20.02.1950
Efri deild: 58. fundur, 69. löggjafarþing.
Sjá dálk 416 í C-deild Alþingistíðinda. (3297)

68. mál, almannatryggingar

Páll Zóphóníasson:

Herra forseti. Ég skal verða við þeim tilmælum að taka aftur 2., 4. og 5. brtt. mína til 3. umr. Það var óskað eftir því, að ég gerði það, og mér þykir sjálfsagt að verða við þeim óskum. — Í öðru lagi langar mig til að benda á — og það vil ég sérstaklega benda þeim hv. þm. á, sem nú eru hér í hv. þd. og vilja mjög ákveðið láta réttindi og skyldur karla og kvenna í landi hér verða allar hinar sömu, og ég viðurkenni, að þeirri reglu hefur verið fylgt miklu frekar í þessum l. en flestum l., sem frá Alþ. hafa komið. En þó er það nú samt sem áður svo, að í þessum l. eru kvenmenn víða settir skör hærra en karlmenn, hvað réttindi snertir. Ég skal ekki fara út í það, en ætla að óska, að n. taki það til athugunar. Eins og nú er komið, er það nú orðið svo, að það er ekki endilega karlmaðurinn, sem er fyrirvinna hvers heimilis, heldur þekkir maður dæmi þess, að kvenmaður sé fyrirvinna heimilis, og þar hvílir á húsbóndanum, ekki síður en húsmóðurinni, að sjá um uppeldi barnanna. Ef maðurinn í þessu tilfelli verður ekkill, hverfur fyrirvinna heimilisins. Þá nýtur maðurinn ekki sömu kjara eftir l. og ekkja nýtur. En ef konan verður ekkja, hvort sem er í þessu tilfelli eða öðrum, þá á hún að fá meðlag með börnum sínum. En ef karlmaður verður ekkill, þá á hann ekkert slíkt að fá. Ég vil benda hv. n. á þetta. Og ef frv. verður tekið til athugunar á milli 2. og 3. umr., vænti ég, að hv. n. taki þetta til athugunar, og það því fremur sem í n. eru menn, sem mjög ákveðið eru með því, að réttindi karla og kvenna verði alveg hin sömu í öllum greinum.