19.04.1950
Sameinað þing: 39. fundur, 69. löggjafarþing.
Sjá dálk 224 í D-deild Alþingistíðinda. (3753)

73. mál, tunnuverksmiðja á Akureyri

Frsm. meiri hl. (Pétur Ottesen):

Ég vildi aðeins leiðrétta það, sem hv. þm. hafði eftir mér að raunar hefði allri fyrri ræðu hans verið ofaukið í þessum umr. Ég sagði, að niðurstaða meiri hl. fjvn. væri ekki á nokkurn hátt byggð á því, hvort hagkvæmara væri að smíða tunnurnar erlendis eða innanlands, en að þessu laut meginhlutinn af fyrri ræðu hv. þm., og sá hluti sagði ég, að væri með öllu óþarfur í þessum umr. Um þetta atriði snerist einnig mikill hluti hinnar seinni ræðu hv. þm. Ég veit ekki, hvort hann vill reyna að læða því inn hjá hv. þm., að till. meiri hl. fjvn. gangi á móti því, að tunnurnar séu smíðaðar innanlands. Ég veit nú, að ekki þýðir að beita þessari aðferð hér, því að till. meiri hl. er prentuð, og getur hver hv. þm. séð við lestur hennar, að þetta er alls ekki meiningin. En þetta bendir á, hve málstaðurinn er veikur, sem hv. þm. er að reyna að verja, þegar hann gerir þetta að uppistöðu í tveim ræðum, í stað þess að ræða málið eins og það liggur fyrir. Nú loksins viðurkenndi hv. þm. það, sem stjórn tunnuverksmiðjanna hefur lagt mikla áherzlu á, að það vantar alveg geymslupláss á Akureyri, en það er aftur á móti til staðar á Siglufirði. Það getur vel verið, að þetta sé að kenna vanrækslu af hálfu stjórnar tunnuverksmiðjanna, eins og hv. þm. vildi vera láta, um það skal ég ekkert segja, en við verðum bara að miða við þær aðstæður, sem fyrir hendi eru. Og ekki verður það til þess að lækka verðið á tunnunum, ef nú ætti að fara að byggja stórt geymsluhús á Akureyri, þegar nóg er til af slíku á Siglufirði. Hins vegar er það alveg rétt hjá hv. þm., að stjórn tunnuverksmiðjanna hefur fyrirhugað og raunar hafið byggingu stærðarhúss á Siglufirði, en það er ekki geymsluhús, eins og hv. þm. vildi vera láta, heldur smíðahús. Við allar þessar aðstæður höfum við dregið þá ályktun, sem við höfum gert. Það er alveg rétt hjá hv. þm., að það styrkir okkur mjög á mörkuðunum að vera sjálfum okkur nógir með tunnur undir síld þá, sem við seljum. En það dregur mjög úr þessum styrkleika okkar, ef þær tunnur, sem við smíðum og notum, eru dýrari og jafnvel lakari en þær, sem keppinautar okkar í þessum atvinnuvegi nota. Það er einmitt með þetta fyrir augum, sem meiri hl. fjvn. leggur á það höfuðáherzlu að fá tunnurnar smíðaðar þar, sem þær aðstæður eru fyrir hendi, að þær verði hvort tveggja í senn vandaðastar og beztar. Og það er um þetta, sem umr. eiga að snúast, en ekki það atriði, sem hv. þm. hefur viljað draga þær inn á og fjvn. hefur ekki gefið tilefni til.

Hv. þm. hefur nú orðið að viðurkenna þann aðstöðumun, sem er á því að smíða tunnurnar á Siglufirði og Akureyri. Á Siglufirði er sem sagt þegar til geymsluhús undir tunnurnar, svo að þær þurfa ekki að liggja undir skemmdum, en á Akureyri er slíkt ekki til staðar. — Ég skal svo ekki orðlengja frekar um þetta mál að öðru leyti en því, að hv. þm. er alltaf að krefja fjvn. um tölulegar upplýsingar varðandi þann verðmun, sem er á tunnum smíðuðum innanlands og svo þeim, sem keyptar eru erlendis frá. Það er alveg rétt hjá hv. þm., að form. fjvn. varð við þeim tilmælum þm. að skrifa síldarútvegsn. um þetta atriði, en það kemur bara ekki því máli við, sem hér er til umr. Ég minntist á þennan verðmun hér áðan eftir upplýsingum frá ákveðnum aðila. Það er nú að vísu alveg rétt hjá hv. þm., að ég hef ekki tölur um þetta atriði við höndina, en ég get kannske aflað mér þeirra, áður en langt um líður. En þar sem hv. þm. vildi draga það í efa, að útgerðarmaðurinn hefði haft rétt fyrir sér, þá vil ég lýsa því yfir, að ég tel, að hann hafi haft þetta alveg raunverulega og af sinni eigin reynslu fyrir sér.

Það var verið að hneykslast á því hér áðan, að nefnd er í nál. meiri hl. stjórn síldarútvegsn., og ég held, að það hafi verið hv. þm. Ísaf., sem var svo hugfanginn yfir þessu, að hann sá ástæðu til þess að grípa fram í og segja, að þetta væri bara vitleysa og engin sérstök stjórn síldarútvegsn. væri til. En velt ekki þessi hv. þm., að tunnuverksmiðjur ríkisins 1úta sömu stjórn og síldarútvegsn.? Það er stj., sem fyrir síldarútvegsn. stendur, sem á að fara með þessi mál. Það sýnir bezt alvöruna í þessu máli, þegar menn eru að leika sér að því að hártoga slíkt. Ég hélt, að ekkert þyrfti um þetta að deila, það er skýrt og greinilegt og ekki brot á neinu venjulegu málfari.