19.04.1950
Sameinað þing: 39. fundur, 69. löggjafarþing.
Sjá dálk 221 í D-deild Alþingistíðinda. (3751)

73. mál, tunnuverksmiðja á Akureyri

Frsm. meiri hl. (Pétur Ottesen):

Mér skildist, að meginhluti ræðu hv. 4. landsk. hafi verið ofanígjafir í sambandi við þessa umr. Í niðurstöðum fjvn. felst ekki annað en það, að gengið er út frá því, að tunnusmíðin fari fram við sem hagkvæmastar aðstæður, þannig að tunnurnar fáist bæði vandaðar og með hagkvæmu verði. Ég veit ekki, hvernig hv. 4. landsk. getur lagt á móti þessu sjónarmiði. Það er rétt, að fjvn. hefur leitað umsagnar síldarútvegsnefndar varðandi tunnusmíðina, og á þskj. 509 stendur m. a. í áliti síldarútvegsnefndar:

.. hefur Siglufjörður svo margt fram yfir Akureyri í þessu efni, að ekki er forsvaranlegt, að neitt af þessum fáu tunnum, sem smíðaðar verða í vetur, verði framleitt annars staðar, en á Siglufirði.“ M. ö. o., sú smíði, sem fyrirhuguð er, telur nefndin hagkvæmast, að fari fram á Siglufirði, en smíðinni sé ekki skipt á Siglufjörð og Akureyri. Upp úr þessum fullyrðingum síldarútvegsn. höfum við í meiri hl. fjvn. ekki hikað við að draga slíkar ályktanir og móta afstöðu okkar til málsins.

Hv. 4. landsk. vildi gera lítið úr þeim mismun, sem verið hefði á innlendum síldartunnum og þeim, sem keyptar hafa verið erlendis og fluttar til landsins. Það mun þó hafa verið um 1.5–20 kr. mismun að ræða eða meira, t. d. tunnur frá Hollandi, sem eru yfir 20 kr. ódýrari en tunnur, sem keyptar voru frá Siglufirði á síðastliðnu hausti. Þessi verðmunur er auðvitað miðaður við tunnurnar komnar á land hér við Faxaflóa. Við raunverulegt söluverð tunnanna bætist því vitanlega þarna flutningsgjald frá Siglufirði. Ég gæti nú aflað mér frekari upplýsinga um þetta atriði, en ég hef enga ástæðu til þess að rengja þann ágæta mann, sem ég hef þetta frá, bæði vegna kunnugleika hans á þessum málum og að hann lét hafa þetta eftir sér í blaðagrein. En niðurstöður meiri hl. fjvn. gefa ekkert tilefni til umræðna þeirra, sem hv. þm. hafði um það, hvort hagkvæmara væri að smíða tunnurnar innanlands eða erlendis. Meiri hl. fjvn. leggur aðeins á það áherzlu að fá tunnurnar smíðaðar þar, sem þær verða hagkvæmastar, beztar og ódýrastar, og gengur út frá, að niðurstöður síldarútvegsn. í þessu efni séu réttar, en samkvæmt þeim eru skilyrði öll mun betri á Siglufirði. Hv. 4. landsk. varð að viðurkenna, að eins og kaupsamningurinn liggur fyrir eða þar sem talað er um árlegan rekstur í honum, er miðað við, að tunnuverksmiðjan fái afnot sérstakrar bryggju á Siglufirði. Hv. 4. landsk. segir vera mörg fleiri fríðindi á Akureyri, eins og eftirgjöf á hafnargjöldum og fleira, sem vel má vera rétt. En þessi fríðindi eru öll tengd við árlegan rekstur. En þótt öll þessi atriði væru rétt hjá hv. þm., þá kippir það ekki fótunum undan því áliti síldarútvegsn., að hagstæðara sé, þegar á allt er litið, að smíða tunnurnar á Siglufirði, en Akureyri. Ég hef ekki heldur orðið var við, að neitt annað kæmi fram hér í umr., sem kippi fótunum undan því, sem stjórn síldarútvegsn. hefur um þetta mál sagt, þrátt fyrir miklar tilraunir í þá átt bæði af hálfu hv. þm. Ak. og hv. 4. landsk. Og ekkert hefur heldur komið fram, sem gerir það óeðlilegt af fjvn. að taka álit síldarútvegsn. gott og gilt.

Ég vildi svo út af því, sem hv. 4. landsk. sagði, að þótt fjvn. vildi rengja sín ummæli, þá ætti hún þó að geta tekið gilt álit frá bæjarstjóranum á Akureyri, segja það, að ekkert hefur komið fram hjá n., sem gefur neina ástæðu til þess að taka nokkuð meira tillit til þess, sem bæjarstjórinn á Akureyri segir varðandi þetta mál, heldur en þess, sem hv. 4. landsk. segir. Ég vil svo taka það fram, að það er ekkert í kaupsamningnum, sem skuldbindur stjórn tunnuverksmiðjanna til þess að láta smíða tunnur á Akureyri. Hv. þm. Ak. kom fram með alveg nýtt atriði í málinu, sem sé það, að stjórn tunnuverksmiðjanna hefði nú nýverið ákveðið, þrátt fyrir það, sem fram kemur í bréfi frá henni til fjvn., að hefja tunnusmíði á Akureyri og láta smíða þar allt að 10.000 tunnur. Ég verð að segja það, að þessar upplýsingar gefa Alþingi viðbótartilefni til þess að samþ. hina rökst. dagskrá, því hér á, þrátt fyrir lakari aðstæður á Akureyri, en Siglufirði — og á Siglufirði getum við smíðað allar okkar tunnur —, að fara að smíða tunnur á Akureyri, og það eftir að upplýst er, að þær tunnur, sem þar eru smíðaðar, eru bæði lakari og dýrari, lakari vegna þess, að á Akureyri þarf að geyma þær úti. Auk þess telur stjórn síldarútvegsn., að hægt sé að framleiða betri tunnur á Siglufirði. Þetta allt gefur ærna ástæðu til þess að samþ. hina rökst. dagskrá, því að hér er stjórn tunnuverksmiðjanna að brjóta það prinsip að láta smíða tunnurnar þar, sem hún telur að þær verði beztar og ódýrastar. Þótt samþykkt hinnar rökst. dagskrár komi nú kannske ekki í veg fyrir þessa fyrirhuguðu smíði, þá mun hún þó koma í veg fyrir, að slíkt endurtaki sig í framtíðinni. Ég sé svo ekki ástæðu til þess að ræða frekar um þetta nema tilefni gefist.