12.01.1950
Sameinað þing: 18. fundur, 69. löggjafarþing.
Sjá dálk 192 í B-deild Alþingistíðinda. (416)

81. mál, ríkisábyrgð á útflutningsvörum bátaútvegsins o.fl.

Sigurður Ágústsson:

Herra forseti. Það eru aðeins nokkur orð til að leiðrétta misskilning hv. 1. þm. S-M. um það, að lifrin sé greidd á sama verði alls staðar yfir vertíðina. Þetta er sá mesti misskilningur, enda gæti það ekki heldur átt sér stað, og jafnvel þó að um aðalvertíð ársins sé að ræða, vetrarvertíðina, þá er lifrin ákaflega misjöfn eftir því, hvar hún fæst við strendur landsins. Hér við Faxaflóa mun lifrin vera nokkuð jöfn og skila miklu lýsi. Þó tel ég víst, að lifrin í Vestmannaeyjum sé bezt, en það skiptir alveg um, þegar kemur til Breiðafjarðar eða Vestfjarða. Og þetta hefur komið fram sömuleiðis í sambandi við fiskábyrgðina. Fiskurinn, sem veiddur er vestur frá, er mun rýrari og skilar minni flökum en fiskurinn við Faxaflóa. Eitt ágætt samvinnufélag á Vesturlandi tapaði stórfé á vertíðinni 1947. Þá keypti það mikið af fiski, slægðum með haus, annaðist söltun á honum og seldi á erlendum markaði með því verði, sem fiskábyrgðarnefnd reiknaði og áleit, að nægði til þess að standast þann kostnað, sem viðkomandi samvinnufélag hafði við söltun á fiskinum. En samvinnufélagið tapaði 260 þús. kr. á fiskkaupunum og verkun hans á þessari vertíð. Og þetta er ekkert einsdæmi með þetta eina fyrirtæki. Fjöldi af einstaklingum, sem keyptu, fisk á þessari vertíð, töpuðu stórfé í sambandi við fiskverkun. Halda nú hv. þm., að margir vilji annast bræðslu á lifur og eiga allt undir náð fiskábyrgðarnefndar, hvaða verð kemur út úr lýsissölunni? Allir útreikningar fiskábyrgðarnefndar viðkomandi fiskábyrgðinni hafa verið miðaðir við, hvernig fiskurinn er hér við Faxaflóa. Ég veit, að þeir munu líka reikna lýsisábyrgðarverðið eftir því, sem fiskurinn hér við Faxaflóa gefur feita lifur og gott lýsi. Ég fullyrði, að ef lifrarverðið verður tekið inn í fiskábyrgðina, þá geti það átt sér stað víða hér á landi, að það fáist enginn til að bræða lifrina, það fáist enginn til að kaupa hana. Hv. 1. þm. S-M. tók fram, að það mætti reikna þetta út. Það var líka reiknað út 1947, hvað fiskurinn fyrir vestan ætti að kosta, en með þeim endemum, sem raun ber vitni, að fjöldi þeirra, sem verkuðu fisk þar, hlutu stórskaða af. Og það hefur oft verið rætt um það að gera kröfur á hendur ríkissjóði vegna tapa þessara fyrirtækja á fiskkaupum og sölu þetta ár, 1947, sem hefur ekki borið árangur enn.

Ég veit, að þegar hv. 1. þm. S-M. athugar þetta mál betur, þá sér hann, að þetta er satt, sem ég hef haldið hér fram.