01.03.1950
Efri deild: 66. fundur, 69. löggjafarþing.
Sjá dálk 511 í C-deild Alþingistíðinda. (3409)

121. mál, lyfsölulög

Flm. (Haraldur Guðmundsson) :

Herra forseti. Þótt undarlegt megi virðast, eru eiginlega engin l. til um lyfjaverzlun. Þessi rekstur öyggist á tilskipun frá 4. des. 1672, um lækna og lyfsala, og kansellíbréfi frá 16. sept. 1797, um lyfjasölu. Það er því ekki að ófyrirsynju, að sett verði heildarlöggjöf um þessi efni, þegar þess er gætt, hve umfangsmikið þetta starf er og að verzlun með þessar vörur miðast við önnur markmið, en verzlun með aðrar vörur. Árið 1942, þann 6. ágúst, fór þáverandi heilbr.- og félmrh., Jakob Möller, þess á leit við landlækni að hefja endurskoðun á gildandi fyrirmælum um þessi efni og skipaði með landlækni í n. í því skyni þá Þorstein Scheving Thorsteinsson lyfsala, Sverri Magnússon lyfjafræðing, Kristin Stefánsson lyfsölustjóra ríkisins og Einar Bjarnason fulltrúa. Þessi n. hélt allmarga fundi og samdi að lokum frv. um lyfjaverzlun, sem samkomulag varð um. Þetta frv. var svo sent Alþ. og lá til athugunar hjá heilbr.- og félmn. Nd., en ekkert varð úr flutningi þess inn í þingið. Nú hefur landlæknir tekið þetta frv., sem samkomulag varð um í mþn., til athugunar og gert á því nokkrar breyt., aðallega á fimm greinum þess. Þessar breyt. varða tvö efnisatriði. Samkvæmt frv. mþn. voru lyfsöluleyfi aðeins veitt lyfjafræðingum, sem lokið höfðu tilskildu prófi, en samkvæmt þessu frv. geta samvinnufélög, sjúkrasamlög, sveitar- og bæjarfélög og aðrar opinberar stofnanir einnig öðlazt lyfsöluleyfi. Að sjálfsögðu er þó tilskilið, að þessir aðilar hafi lærða menn í þjónustu sinni, sem veiti lyfjabúðunum forstöðu og beri ábyrgð á því, að ákvæðum l. sé fullnægt. Þetta er önnur breyt. Hin breyt. varðar skipun heildsölunnar. Í fyrra frv. var gert ráð fyrir eins konar sameignarfélagi lyfsölusjóðs og lyfsala.

Í þessu frv. er gert ráð fyrir því, að lyfjaheildsalan sé í höndum sérstakrar ríkisstofnunar. Þessar eru meginbreyt., en auk þess eru nokkrar smærri breyt., sem gerð er grein fyrir í grg. Ég held, að allir séu sammála um það, að ekki sé gerlegt að hafa núverandi skipun lengur og full nauðsyn sé á því, að í l. séu ákveðin fyrirmæli, sem glögglega marki sérstöðu þessara verzlunarfyrirtækja. — Ég veit ekki, í hvaða n. hv. dm. sýnist að málið ætti að fara, það á að sumu leyti heima í allshn., en eins gæti það farið til heilbr.- og félmn. Ég geymi mér að gera uppástungu um það, en legg til, að málinu verði vísað til 2. umr.