19.12.1949
Sameinað þing: 11. fundur, 69. löggjafarþing.
Sjá dálk 47 í D-deild Alþingistíðinda. (3486)

25. mál, uppbætur á laun opinberra starfsmanna

Atvmrh. (Jóhann Jósefsson):

Herra forseti. Ég vil taka undir það, sem 1. þm. Eyf. (BSt) sagði í sinni greinargóðu ræðu. Þetta mál er einn liður í því kapphlaupi, sem þjóðin er búin að heyja undanfarin ár og háð er enn. Það hafa ekki verið launamenn einir, sem þátt hafa tekið í þessu kapphlaupi, heldur þjóðin öll, og munu flestir eiga þar einhvern hlut að máli. Þegar fjárlögin voru afgreidd á þessu ári, þá hafði ég allar tilraunir í frammi til þess, að þau yrðu afgreidd hallalaus, og það lukkaðist að mestu leyti. En svo skeði það, eftir að fjárlögin voru samþ., að flutt var þáltill., sem leiddi af sér uppbót þá, sem hér er til umræðu í kvöld. Ég greiddi þá atkv. á móti till., að nokkru vegna þess, að ég leit sömu augum á þetta mál og sá þm., er síðast talaði, og ég taldi aðferðina ekki rétta. Hitt verð ég að játa, að ég hafði þá í augnablikinu ekki aðstöðu til að meta, svo að að ég gæti dóm á lagt, hvorir hefðu rétt fyrir sér, þeir, sem fluttu málið, eða hinir, sem fella vildu það. Þetta mál hefur verið flutt af miklu ofurkappi, og ekki síður hefur þess ofurkapps gætt hjá andmælendum málsins. Þessa ofurkapps varð líka vart hjá aðilunum sjálfum eða hluta af þeim snemma í júlí s. l. Ég hef orðið fyrir tvenns konar ámæli fyrir afskipti mín af þessu máli. Í fyrsta lagi vegna þess, að ég þrátt fyrir yfirlýsingu á móti till. féllst á að greiða umrædda uppbót, og í öðru lagi fyrir meðferðina á málinu í fjmrn. Hv. 1. þm. Árn. taldi meðferðina á málinu ranga, og þarf þá ekki að fara í grafgötur með, hvern hann er þar að ásaka. Nú, um frsm. fjvn. þarf ekki að tala um einstök ummæli, því að hans ræða var ein runa af fordæmingum bæði á principinu og meðferð málsins í fjmrn. Nú er bezt að segja hverja sögu eins og hún er, og er þá fyrst, að eftir að þáltill. var samþ. kom fyrrv. samgmrh. að máli við mig og taldi sér ekki fært að standa á móti kröfum símamanna, sem heyrðu undir hans ráðuneyti, og vegna þess að Alþ. hafði samþ. þáltill. um þetta mál, þá hlaut ég að fallast á rök hans, jafnvel þó að ég teldi þau veik. Hv. þm. eru beðnir að athuga það, að fjmrh. getur haft sína skoðun, rétta eða ranga, þó að hann verði að fara að vilja Alþingis eða meiri hluta Alþingis, jafnvel þó að um þál. sé að ræða. Og hér vissu launamenn það, að fyrir lá yfirlýsing meiri hluta Alþ. um, að 4 millj. kr. skyldi greiða á þessu ári til uppbótar á laun þeirra. Ég ætla, að flestum hafi verið það kunnugt, a. m. k. þeim, sem voru í Rvík í byrjun júní, hvað á gekk í þeim efnum hjá einum flokki starfsmanna ríkisins, í tilefni af þeirri tregðu, er þeir þóttust verða varir við gagnvart því, að féð væri reitt af hendi. Ég skal ekki fara öllu nánar út í það, en þau viðurlög, er mátti sjá hilla undir, voru í mínum augum alvarlegri, en svo, að alveg væri hægt að ganga þar þegjandi fram hjá.

Nú fól þál. frá síðasta vori annað og frekara í sér, en þessa fjárgreiðslu, það er að segja skyldu, sem mér var lögð á herðar með að láta rannsaka launakjör starfsmanna hins opinbera. Þá skyldu innti ég að sjálfsögðu af hendi og valdi til þeirrar athugunar að mínum dómi heiðarlega og réttsýna menn, og vil ég nota tækifærið hér og segja þetta um þá vegna sérstaklega niðrandi ummæla frsm. í þessum umræðum í þeirra garð, er til verksins voru valdir af mér. Ég vil taka fram, að ég álít þau ummæli í hæsta máta ómakleg, að þessir menn hafi sótzt eftir að gefa hlutdræga mynd af ástandinu. Því fer fjarri, að það sé réttilega mælt. Ég hafði á þeim tíma, er þáltill. var rædd hér í lok Alþ. s. l. vor, ekki aðstöðu til að dæma náið um, hvað rétt eða rangt væri í því, að launamenn væru vanhaldnir. En ég hafði betri aðstöðu til þess, er skýrsla nefndar þeirrar lá fyrir, er ég skipaði samkvæmt þál. til að rannsaka einmitt þetta. Í þessu sambandi hef ég verið borinn ásökunum. Ég tók ekki þann kost að verða valdur að vandræðum, sem hlotizt gátu af mínum mótþróa, og ekki þann kost að loka augunum fyrir nýjum upplýsingum í máli, sem Alþ. fól mér að rannsaka. Ef ég þarf afsakana við, þá eru þær þessar.

Þá er það framkvæmd málsins, sem svo mjög hefur verið dregin inn í umræður og mörgum hv. þm. hefur gengið nærri hjarta. Þessi framkvæmd var í stuttu máli þannig, eftir að þessir menn höfðu skilað niðurstöðunni af rannsókn sinni, eða 4 af þeim, því að sá fimmti fór frá störfum: Ég vildi ekki fallast á að færa málið inn á svo víðan vettvang, og virtist þá sýnilegt, að ekki yrði komizt að niðurstöðu, fyrr en eftir nokkra mánuði. En er ég hafði svo tekið mínar ákvarðanir, skrifaði ráðuneytið B. S. R. B. bréf 9. júlí og tilkynnt, að ákveðið væri að greiða þær 4 milljónir í launabætur, sem meiri hluti Alþ. hefði heimilað að greiða á þessu ári, og var jafnframt beðið um tillögur stjórnar B. S. R. B. um skiptingu þessa fjár. Ég held, að ég hafi heyrt það rétt hjá hv. frsm. meiri hl. fjvn., að hann sagði, að B. S. R. B. hefði aldrei gert neinar till. um skiptinguna, og var það þá ein sökin á hendur mér, að ég hefði farið með féð eins og gert var. En þetta er ekki rétt. B. S. R. B. skrifaði ríkisstj. 19. júlí sem svar við fyrrnefndu bréfi fjmrn., og fékk rn. afrit af því bréfi, sem hljóðar svo, með leyfi hv. forseta:

„Eftir móttöku heiðraðs bréfs yðar, hv. fjmrh., dags. 9. þ. m., varðandi skiptingu þess fjár, sem hv. ríkisstj. hefur ákveðið að verja til greiðslu launauppbóta til handa ríkisstarfsmönnum á þessu ári, samkv. heimild í þál. frá 18. maí þ. á., höfum vér haldið fundi með trúnaðarmönnum bandalagsfélaga í Reykjavík og Hafnarfirði í samræmi við samþykkt síðasta þings vors.

Á fundi þ. 14. þ. m. voru einróma gerðar svofelldar samþykktir: „Fundur trúnaðarmanna bandalagsfélaga í Reykjavík og Hafnarfirði, haldinn í Edduhúsinu í Reykjavik 14. júlí 1949, felur stjórn B. S. R. B. að vinna að því við hæstvirta ríkisstjórn, að launauppbót til ríkisstarfsmanna verði greidd á sama hátt og samningar hafa verið gerðir um við FÍS, það er með fimm jöfnum afborgunum á mánuðunum júlí til nóvember þ. á. Jafnframt leggur fundurinn áherzlu á, að stjórnin beiti sér fyrir því, að nú þegar verði hafinn undirbúningur að endurskoðun launalaganna.

Fundurinn ályktar, að tillaga B. S. R. B. um skiptingu þeirra 4 milljóna, sem ákveðið hefur verið að greiða starfsmönnum ríkisins í launauppbætur á þessu ári samkv. bréfi fjmrh. dags. 9. þ. m., skuli vera sú, að greiða skuli 20% á öll laun samkvæmt ákvæðum launalaga.“

Samkvæmt viðtali formanns vors við hv. forsrh. þ. 15. þ. m. staðfestast gerðir þessar hér með bréflega, um leið og vér ítrekum ósk vora um viðtal um mál þessi. — Virðingarfyllst“ o. s. frv.

Mér finnst þetta nú sæmilega greinileg ósk um það, hvernig greiða skuli féð, eða skipta því, á þessu tímabili. Ég bað svo um, að reiknað yrði út, hvað launaupphæðin yrði há, sem greiða þyrfti uppbótina á, og var því lýst af hv. frsm. meiri hl. fjvn., samkvæmt skýrslu frá fjmrn., er hjá honum liggur, að þessi útreikningur hefði farið fram. Í þessari skýrslu segir svo, með leyfi hæstv. forseta:

„Gert var ráð fyrir því, að greidd yrði uppbót á laun fastra starfsmanna þeirra, sem greiddu iðgjald af launum sínum í lífeyrissjóð starfsmanna eða barnakennara, og þá einnig þeirra, sem fyrir aldurssakir voru undanþegnir iðgjöldum í sjóðina. Laun þessara starfsmanna námu á fyrra ári nálægt 50 millj. kr., og var því búizt við, að heimildarfjárhæðin hrykki langt til að greiða 8,33% á árslaunin, eða 20% á fimm mánaða laun, mánaðanna júlí–nóvember incl. Var skýrt tekið fram í framangreindu bréfi til bandalagsins, að launauppbótina bæri að skoða sem uppbót á árslaunin, þótt sá háttur væri hafður á útborgunum, að 20% væru greidd á mánaðarlaunin. Nú reyndist það svo, að ógerlegt var að útiloka frá launauppbótinni stóra flokka starfsmanna, sem að vísu urðu að teljast fastráðnir, en ekki greiddu enn iðgjöld í lífeyrissjóðina, og var miklu meira um slíka starfsmenn, en ráðuneytinu var kunnugt um, þegar áætlunin um launagreiðslurnar var gerð, og er hér einkum um að ræða starfsmenn stofnana, sem komið hafa síðari árin, eftir að launalögin voru sett. Þegar gætt var að, hve miklu launauppbótin hafði numið eftir að 4 mánaðargreiðslur höfðu verið inntar af hendi, kom í ljós, að nærri lá, að allar 4 milljónirnar höfðu farið í þær.“

Það, sem fyrir lá, er ákvörðun var tekin um að skipta launauppbótinni niður á fimm mánuði, var, að hún kæmi á um 50 milljónir. Það, sem skakkar, er að til viðbótar komu fleiri flokkar eða menn úr þeim, sem hafa hliðstæða aðstöðu við menn, sem taldir eru upp í launal., og ekki var stætt á að neita alveg um uppbót miðað við aðra.

Þegar svo farið var að flytja það hér í blöðum, að um væri að ræða 20% uppbót á laun, þótti rn. rétt að undirstrika afstöðu sína gagnvart B. S. R. B., og því skrifaði rn. bandalaginu bréf 26. júlí, sem bæði var framkallað af fyrrgreindum ástæðum og því, að B. S. R. B. hélt sér við 20% í sínu bréfi. Bréfi rn. frá 26. júlí var ætlað að taka af öll tvímæli um það, hver væri ásetningurinn með að fallast á greiðsluaðferð þá, er B. S. R. B. hafði stungið upp á. Bréfið frá 26. júlí hljóðar svo, með leyfi hæstv. forseta:

„Ráðuneytið hefur meðtekið samrit af bréfi yðar til ríkisstjórnarinnar dags. 19/7 þ. á., þar sem þess er óskað, að þær 4 millj. kr., sem Alþ. heimilaði að greiddar yrðu til uppbótar á laun starfsmanna ríkisins á þessu ári, verði greiddar með 5 jöfnum afborgunum á mánaðarlaun ríkisstarfsmanna á mánuðina júlí-nóvember þ. á. incl. Er í því sambandi vísað til samkomulags, er samgöngumálaráðherra hefur gert við F. Í. S. um greiðslu launauppbótanna.

Ráðuneytið getur fallizt á, að greiðsla launauppbótarinnar fari þannig fram, að 1/5 hluti hennar verði greiddur mánaðarlega um leið og grunnlaun eru greidd fyrir mánuðina júlínóvember, þó þannig, að 1. ágúst greiðist 2/5 hlutar (júlí og ágúst) og síðan 1/5 hluti hvern 1. dag hina næstu þrjá mánuði, þó aldrei hærri upphæð en 4 millj. kr. alls á árinu.

Telur ráðuneytið þetta gert til að mæta óskum starfsmannasambandsins um útborgunartilhögun, þar sem svo langt er liðið á árið, að ekki er hægt að greiða uppbótina jafnt á hvern mánuð ársins, en eins og yður er kunnugt, ætlaðist Alþ. til, að uppbótin yrði greidd á laun alls ársins, og er því óheimilt að skoða greiðslu þessara 4 millj. einungis sem launaviðbót síðari hluta ársins og miða hundraðshluta launahækkunarinnar við það.“

Með þessu vildi ráðuneytið undirstrika það, að hér væri um að ræða 8,33% launahækkun, miðað við árslaun, en ekki 20% hækkun, eins og farið var að gefa í skyn í manna munni og skrifað stóð í bréfi B. S. R. B. Það var meira að segja um það rætt, þótt ekki stæði það í bréfi ráðuneytisins, að ef upphæðin entist ekki til að inna af hendi þessa hundraðshlutagreiðslu, þyrfti að jafna það á síðustu greiðslunni, svo að heildarupphæðin færi ekki fram úr 4 milljónum.

Þegar svo nóvembermánuður var kominn, var sýnt, að féð nægði ekki til. Þess vegna var málið tekið upp innan ríkisstj., og meiri hluti hennar ákvað að greiða sömu uppbótina fyrir nóvember og næstu mánuði á undan, tveir ráðherrar voru hlutlausir um þessa ákvörðun. Því var líka greitt fyrir nóvember. Það má sjálfsagt ásaka ríkisstj. fyrir að gera þetta, en um aðra framkvæmd eða að öðru leyti um framkvæmd á útborgun eða greiðslum á þessum heimiluðu 4 milljónum er vart með mikilli sanngirni hægt að ásaka fjmrn. Það er sýnt af þessu öllu, að ráðuneytið gerði allt, sem hægt var að gera til að uppræta þá skoðun eða misskilning, að um hærri uppbót en 8,33% á mánuði væri að ræða. Ef því einhverjir eru sem ætla, að sökum þess sem þegar hefur fram farið í málinu á grundvelli samþykktar meiri hluta Alþ., hafi skapazt réttur fyrir B. S. R. B. til að krefjast áframhaldandi 20% launauppbótar, þá verð ég að mótmæla, að sá réttur sé fyrir hendi og að nokkur grundvöllur í þá átt sé fyrir hendi.

Ég held, að ég hafi ekki fleira sérstakt um þetta mál að segja á þessu stigi, en mér fannst skylt að upplýsa málið af hálfu ráðuneytis, er ég veitti forstöðu, er þetta fór fram, er að framan segir. Mér virðist, að í ræðum hér um þetta hafi verið næsta mikil áherzla lögð á, hvaða ábyrgð ráðuneytið bæri á þessu máli, en minna gætt hins, að með útborgun þessara fjögurra milljóna króna var um að ræða framkvæmdaatriði, sem heimilað var af Alþ. og, eins og allt var vaxið og ég vék að í upphafi, hefði verið erfitt fyrir fleiri, en þáv. fjmrh. og aðra að standa í móti. Ég sé ekki, að hér hafi verið skapað eða gefið fordæmi fyrir neinu öðru en því, sem um var að ræða í upphafi, þeim hundraðshluta af upphæðinni, sem þál. heimilaði, sem var 8,33% miðað við árslaun. Ég leyfi mér að staðhæfa, að af hálfu ráðuneytisins hafi allt verið gert til að halda málinu á þeim grundvelli. En einhvern tíma varð að deila þessari upphæð á þann tíma árs, sem þá var eftir, þar sem langt var liðið á árið, eða um þriðjungur, er þál. var gerð.