21.04.1950
Efri deild: 91. fundur, 69. löggjafarþing.
Sjá dálk 504 í C-deild Alþingistíðinda. (3371)

87. mál, endurgreiðsla tolla af tilbúnum timburhúsum

Frsm. 1. minni hl. (Bernharð Stefánsson):

Herra forseti. Eins og menn munu minnast, var umr. frestað um þetta mál síðast þegar það var á dagskrá, samkvæmt beiðni um að svo yrði gert og að málið yrði á ný tekið til athugunar í fjhn. Nú hefur málið verið tekið til athugunar í n., og var hún næstum fullskipuð, þegar hún ræddi málið, það voru 4 nm. á fundi. En árangurinn af því varð lítill, það kom í ljós, að sumir nm. eru á móti málinu, t. d. hv. þm. Vestm., sem taldi sig þó sennilega verða með því, ef brtt. 474 væri samþ., a. m. k. tvær þeirra. Á hinn bóginn kom fram í n., að nm. litu svo á, að a. m. k. síðasti liður þessarar brtt. væri svo óskyldur því, sem um ræðir í þessu frv., að hvað sem um málið má annars segja, þá ætti tæplega við að setja slíkt inn í þetta frv., og verð ég að segja frá mínu sjónarmiði, að ég sé þá engin takmörk fyrir því, hvað mætti setja inn í þetta frv., ef það væri sett inn í l. um endurgreiðslu tolla af tilbúnum timburhúsum að bæta upp saltfisk, eins og þarna er farið fram á. Má þó segja, að hinir liðirnir séu skyldari, einkum a-liðurinn, þar sem farið er fram á endurgreiðslu á tollum eins og í frv., og segi ég fyrir mig, að ég get ekki haft á móti þeim lið og það því fremur sem sáralítið af þessum tollum mun vera greitt og litlar líkur fyrir því, að þeir verði greiddir. Annars get ég ekki nákvæmlega fullyrt um það, en þetta hef ég grun um, og hvað sem öðru líður, þá er það hliðstætt frv., sem felst í a-lið till. — Ég vildi aðeins skýra frá þessu fyrir hönd n., en að öðru leyti skal ég ekki lengja þetta mál, enda áður talað eins og þingsköp leyfa við þessa umr. málsins og tók aðeins til máls sem frsm. n. til að skýra frá því, að n. hefur rætt þetta mál án þess að komast að niðurstöðu.