10.05.1950
Sameinað þing: 47. fundur, 69. löggjafarþing.
Sjá dálk 425 í D-deild Alþingistíðinda. (4103)

909. mál, endurskoðun launalaganna o.fl.

Fyrirspyrjandi (Gylfi Þ. Gíslason):

Herra forseti. Á síðasta þingi var samþ. þál. á þskj. 800 um heimild fyrir ríkisstj. til að greiða uppbætur á laun opinberra starfsmanna. Samkvæmt henni var opinberum starfsmönnum greidd 20% launauppbót á síðari helmingi s. l. árs. Um áramótin síðustu var samþ. þál. um heimild fyrir ríkisstj. til að halda áfram að greiða uppbætur á laun opinberra starfsmanna, og hljóðar hún þannig, með leyfi hæstv. forseta:

„Alþingi ályktar að heimila ríkisstj. að halda áfram að greiða til bráðabirgða sömu uppbót á mánaðarlaun starfsmanna ríkisins og greidd hefur verið frá 1. júlí s. l. á grundvelli ályktunar Alþingis frá 18. maí s. l., þar til afgreiðslu fjárlaga fyrir árið 1950 er lokið.“

Uppbætur voru fyrst greiddar samkvæmt þessari till. á sama hátt og verið hafði síðarí hluta s. l. árs, 20%. Fyrir tveimur mánuðum lækkaði ríkisstj. hins vegar uppbæturnar úr 20% í 15%. Ég lít þannig á og við, sem að þessari fyrirspurn stöndum, að það sé mjög hæpið, að þessi ráðstöfun. sem ríkisstj. hefur gert, sé í samræmi við þá viljayfirlýsingu, sem fram kom í þessari þál., þar sem þar er gert ráð fyrir, að sama uppbót sé greidd áfram, þangað til fjárl. hafa verið afgr., eða 20%. En að öðru leyti var eindregið ráð fyrir því gert, að launal. væru endurskoðuð á þessu þingi. Nú eru þinglok að nálgast, og þess vegna höfum við leyft okkur að leggja fram fyrirspurn um það, hvort væntanlegt sé frv. til nýrra launal. frá ríkisstj., og svo, hvað ríkisstj. hyggist fyrir um greiðslu uppbóta á laun opinberra starfsmanna þar til ný launal. hafa verið sett, og sérstaklega hvort búast megi við því, að launauppbótinni verði breytt frá því, sem verið hefur, eða hvort ætlunin sé að greiða aðeins 15% launauppbót.