20.01.1950
Efri deild: 39. fundur, 69. löggjafarþing.
Sjá dálk 237 í B-deild Alþingistíðinda. (546)

29. mál, aðstoð til síldarútvegsmanna

Atvmrh. (Jóhann Jósefsson):

Hv. þm. Barð. hafði afhent mér fsp. þær, er mér virtist hann vísa til síðast. Ég veit ekki nema hv. þm. kunni að hafa bætt einhverju við, því að ég varð að fara út rétt áðan, en verð þó að halda mér við hið skrifaða mál.

Það er þá fyrst spurt um, hvort ríkisstj. ætli að veita ábyrgð fyrir öllum skuldum, er skapazt munu hafa í sumar, eða hvort hugsað væri til þess, að ríkissjóður tæki ábyrgð á öllum skuldum, er stofnað yrði til yfir allan tímann, þó innan takmörkunarinnar við 2.500.000 kr. Raunar er óþarfi að svara þessu. Ég held, að því hafi verið marglýst yfir, hvað vekti fyrir stj. Ríkisstj. hafði ástæðu til að óttast, að sjómenn þeir, sem ættu við að búa rýran kost, mundu hrökklast af skipunum í miðjum ágústmánuði, og hún óttaðist einnig, að svo gæti farið, að fiskibátar og síldarverksmiðjur misstu afla, ef svo færi, að einhver afli yrði síðar á árinu, — og vegna þessa var miðað við það, að ráðstöfun yrði gerð í því skyni að biðja bankana um að miðla fé til styrktar. En enginn ásetningur var hafður um að taka ábyrgð á öllum hugsanlegum skuldum.

Þá kemur að 2. lið fsp., nr. 2 hjá hv. þm.: Hefur þess verið gætt, þegar ábyrgðin var lögð á ríkissjóð, að útgerðarmenn hefðu áður greitt 55% a.m.k. af brúttóafla? Þessi spurning er óviðkomandi málinu, því að brbl. fjalla um ráðstafanir, sem gerðar voru í sumar til að örva menn til veiða. Fsp. hv. þm. er um framkvæmdaatriði og þessu máli óviðkomandi, því að eðlismunur er á framkvæmdinni 1948 og nú. Í hinu fyrra, 1948, var verið að leysa inn sjóveðskröfur vegna vandræða útvegsmanna. Í hinu síðara, 1949, er verið að leggja ríkissjóðinn í áhættu. Þrátt fyrir þetta skal ég gefa hinar beztu upplýsingar, er ég veit. — Til þess að framkvæma þetta verk var svo nefnd skilan. sett á laggirnar, og hún hafði í meginatriðum framkvæmt þá ákvörðun, sem til var ætlazt í aðgerðum þings og stj., en endanlega afgreiðslu lánanna annaðist Fiskveiðasjóður Íslands. Skilan. setti upp reglur um störf sín, og var meginprinsipið hjá henni það, að enginn ætti að geta fengið hærri upphæð en hæð kauptryggingar skipverja nam, að frádregnum aflahlut. Það var því mismunurinn á aflatryggingunni og kauptryggingunni, er þurfti að leysa. N. reiknaði út, hve mikill aflahlutur skipverja átti að vera skv. skýrslunum. N. tók jafnt tillit til þess, hvort hásetarnir ættu allt ófengið eða útvegsmenn hefðu gripið til neyðarúrræða. Fengu hringnótabátarnir vegna rekstrar síns að auki 10% af tapi sínu. Nú er mér hermt, að fiskveiðasjóður hafi farið að fyrirmælum n. Þess ber að geta, að n. settist á rökstóla síðla árs, og fékk hún margar beiðnir, áður en hún var búin að öðlast grundvöll í störfum, og kann því að vera, að stundum hafi verið afgr. á rýmra grundvelli. Á þetta við um hina fyrstu báta, sem afgreiðslu fengu. Þörfin var orðin svo brýn, að n. sá sér eigi fært að draga afgreiðslu á neinum bátum. Er því hugsanlegt, að varðandi suma báta hafi eigi til fulls verið gætt þeirrar reglu, sem ég setti, en flestir féllu þó undir hana.

Nú er 3. liður, sem fjallar um það (ég er nú raunar búinn að upplýsa það), hvort nokkur upphæð hafi verið tekin á fjárl. til að mæta útgjöldunum skv. 3. gr. Já, varðandi það atriði vil ég taka fram að ég tók eigi neina fjárhæð með í því skyni, því að engar upplýsingar lágu fyrir um málið, þegar frv. var samið. En þegar bankarnir féllust á að gera þetta, settu þeir það skilyrði, að á sínum tíma — og miðað var við þ. 31. jan. — yrði tekið tillit til þessa og þetta yrði tekið á fjárl. Skv. þessum brbl. nema þær skuldir, sem standa í dag á ábyrgð ríkissjóðs: Í Landsbanka Íslands kr. 722.000, með vöxtum. — Útvegsb. Íslands h/f — 51.4307, — Og verður það þá sú upphæð, er ástæða verður til að ganga frá við bankana við tryggingu ábyrgðarinnar. En þetta táknar ekki, að féð sé tapað ríkissjóði, því að þeir, sem fengu hjálp, falla eigi enn undir þau ákvæði í l., að þeir séu á meðal þeirra, sem eiga að fá hjálp. Hins vegar þarf eigi að glæsa neitt fyrir sér vonirnar um, að skuldirnar gjaldist, nema úr rakni fyrir útgerðinni.

Nú, nú, — ég tel eigi þörf úr þessu að svara 4. spurningunni. Læt ég mér það óviðkomandi, og Alþ. á eigi að hirða um slíkt, og um annað hef ég ekki fengið upplýsingar.

Þá er 5. spurningin um það, hvort gerðar hafi verið ráðstafanir til að fá gjaldfrest. En um hana er það að segja, að þá fyrst getur hún átt við, þegar athugaðar eru eftirstöðvarnar. Það er samningsatriði við bankana, þótt ég telji, að framkvæma eigi þetta, úr því að lofað hefur verið að taka féð á fjárl. En enn er það samningsatriði við bankana. — Hef ég þá engu við þetta að bæta, og er ég búinn að tæma listann.

Varðandi orð hv. 4. þm. Reykv. um vandkvæði tveggja Grænlandsbáta, þá kann að vera, að þörfin hjá þeim sérstöku bátum sé og getur vitaskuld verið eins brýn og hjá síldveiðibátunum. En það er meira en formalismi að útfæra það. Ég vildi gera meira, ef aðeins væri formlegt og þýddi eigi, að ábyrgjast yrði Grænlandsveiðar almennt. En það þarf að koma einhvers staðar fram, að heimílt sé að gera þetta, á annan hátt, en þarna er gert. Rétt er það hjá hv. þm., að höfuðmarkmiðið með ábyrgðunum er að reyna að halda skipunum við vinnu. Það er satt. En þannig er hugsað hér, að Alþ. samþykki þetta vegna síldveiðanna, en fiskábyrgðarl. séu undanskilin í löggjöfinni. — Þessa vildi ég geta í sambandi við orð hv. 4. þm. Reykv.