17.04.1950
Neðri deild: 84. fundur, 69. löggjafarþing.
Sjá dálk 200 í C-deild Alþingistíðinda. (2966)

75. mál, byggingarlán og húsaleigulækkun

Frsm. meiri hl. (Jóhann Hafstein):

Herra forseti. Það eru aðeins örfá orð til þess að fyrirbyggja misskilning, í sambandi við það, sem hv. 2. þm. Reykv. sagði út af því, að í nál. meiri hl. n. teljum við, að almennu samningsfrelsi manna verði kollvarpað með slíkum lögum sem þeim, ef samþ. væri þetta frv., sem brjóta í bága við 67. gr. stjskr., sem er um friðhelgi eignarréttarins, eins og hv. þm. tók fram. — Mér finnst gæta nokkurs misskilnings í þeim orðum, sem hann sagði hér út af þessu. Og ég vildi segja, að það, sem fyrir okkur vakir í þessu er, að eins og háttað er í þjóðfélaginu nú í dag, þá mundum við, —með því almenna samningsfrelsi, sem er í landinu, — hv. 2. þm. Reykv. og ég geta búið þannig um hnútana, að hann lánaði mér t. d. nokkra tugi þús. kr. gegn veði í fasteign hjá mér, með vissum vöxtum og um vissan tíma. Ef þetta frv. nú yrði að l., yrði kannske daginn eftir að við gerðum þennan samning, hv. 2. þm. Reykv. og ég, kollvarpað samningsfrelsinu, sem við bundum með samninginn um það, hvernig okkar viðskipti, sem ég nefndi, skyldu vera. Og það er það, sem ég átti við, þegar ég sagði, að þetta frv. bryti í bága við þá gr. stjskr., sem fjallar um friðhelgi eignarréttarins.