15.02.1950
Sameinað þing: 26. fundur, 69. löggjafarþing.
Sjá dálk 413 í D-deild Alþingistíðinda. (4134)

114. mál, erlendar fréttir útvarpsins

Fyrirspyrjandi (Jónas Árnason) :

Herra forseti. Ég vil þakka hæstv. ráðh. fyrir svörin, sem hann gaf við fyrirspurn minni. Voru þau á þann veg, sem vert er að fagna. Starfsmönnum fréttastofunnar er eftir þessu leyfilegt að afla frétta og birta þær, hvaðan sem þær berast. Og hæstv. ráðh. hefur þá eflaust ekkert á móti því, að fréttamönnum útvarpsins sé bent á, að þeir mættu gjarnan láta meiri víðsýni ráða í starfi sínu, afla einnig frétta utan ramma brezka útvarpsins, segja okkur t. d. stöku sinnum frá því, hvað tveir fimmtu hlutar mannkynsins aðhafast annað en kveða upp dauðadóma og framleiða eiturlyf.