20.03.1950
Neðri deild: 71. fundur, 69. löggjafarþing.
Sjá dálk 208 í C-deild Alþingistíðinda. (2980)

85. mál, eyðing refa og minka

Sigurður Ágústsson:

Herra forseti. Ég held, að misskilnings gæti í meðferð hv. flm. frv. á þskj. 172. Ég heyrði eigi ræðu hv. þm. Borgf. En greinilega kom fram í ræðu hv. 1. þm. Árn., að hann telur, að um leið og búið sé að lóga öllum eldisminkum í landinu, þá sé plágunni létt af. Það er engu líkara, en sá litli stofn, sem hér er, gangi jafnt utan húss sem í búrum og sé því að valda tjóni á fuglalífi landsins, laxveiði og silungs o. fl. Þetta er hinn mesti misskilningur. Álít ég, að hér sé byrjað á vitlausum enda málsins. Ég er þeirrar skoðunar, að allt sé gert til að forðast það, að eldisminkarnir sleppi. Er vitað mál, að villiminkar valda nú miklu tjóni úti um sveitirnar. Allir Íslendingar harma það, að villiminkurinn er til hér á landi. En við, sem fáumst við eldi á minkum í girðingum, álítum, að eigi sé unnið á plágunni með því að útrýma eldisminknum. Hv. þm. gat þess, að Svíar og Norðmenn hefðu gert sér vonir um, að minkurinn mundi eigi sleppa. En það hefur ekki heyrzt, að þeim hafi dottið í hug að banna eldi á minkum í girðingum, þó að villiminkurinn sé til í þessum löndum.

Við viljum stuðla að framleiðslunni í landinu og höldum, að gera megi það að atvinnu að hafa eldi á bæði minkum og refum. Það er rétt hjá hv. 1. þm. Árn., að það lítur dálítið skár út með þetta eftir gengisfallið. Þessi atvinnuvegur hefur verið erfiðleikum bundinn á undanförnum árum. Þó að flest önnur framleiðsla hafi notið stuðnings hins opinbera, þá hefur þessi framleiðsla eigi verið verðbætt, þótt kostnaðurinn við hana vaxi og hún sé rekin með tapi.

Ég held því fram, þótt þessum stofni í girðingunum sé lógað, að þá séum við alveg jafnt fjarri því að hafa útrýmt villiminknum í landinu. Það mun sannast, þó að frv. verði lögfest, að villiminknum verður aldrei útrýmt að fullu. Byggist það á því, að hvergi þekkist, að tekizt hafi að vinna bug á honum, þar sem hann er orðinn útbreiddur. Það er rétt, að þetta er harðgert dýr, og erfitt er að vinna bug á honum, ef hann nær að venja sig við umhverfið. Mun reynast mjög örðugt að útrýma villiminknum hér á landi.