27.04.1950
Efri deild: 94. fundur, 69. löggjafarþing.
Sjá dálk 361 í C-deild Alþingistíðinda. (3250)

60. mál, notendasímar í sveitum

Páll Zóphóníasson:

Herra forseti. Ég gat þess við síðustu umr. þessa máls, þegar ég greiddi atkv. með því að fella niður 4. gr., að ég mundi taka upp við þessa umr. nýja gr. í hennar stað. Liggur hún hér fyrir á þskj. 583. Ég sé þó, að þar er ekki ákveðið, hversu langur starfstími n. er, sem kjósa skal samkvæmt brtt. Það er ætlazt til, að verkið taki 10 ár, og það er eðlilegt, að sömu menn sjái um það allan tímann, en annars legg ég ekki mikið upp úr því.

Annars skal ég endurtaka það, að þetta frv. er byggt á því, að framlag komi á móti þessum 2½ millj., sem ríkið á að leggja fram samkvæmt þessum l., 1½ millj. kr. á ári, eða 15 millj. alls. Með þessu yrði nokkuð unnið að því að flýta fyrir þessu máli, sem bændur sýna svo mikinn áhuga fyrir.

Talað hefur verið um að reyna að fá fé úr jöfnunarsjóði til þessara framkvæmda. Mér er kunnugt um, að hæstv. viðskmrh. og fjmrh. eru því hlynntir, að þetta verði gert, en á þessu stigi er það ekki hægt, því að þingið á eftir að taka ákvörðun um, hvernig fé úr honum verði ráðstafað. Það er hugsað af mörgum að nota mikið af honum til Sogsvirkjunarinnar. Það þarf leyfi annarrar þjóðar til að verja honum eins og við viljum, og þess vegna mun ekki vera hægt að taka það inn í þetta frv., en í því trausti, að það fáist seinna fram, fylgi ég þessu frv. og mæli ákaflega mikið með, að það verði samþ. Sýni sig, að ekki sé hægt að fá þetta, má síðar gera ráðstafanir í þessu sambandi, en á þessu stigi held ég, að ekki sé bein nauðsyn til þess.

Ég vil segja það út af minni brtt., að ég vænti, að þeir, sem gátu ekki fellt sig við n. eins og hún var upphaflega, geti sætt sig við hana svona og sjái sér einnig fært að fylgja frv.