20.03.1950
Neðri deild: 71. fundur, 69. löggjafarþing.
Sjá dálk 202 í C-deild Alþingistíðinda. (2976)

85. mál, eyðing refa og minka

Ingólfur Jónsson:

Herra forseti. Þetta frv. er ekki nýtt hér í d. Það var borið fram á síðasta þingi og þá breytt í þá átt, að í stað þess að banna minkaeldi voru samþ. lög, sem hertu á útrýmingu villiminka. Það er kunnugt, að villiminkur er nú kominn allt frá Markarfljóti vestur í Dali og hefur valdið miklum búsifjum og eyðileggingu. Það er því ekki að ófyrirsynju, að Alþ. hefur gert tilraun til að útrýma villiminkum.

Norðmenn eiga við erfiðleika að stríða í þessu efni. Villiminkar hafa gert miklar búsifjar þar. Samt sem áður hafa þeir ekki farið út á þá braut að banna eldi minka, enda er minkaeldi og loðdýrarækt yfirleitt snar þáttur í útflutningsframleiðslu þeirra. Norðmenn fá fleiri tugi milljóna í erlendum gjaldeyri fyrir grávöru eða loðdýraskinn, sem þeir framleiða. Hér gegnir öðru máli. Við byrjuðum á að rækta silfurrefi, en sú ræktun hefur mistekizt algerlega og hefur gengið saman með ári hverju og er nú að verða að engu. Við fáum nú mjög lítinn erlendan gjaldeyri fyrir útflutt minkaskinn. Ég skal engan dóm á það leggja, hverju það er að kenna, að við höfum ekki komizt upp á lag með það, eins og t. d. Norðmenn, að afla okkur gjaldeyris með þessum hætti, enda þótt við virðumst í fljótu bragði hafa svipaða aðstöðu til þess og þeir. En staðreyndirnar tala. Sá gjaldeyrir, sem við fáum fyrir útflutning minkaskinna, er hverfandi, eins og fyrir skinn af öðrum loðdýrum, og sú framleiðslugrein er stöðugt að ganga saman, og er þó hvað auðveldast að annast eldi hans.

Ég hef verið þeirrar skoðunar, að síðan minkabúrin voru treyst frá fyrstu gerð, þá hafi dýrin ekki brotizt út úr þeim eins og þau, sem villiminkastofninn er frá kominn. Hins vegar benda nú miklar líkur til þess, að jafnvel enn, þrátt fyrir aðvaranir og loforð um að treysta búrin sem bezt, þá sleppi dýrin út eða hafi gert á hinum síðari árum. Og þegar það fer saman, að við höfum lítið gott af minkaeldinu og áhætta er enn af því að geyma þá í búrunum, ef stefna á að gereyðingu þeirra, þá tel ég rétt að banna með öllu minkaeldið.

Ég tel það leiðinlegt, að við skulum vera svo miklir eftirbátar Norðmanna, að geta ekki gert þennan atvinnuveg arðbæran og gert búrin trygg, eins og þeim hefur þó tekizt hin síðari ár. En það hefur ekki tekizt að hafa teljandi arð, og af þeim sökum er hitt skiljanlegt, að menn vilji ekki kosta svo miklu til sem þörf er á til þess að gera búrin algerlega trygg. Og úr því þau eru ekki 100% trygg og við erum annars sammála um nauðsyn þess að útrýma villiminknum úr landinu, þá hefur skapazt hér sú aðstaða, að minkaeldið verður að banna. Ég vil taka það fram, að ég harma það, að okkur hefur ekki tekizt að gera þennan atvinnuveg arðbæran, eins og gert hefur verið í Noregi, og ekki gengið svo samvizkusamlega til verks, að 100% trygging fengist fyrir því, að búrin væru örugg. En úr því svo er, að þetta er ekki fyrir hendi, þá hlýt ég að greiða atkv. með frv. á þskj. 172.