04.01.1950
Sameinað þing: 13. fundur, 69. löggjafarþing.
Sjá dálk 214 í D-deild Alþingistíðinda. (3744)

73. mál, tunnuverksmiðja á Akureyri

Flm. (Steingrímur Aðalsteinsson) :

Herra forseti. Mér þykir leitt að heyra, að undirtektir hæstv. atvmrh. undir þetta mál eru nú daufari, en ég bjóst við. Að vísu viðurkennir hann — og enda engin leið annað —, að Akureyri, sem selji þessa tunnuverksmiðju ríkinu, eigi kröfu á því, að staðið sé við gerða samninga um það að starfrækja hana. En að hinu leytinu telur hann á því margs konar annmarka, að hægt sé að gera það. Ég skal ekki fara að tína upp allt, sem hann sagði í því efni, heldur standa við það, sem ég lofaði forseta, að vera fáorður, en vil þó drepa lauslega á þau tvö meginatriði, sem hann taldi sérstaklega því til fyrirstöðu, að hægt væri að reka tunnuverksmiðjuna á Akureyri, eins og til er ætlazt með þessari till. Önnur ástæðan var sú, að þessi innlenda framleiðsla okkar mundi ekki verða samkeppnisfær við erlenda tunnusmíði, hvorki að því er verð né gæði snertir. Hv. þm. Siglf. (ÁkJ) hefur að vísu rætt þetta nokkuð og komið fram með ýmsar röksemdir, sem afsanna þetta að verulegu leyti, en ég vil þó enn nefna nokkur atriði í sambandi við þetta. — Ég vil þá í fyrsta lagi geta þess, að þær tunnur, sem á þessu tímabili hafa verið smíðaðar í tunnuverksmiðjunni á Akureyri, eftir að ríkið keypti hana og hafði fengið til hennar nokkrar vélar, sem raunar voru ekki nýjar, heldur notaðar, en betri en sumar af þeim, sem voru fyrir í verksmiðjunni, — þær tunnur, sem smíðaðar hafa verið á þessu tímabili, hafa nú allar verið notaðar til síldarsöltunar í verstöðvum við Eyjafjörð, á Húsavík og Raufarhöfn, og get ég fullyrt, að á öllum þessum stöðum hefur saltendum líkað þessar tunnur vel og betur en erlendar tunnur, sem þeir höfðu áður notað, og einkum vegna þess, að þessar tunnur eru miklu jafnari að stærð en erlendu tunnurnar, sem fluttar hafa verið hingað og hafa verið af mjög mismunandi gerðum og stærðum, sem hefur orðið til þess, að saltendur hafa orðið fyrir stórtjóni af því, að það síldarmagn, sem þeir hafa selt, hefur orðið miklu meira en þeir voru skuldbundnir til, þannig að þeir hafa af þeim sökum orðið fyrir miklu tjóni af síldarsölu sinni. Þessar tunnur hafa aftur á móti verið smíðaðar hér af sömu mönnum í sömu verksmiðju og þess vegna nokkurn veginn af sömu stærð. Frágangurinn hefur verið svo vandaður sem kostur er á, og ekki hefur verið kvartað yfir því, að þær væru verri en þær tunnur, sem við höfum fengið erlendis frá. Þær hafa sem sagt líkað vel og betur en erlendar. Ég get nefnt það sem dæmi, að ekki óreyndara fyrirtæki en S. Í. S. átti fyrir nokkru kost á erlendum tunnum til þess að láta salta í kjöt.

Kjötið átti að salta hér og dreifa því út um land, og eins og ég sagði, átti S. Í. S. kost á að fá erlendar tunnur, sem voru til hér á staðnum, en það kaus heldur hinar innlendu, enda þótt það þyrfti að kosta miklu til að flytja tunnurnar hingað suður. Þetta eina dæmi ætti að sanna fullvel, að íslenzku tunnurnar þykja betri, en erlendar. Viðvíkjandi verðinu, þá er það rétt hjá hæstv. atvmrh., að þessar tunnur eru eitthvað dýrari en tunnur, sem hægt er að fá erlendis frá, en þá er á það að líta, að endurbæta þarf verksmiðjuna, t. d. þarf að byggja almennilegt geymsluhús, svo að tunnurnar liggi ekki undir skemmdum. Þá verður framleiðslan mun ódýrari og vel samkeppnisfær við erlenda framleiðslu hvað verð snertir. En þrátt fyrir það, að íslenzku tunnurnar séu eitthvað dýrari, þá held ég, að hæstv. ráðh. hafi gert allt of mikið úr verðmismuninum, þegar hann sagði, að íslenzku tunnurnar væru 4–5 sinnum dýrari, en útlendar tunnur. Ég held, að þetta hljóti að vera orðum aukið, og fæ ég vart trúað þessu, m. a. vegna þess, að smíðakostnaðurinn, sem er aðalliðurinn í verðinu, er engan veginn svo miklu meiri hér, en annars staðar, að hann geti valdið slíkum verðmismun. Smíðakostnaðurinn er frá 6–7 kr. á tunnu og komst upp í 8 kr., þegar unnið var af mestum krafti, m. a. eftirvinnu og með óvönum mönnum, eins og var fyrst eftir að verksmiðjan tók til starfa. Sjá allir, að munurinn á þessum kostnaði og tilsvarandi kostnaði erlendis getur engan veginn valdið því, að íslenzku tunnurnar verði 4–5 sinnum dýrari, eins og hæstv. ráðh. hélt fram, og ef þetta er rétt, hlýtur eitthvað að liggja hér til grundvallar, sem enn hefur ekki verið upplýst. Ég get því ekki viðurkennt rök hæstv. ráðh. gegn tunnuframleiðslu hér á landi. Ég álít þvert á móti, að við eigum að framleiða sjálfir tunnur eftir okkar þörfum, en ekki bara eitthvað smávegis, eins og hæstv. ráðh. talaði um, og ég held, að það sé hægt að framleiða þær hér litlu dýrari en erlendar tunnur, og þótt þær kunni að verða dýrari, þá er það samt þjóðhagslega rétt að framleiða þær hér innanlands, því að verulegur hluti af kostnaðarverði þeirra er tekjur til innlendra manna. — Skal ég svo ekki þreyta hæstv. forseta með frekari umr., en vona, að hv. n., sem þetta mál fær til meðferðar, athugi það alvarlega og komist að þeirri niðurstöðu, að verksmiðjan eigi fullan rétt á sér og að Akureyri eigi fullan rétt á, að verksmiðjan sé rekin þar.