga eða annarra framkvæmda, fái einnig leyfi til innflutnings á nauðsynlegu efni, svo að þeir geti fengið það á þeim verzlunarstöðum og hjá þeim verzlunum, sem þeir telja sér hagkvæmast að skipta við.

Síðari málsgr. till. er um úthlutun leyfa fyrir byggingarefni til viðhalds og framkvæmda, sem ekki þarf fjárfestingarleyfi fyrir. Meginreglan þar er, að þetta efni skiptist milli landshluta eftir fólksfjölda.

Næsta till. er um úthlutun leyfa fyrir ávöxtum, nýlenduvörum og kryddvörum. Leyfi þessi skiptist milli verzlana eftir sykursölu þeirra. Er með þessu stefnt að því, að þessar vörur skiptist sanngjarnlega milli verzlunarstaða og verzlana og þaðan út til almennings.

Þá eru næstu liðir brtt. á þskj. 544, d, e, í og g, sem allir snerta úthlutun á innflutningsleyfum fyrir vefnaðarvöru, fatnaði og skófatnaði. Það er lagt til, að fyrst verði gefin út stofnleyfi, sem gildi í 6 mánuði og skiptast í ákveðnu hlutfalli á milli samvinnufélaga og annarra verzlana. Svo er einnig lagt til, að iðnaðarfyrirtæki fái slík stofnleyfi, en það er takmarkað við 50% af samanlagðri upphæð þeirra leyfa, er verzlanir fá fyrir þessum vörum. Þá er og lagt til, að vörur þessar verði skammtaðar meðan innflutningur þeirra er takmarkaður, til þess að tryggja sem réttlátasta dreifingu þeirra, og skal þess þá gætt, að aldrei séu gefnir út skömmtunarseðlar, er gildi fyrir meira en flutt er af vörum til landsins. Nýir skömmtunarseðlar séu gefnir út til almennings, er gildi fyrir ákveðna fjárhæð í erlendum gjaldeyri, en þó ekki yfir 80% af heildarupphæð stofnleyfanna. Úthlutun leyfa fyrir þessum vörum til verzlana á síðan að miðast við gjaldeyrisupphæð þeirra skömmtunarseðla, sem verzlanirnar skila til fjárhagsráðs.

Með þessu fyrirkomulagi, ef lögfest verður, fá menn ávísanir á ákveðna fjárhæð í erlendum gjaldeyri til kaupa á vörum þessum, ávísanir, er skapa þeim verzlunum, er fá þær í hendur, möguleika til áframhaldandi innflutnings. Verzlanir og iðnfyrirtæki mundu að sjálfsögðu keppa að því að fá sem mest af þessum ávísunum, en það geta fyrirtækin með því að bjóða mönnum sem bezt kjör. Aðstaða almennings til vörukaupa gerbreyttist við þetta, en heilbrigð samkeppni mundi skapast á milli verzlana. En þetta er allt annað en það, sem nú tíðkast.

Næsti liður er um úthlutun innflutnings- og gjaldeyrisleyfa fyrir varahlutum til bifreiða og bifreiðagúmmíi, og er lagt til, að þeim skuli skipt milli kaupstaða og sýslufélaga í réttu hlutfalli við tölu skráðra bifreiða í hverju umdæmi. Síðan geta bifreiðaeigendur sjálfir ráðið því, hvert þessi leyfi fara, til verzlana eða viðgerðarstöðva innan hverrar sýslu og kaupstaðar.

Ég geri ráð fyrir því, að ég muni leggja fram till. um úthlutun á fleiri vöruflokkum, og fer það eftir því, hvernig fer um afgreiðslu þessara till. minna nú við þessa umr., en þá mun ég leggja þær till. mínar fram við 3. umr.

Eins og í síðasta lið till. segir, þá er lagt til, að auk þeirra leyfa, sem í hinum liðunum hafa verið talin, þá skuli um úthlutun gjaldeyris- og innflutningsleyfa til kaupa á öðrum vörum fara eftir ákvörðunum fjárhagsráðs, nema fyrirmæli séu sett um það í lögum eða ályktunum frá Alþingi, og er það eins og nú er.

Þá legg ég til, að 3. gr. falli niður, því að ég tel, að aðalatriði hennar séu nú talin í 2. gr. frv., sem á við um einstakar gr. laganna. Þó skal ég geta þess, að í þeirri grein eru till. um úthlutun á leyfum fyrir fleiri vörutegundum en þetta, eins og t. d. gúmmískófatnaði, búsáhöldum, hreinlætisvörum o. fl., og geri ég ráð fyrir að leggja fram till. um úthlutun á þeim vörum síðar, eftir því, hvernig afgreiðslu málið fær hér við þessa umr.

Þá er einnig lagt til í 5.–9. brtt. á þskj. 544, að 6.–10. gr. falli burt. Þær gr. snerta allar saman 3. kafla l., en sá kafli hefur nú verið numinn úr l. með l. um verðlagseftirlit, en áður voru ákvæðin um verðlagseftir1it í sérstökum kafla þessara laga. Þessar frvgr. snerta þann kafla og eiga því ekki að koma til greina nú, eftir að búið er að gera breyt. á l. um verðlag og verðlagseftirlit.

Ég sé svo ekki ástæðu til þess að fara fleiri orðum um brtt. mínar, en leyfi mér að vísa til nál. á þskj. 544, þar sem ég hef skýrt frá efni till. minna í einstökum atriðum.

Landsmenn hafa nú orðið að taka á sig margs konar byrðar vegna gengislækkunarinnar, og ekki sízt vegna þess er nauðsynlegt, þegar innflutningur til landsins er mjög takmarkaður, að taka upp réttláta dreifingu og gera verzlunina svo haganlega fyrir almenning sem mögulegt er. Innflutningshöftunum er ekki hægt að létta af enn sem komið er. En þrátt fyrir það er hægt að gera ráðstafanir til þess, að langtum meira frjálsræði ríki í verzluninni, en nú hefur verið um langt skeið, þannig að landsmenn eigi þess kost að ráða því sjálfir, hjá hvaða verzlunarfyrirtækjum þeir eiga viðskipti á hverjum tíma. Menn geta þá valið milli verzlana og farið með ávísanir sínar þangað, sem þeir telja, að sé hagkvæmast að verzla á hverjum tíma. Þá er fólki mögulegt og frjálst að velja um það t. d., hvort það kaupir tilbúinn fatnað hjá einhverri saumastofu eða efnið í fatnaðinn í verzlun, ef möguleikar eru til þess að gera úr því föt á heimilunum. En þetta er allt annað, en nú tíðkast. Slíkt verzlunarfrelsi er skylt að veita öllum þegnum þjóðfélagsins, og að því er stefnt með því frv., sem hér liggur fyrir.