27.02.1950
Neðri deild: 55. fundur, 69. löggjafarþing.
Sjá dálk 301 í B-deild Alþingistíðinda. (692)

125. mál, gengisskráning o.fl.

Stefán Jóh. Stefánsson:

Herra forseti. Mér þykir hlýða, áður en ég vík beinlínis að frv. því, sem hér liggur fyrir, að minnast nokkuð á þróun þessara mála á síðustu tímum og þá sérstaklega afstöðu Alþfl. til málanna og hvernig hann í þeim hefur markað stefnu sína. Einnig út af ræðu hv. 1. þm. S-M. (EystJ) þykir mér rétt að minnast á það nokkru nánar, áður en ég kem að innihaldi frv. sjálfs.

Þegar fyrrv. ríkisstj. tók við, var það ein af stefnuyfirlýsingum hennar, eins og það var orðað, að það væri stefna ríkisstj. „að vinna að því af alefli að stöðva hækkun dýrtíðarinnar og framleiðslukostnaðar og athuga möguleika á lækkun hennar. Í því skyni skyldi leitað til samtaka launastéttanna og samtaka framleiðenda til sjávar og sveita til þess að gera ráðstafanir gegn frekari vexti dýrtíðarinnar og um leiðir til lækkunar.“ Þetta voru samráð þeirra flokka, er stóðu að fyrrv. ríkisstj. Upp úr þessum samráðum milli flokkanna og einnig viðtölum, sem áttu sér stað við stéttasamtökin í landinu, voru á Alþ. í árslok 1947 gerðar — ég vil segja fyrstu alvarlegu tilraunirnar til þess að halda dýrtiðinni í skefjum og að halda verðlagi á vörum og framleiðslunni á þann veg, að atvinnureksturinn þyrfti eigi að stöðvast. Þessar tilraunir ríkisstj. vöktu einnig nokkra athygli, og í fyrri álitsgerð þeirri, sem hinn ungi og mjög efnilegi hagfræðingur, Benjamín Eiríksson, þá gerði fyrir stjórnina, kom hann inn á þetta atriði sérstaklega í skýrslu sinni til fyrrv. ríkisstj. og sagði, að þetta mundi vera eina dæmið í Evrópu síðan styrjöldinni lauk, að reynt hafi verið að framkvæma jafnvíðtækar ráðstafanir af þessu tagi og lagt var út í. Hann segir einnig rétt á eftir um þetta, að árangurinn af þessari stefnu, stj. hafi orðið sá, að framleiðslukostnaður hafi haldizt nokkurn veginn óbreyttur frá því í árslok 1947 og fram til vorsins 1949. En hann bætir við síðar í umsögn sinni um þetta mál, að eins og nú horfi málunum megi segja, að núv. ríkisstj. hafi þegar gert þýðingarmiklar ráðstafanir í öllum þeim málum, sem varða sjávarútveginn og þjóðarbúskapinn út á við, nema hvað genginu hafi verið haldið óbreyttu og engar sérstakar ráðstafanir hafi verið gerðar til þess að fyrirbyggja, að bankarnir hækkuðu útlán óeðlilega á hverjum tíma og hallarekstur ríkisins yrði að fullu stöðvaður. Ég álít, að það átak, sem þá var gert með samkomulagi milli þeirra flokka, sem stóðu að þáv. ríkisstj., hafi verið merkileg tilraun, sem leiddi til þess, að framleiðslan hélzt í fullum gangi og það var nægileg atvinna meðal allra landsmanna og sæmílega borguð. En svo fór því miður, þegar lengra leið, að þetta kom ekki að fullum notum, einkum eftir að kom fram á árið 1949, enda risu þá upp ýfingar milli þeirra flokka, sem stóðu að þáv. ríkisstj., um það, hvaða stefnu skyldi taka í framhaldi af þeim ákvörðunum, sem áður höfðu verið gerðar. Þegar ýfingar hófust milli flokkanna, sem stóðu að fyrrv. ríkisstj., var málefnislega um það rætt án persónulegrar áreitni milli þáv. ráðh., hvað gera skyldi í þessum efnum, og lögðu þá ráðh. Framsfl. fram skjal af sinni hálfu með tillögum til úrlausnar vandamálunum. Því nefni ég þetta skjal, að þessi skjöl hafa verið birt og því engin leynd að segja frá þeim. 2. júní 1949 lögðu ráðh. Framsfl. til, að tekin yrði upp, eins og þeir kölluðu það, ný stefna í verzlunarmálum, einkum út af skömmtunarseðlum, og að verzluninni yrði skipt milli einkakaupsýslumanna og kaupfélaga, í öðru lagi, að betur væri búið að verksmiðjuiðnaðinum, í þriðja lagi, að gerðar yrðu ráðstafanir til þess að ráða bót á húsnæðismálunum, í fjórða lagi, að dregið yrði úr rekstrarútgjöldum ríkisins, í fimmta lagi, að hert yrði á skatteftirliti, og í sjötta lagi, að hert yrði á verðlagseftirliti. því næst segir í þessum till., að í áframhaldi af þessum ráðstöfunum og til þess að auka kaupmáttinn í landinu leggi Framsfl. til, að sett verði löggjöf um allsherjar niðurfærslu eða gengislækkun, er miðist við það að koma framleiðslunni á rekstrarhæfan grundvöll. Ráðherrar Alþfl. lýstu yfir því fyrir sitt leyti, skömmu eftir að þetta kom fram og ekki seinna en 15. júní, að þeir gætu hugsað sér samning að efni til um þau sex atriði, sem ég nefndi áðan, þó að þeir vildu ekki að öllu leyti ganga inn á þann grundvöll, sem Framsfl. hefði lagt til úrlausnar þessum málum, með því að flytja frv. um það á Alþ. Hins vegar lýstum við ráðherrar Alþfl. yfir því, að við gætum þó ekki gengið inn á niðurskurð eða gengislækkun, sem við teldum, að væri líka grein fyrir gerð á þann veg, að hann yrði til þess að rýra að verulegu leyti kjör láglaunafólks í landinu. Töldum við fyrir okkar leyti vera hægt, ef samkomulag yrði um það, að feta enn um skeið þá braut, sem að nokkru leyti hafði verið áður mörkuð, stöðvunarleiðina, sem svo hefur verið nefnd og fetuð hefur verið með allverulegum árangri í nágrannalöndunum hér í kringum okkur. En til þess þyrfti gott samstarf og góðan gagnkvæman skilning, ef að haldi ætti að koma, og ekki mætti versna frá því, sem þá stóð um möguleika á sölu, íslenzkra sjávarafurða erlendis. Við lýstum einnig yfir, að við vildum fyrir okkar leyti gera ráðstafanir til að draga úr fjárfestingu, draga úr opinberum greiðslum til aukinna framkvæmda í landinu, draga úr útlánum peningastofnana til fjárfestingar, hafa raunverulegan afgang á fjárl. og auka verulega innflutning neyzluvara, eftir því sem unnt væri, um leið og stungið væri við fótum að því er snerti aukna fjárfestingu, því að við töldum, að svo mikið væri til landsins flutt af fjárfestingarvörum, að vel væri fyrir því séð í náinni framtið, að allir gætu haft við það næga atvinnu á Íslandi, ef þessi atvinnurekstur gengi og væri skynsamlega rekinn.

Ráðherrar Sjálfstfl. svöruðu fyrir sitt leyti líka þessum till. Framsfl. og voru ekki reiðubúnir til þess að ganga inn á sumar þær leiðir, sem lagðar voru til af hálfu Framsfl. Ég þarf ekki að rekja sögu þessa ágreinings lengur, svo mjög sem hún er kunn öllum þeim, sem hér sitja á þingbekkjum. En ágreiningurinn leiddi til þess, að kosningar voru háðar nokkru áður, en kjörtímabilið var útrunnið, og flokkarnir, sem áður höfðu staðið að stj., gengu til þessara kosninga hver með sina stefnuskrá, og skildi þar töluvert á milli einmitt í dýrtíðar- og verðlagsmálum. Alþfl. hafði fyrir sitt leyti einmitt bent á það, eins og ég áður drap á, að hann teldi, að gera þyrfti vissar ráðstafanir, sem ég að nokkru leyti nefndi áðan, og hvorki væri rétt né nægilega rökstutt — og fyrir því færðar gildar ástæður —, að grípa ætti til gengislækkunar sérstaklega miðað við það að skerða verulega með því kjör almennings í landinu. Í kosningaávarpi sínu tók Alþfl. fram það, sem hér segir, með leyfi hæstv. forseta:

Alþfl. hefur undanfarin ár barizt á móti almennri gengislækkun og haldið því fram, að heppilegra væri fyrir allan almenning í landinu, að vandamál sjávarútvegsins væru leyst með því að styrkja úr ríkissjóði þann hluta útflutningsframleiðslunnar, sem ekki getur borið sig fjárhagslega. Flokkurinn getur ekki á það fallizt, að nokkur sú breyting hafi á orðið, er geri nauðsynlegt, að grípa þurfi nú til almennrar gengislækkunar til viðbótar við þær ráðstafanir, sem þegar hafa verið gerðar. Alþfl. er því andvígur tillögum andstæðinganna um almenna gengislækkun (lækkun íslenzkrar krónu gagnvart sterlingspundi), ekki sízt fyrir þá sök, að þær eru bundnar við verulega kjararýrnun almennings og þvingun í garð launastéttanna. Engin þau úrræði í þessu efni, sem samtök launamanna, Alþýðusambandið og Bandalag starfsmanna ríkis og bæja beita sér gegn, mundu leiða til varanlegra endurbóta á vandamálum atvinnulífsins, og telur flokkurinn því, að þessi mál verði ekki leyst nema í náinni samvinnu við þau.“

Þegar gengið var til kosninga á s.l. hausti. stóðu sakirnar þannig, eins og rökstutt var í fyrri álitsgerð dr. Benjamíns Eiríkssonar, að framleiðslukostnaður við 1/4 af útflutningsverðmætum sjávarafurða var orðinn svo mikill, að greiða þurfti fé til þess úr ríkissjóði. Hina 3/4 hluta þyrfti ekki að styrkja enn sem komið væri, þó að lítið þyrfti á að bjáta til þess að sá hluti gæti einnig verið rekinn með hallarekstri. Við þetta var miðað hjá okkur á þessari stundu, eins og áður hafði verið, að það ætti að feta þessa leið meðan unnt væri og allir þeir, sem legðu stein í götu þess, að leiðin væri fetuð, bæru ríka ábyrgð á því, ef aðrir gripu svo til neyðarúrræða. Það var einnig áberandi í kosningunum síðustu, að báðir hinir lýðræðisflokkarnir, borgaraflokkarnir tveir, Framsfl. og Sjálfstfl., töldu, að það þyrfti að gerbreyta um að þessu leyti og annaðhvort snúa til verðhjöðnunar eða gengislækkunar, og ég held, að það hafi í raun og veru verið grunntónninn í þeirra kosningakenningum, þó að ekki hafi verið mjög mikið hampað orðinu gengislækkun. Á þetta var bent af okkar hálfu. En svo fóru leikar, eins og alkunnugt er, að þessir tveir borgaralegu lýðræðisflokkar fengu mikinn meiri hluta kjósenda í landinu og mikinn meiri hluta alþm. kjörna inn á þing. Það virtist svo sem kenning þeirra, sumpart grímu klædd um styrklausan atvinnurekstur, sumpart algerlega opinská, ætti svo mikinn hljómgrunn á meðal kjósenda, að þeir teldu ekki þess vegna hættu á að velja þá til þingsetu. Það var því eðlilegt, að það yrði stjórnarbreyting og stjórnarhvörf að afloknum þessum kosningum, enda fór svo, eins og áður hafði verið gengið út frá og þingkosningarnar meir undirstrikuðu, að ég taldi sjálfsagt að beiðast lausnar fyrir mig og alla ríkisstj., eftir að úrslit kosninganna voru, kunn. Núv. ríkisstj. var svo úr þessu mynduð sem minnihlutastjórn, sem hvorki naut stuðnings né hlutleysis neins annars flokks, en síns eigin. Hún lýsti því yfir sem sinni stefnu, að fyrst yrði hún að feta troðnar slóðir, en seinna leggja fram till., sem yrðu í samræmi við stefnu þá, sem flokkurinn hefði boðað í kosningunum, og hún teldi réttar til úrlausnar þessum málum. Það var því fyrst framlengd ríkisábyrgðin á afurðum bátaútvegsins, þó með hækkuðu verði, og síðan hafa verið útbúnar till. þær, sem hér liggja nú fyrir í frumvarpsformi. Mér þykir rétt að geta þess, að ég tel, að það hafi verið alveg rétt og virðingarvert af hæstv. ríkisstj. að leggja í það nokkra vinnu, með þar til fróðum mönnum, að athuga, hvað gera skyldi og hvernig hver leið fyrir sig, sem til greina gæti komið, verkaði. Ég álít einnig að, að mörgu leyti hafi hæstv. ríkisstj., svo langt sem það náði, verið heppin í vali trúnaðarmanna sinna, því að ég held, þó að ég sé ekki sammála Benjamín Eiríkssyni í stjórnmálum, að segja megi og viðurkenna, að hann sé bæði mjög lærður hagfræðingur, gáfaður maður og ötull. Eftir að till. lágu fyrir í frumvarpsformi, sendi ríkisstj. hinum lýðræðisflokkunum þessar till. í frumvarpsformi sem trúnaðarmál. Tel ég það einnig rétta starfsaðferð og hygg, að hvorugur þessara flokka hafi misbeitt þeim trúnaði, sem þeim var sýndur með því að kynna þeim þessar till. Álít ég, að það hafi verið rétt starfsaðferð að gefa þeim kost á að kynna sér málið og rannsaka það, áður en þeir tækju afstöðu til þess. Nú er það svo, eins og frá hefur verið skýrt í ræðu hæstv. fjmrh., að áður en þetta mál var lagt fram á Alþ., höfðu hinir tveir borgaralegu lýðræðisflokkar leitazt við það um skeið að mynda saman ríkisstj. Skal ég ekkert um það segja, hvers vegna upp úr þeim tilraunum slitnaði, en vegna þess að upp úr þeim slitnaði, hefur verið lagt fram frv. hér á Alþ. án þess að tryggja fyrir fram öruggan stuðning við málið, sem óvenjulegt er, að lagt sé fyrir löggjafarþing öðruvísi, en að vitað sé fyrir fram, að því sé tryggður meiri hluti og það geti gengið greiðlega gegnum þingið. Á það var bent einmitt af hæstv. fjmrh., að þetta væri leitt, og gagnrýnt af hv. 1. þm. S–M. (EystJ), og vil ég taka undir þá gagnrýni fyrir mitt leyti, því að ég álit það mikinn ábyrgðarhluta að leggja fram slíkt frv., með jafngífurlegri gengislækkun, án þess að vitað sé, hvort frv. er tryggður meiri hl. á Alþ. eða ekki, og án þess að geta gert sér í hugarlund, hvort frv. þurfi lengi að vera í þófi á Alþ. Menn mættu vera undrandi yfir því, að ekki skuli hafa skapazt meiri upplausn og vandræði út af hinu látlausa gengisskrafi, sem hefur verið haldið uppi á Alþ. um langan tíma. Þarf a.m.k. engan að undra, þó að framlagning slíks frv. hljóti að hafa áhrif á næstu tímum og skapa aukin vandkvæði. Er t.d. sagt, að bankarnir séu þegar farnir að hugsa sitt í þessum efnum, sem kann líka að skapa vandræði, og í viðskiptum okkar út á við og inn á við hlýtur þetta að skapa vandræði. Mætti t.d. ímynda sér, að einhver tilhneiging væri til þess hjá mönnum, sem eiga peninga, að koma þeim nú tryggilegar fyrir, en þeir halda að þeir séu geymdir í bönkum og sparisjóðum. Allt slíkt, er hvetti til þess, væri til hins mesta óhagræðis og skapaði glundroða í landinu. Ég verð því að harma það, að þetta frv. skyldi koma fram á þann hátt, sem það hefur gert. Ég get ekkert dæmt um það fyrir mitt leyti, hver eigi beina sök á því, en ákvörðunin var náttúrlega tekin af þeim ábyrga aðila, hæstv. ríkisstj. á Íslandi, hvort sem hún hefur að því stuðlað eða ekki, að gripið hefur verið til þess að beita þessari óvenjulegu málsmeðferð. En nú er þetta frv. komið til umræðu, og verður þá að sjálfsögðu að snúa sér að því og reyna að meta gildi þess, bæði eftir þess eigin ákvæðum og líka í ljósi þeirrar reynslu, sem skapazt hefur í stjórnmálunum undanfarið, og að sjálfsögðu, að því er Alþfl. snertir, með hliðsjón af stefnu hans og launamannasamtakanna í landinu, yfirleitt.

En áður en ég sný mér að sjálfu frv., vildi ég vekja athygli á fjórum atriðum, sem mér finnst, að þurfi að koma til athugunar, þegar það er dæmt af Alþfl. h álfu. Í fyrsta lagi vildi Alþfl. láta feta stöðvunarleiðina svo lengi sem unnt væri og telur sig ekki eiga sök á því, þó að það væri ekki lengur hægt eða lengur gert, og mætti segja það sem annað atriði, að Alþfl. telur það ekki sína sök, þó að ekki hafi tekizt að feta þá leið með þeim allgóða árangri, sem fengizt hefur í nágrannalöndunum. Í þriðja lagi hefur Alþfl. alltaf talið og telur, að gengislækkun ákvörðuð og útfærð af andstæðingum Alþfl. væri hættuleg og ótrygg frambúðarlausn. Í fjórða lagi telur Alþfl. og taldi, í samræmi við stefnu sína og uppbyggingu, að samráð yrðu að vera milli hans og launastéttanna um úrræði og að þá einu leið gæti Alþfl. farið, að tryggt væri, að verkalýðshreyfingin og launastéttirnar teldu, að það væru eftir ástæðum skástu úrræðin, og vildu, að því standa, að leiðin gæti verið fetuð. — Með þessi fjögur atriði í huga vil ég snúa mér að sjálfu frv. og ákvæðum þess, en fyrst vildi ég þó í sambandi við frv. minnast á málið almennt, og sérstaklega út af álitsgerð hagfræðinganna. Fyrst vil ég benda á, hvað þeir segja um orsök dýrtíðarinnar, en þar segir skýrt og ótvírætt á bls. 15 í grg.: „Orsök dýrtíðar árin eftir stríðið er því sú, að fjárfesting og hallarekstur annars vegar nema meiru en sparifjármyndun, afskriftum og óúthlutuðum arði hins vegar, að óbreyttu verðlagi og peningatekjum þjóðarinnar.“ Og á bls. 27 segir enn fremur: „Aðalorsök dýrtíðaraukans á síðari árum er hin óeðlilega mikla fjárfesting og taprekstur, sem haldið hefur verið uppi með útlánastarfsemi bankanna og halla á ríkisbúskapnum.“ Menn athugi nú þessar kenningar hagfræðinganna, og kynni þá mörgum að detta í hug, hverjum núverandi ófremdarástand sé að kenna, því að hér er ekki borið í vænginn, að það séu launastéttirnar eða verkalýðurinn, sem því hafi valdið. Þvert á móti er það skýrt tekið fram í álitsgerð hagfræðinganna, að kauphækkanirnar hafi fremur verið afleiðing af orsök, a.m.k. fram til vorsins 1949, heldur en þær hafi verið orsök til afleiðinga í dýrtíðarvandamálinu, og tel ég, hvað Alþfl. áhrærir, að hann geti ekki borið meginábyrgð í þessu sambandi, enda þótt allir flokkar — að vísu misjafnlega mikið — hafi lagt sín lóð í vogarskálina, og þá fyrst og fremst þeir, sem fjárfrekastir hafa verið og flutt hafa flestar till. til margs konar stórfelldra framkvæmda, án þess að gera sér nokkra grein fyrir því, hvernig tekna verði aflað á móti, og vita þá allir, við hverja ég á sérstaklega. Þá hefur einnig borið uggvænlega mikið á því með borgaraflokkunum tveimur, að uppboð hafi verið þeirra milli, þannig að þeir hafa knúið upp fjárfestingu eftir kjördæmahagsmunum. Það má ekki á milli sjá, hvor þar hafi gengið lengra, og eiga þeir sinn hlut óbættan í þessu máli. Í þessu sambandi vil ég enn benda á það, sem hagfræðingarnir segja á bls. 52 í grg. Þeir segja svo: „Við lítum svo á, að kauphækkanir þær, sem orðið hafa a.m.k. fram að síðastliðnu vori, hafi verið afleiðingar, fremur en orsök dýrtíðarinnar.“ Þetta er skylt að hafa í huga út af þeim viðbrögðum, sem launastéttirnar kannske kunna að taka í sambandi við þetta frv., að það er ekki þeirra sök, hvernig komið er.

Þá er að snúa sér að frv. sjálfu. og aðalefnishliðum þess, og er þá ekki langt að leita, því að þegar í 1. gr. er gert ráð fyrir gengislækkun, er nemi 42.6%, þannig, að verðlag innfluttrar vöru hækkar um 74.3%, og þótt hagfræðingarnir bendi á, að verðhækkunin þurfi ekki að verða svo mikil, þegar varan er komin á boðstóla, þá held ég, að þeir dragi mjög úr þeirri álagningu, sem á bætist, þegar miðað er við fob-verð. Þá má búast við, að gengislækkunin hafi í för með sér hækkun á farmgjöldum og ýmsan annan kostnað, mun meiri en af er látið, sem mun leggjast þyngra á vöruna en frv. eða grg. vill vera láta. Ekki er nóg með það, að gengið eigi að lækka um 42.6%, heldur er í 2. gr. ákvæði, sem segir: „Eftir gildistöku laga þessara er ríkisstjórninni á ráðherrafundi rétt, að fengnum tillögum bankaráðs og bankastjóra Landsbanka Íslands, að ákveða gengi íslenzkrar krónu. Gengisskráning skal miða að því að koma á og viðhalda jafnvægisgengi, þ.e. að sem mestur jöfnuður sé í greiðslum við útlönd án gjaldeyrishafta.“ Og svo er bætt við mjög athyglisverðu atriði í síðari málsgrein 2. gr. Þar segir svo: „Landsbanka Íslands er skylt að taka sérstaklega til athugunar gengisskráningu íslenzkrar krónu, þegar almenn breyting verður á kaupgjaldi, önnur en sú, sem kveðið er á um í þessum lögum. Skal bankinn, svo fljótt sem kostur er, gera ríkisstjórninni grein fyrir niðurstöðum sínum.“ Það er m.ö.o. gert ráð fyrir því, að valdið til gengisskráningar, sem hefur verið hjá Alþingi a.m.k. s.l. 10 ár, verði nú flutt í hendur ríkisstj. og grundvöllurinn að ákvörðun hennar séu till. frá stjórn Landsbanka Íslands á hverjum tíma. Ég vil að vísu ekki taka undir þann söng, sem undanfarið hefur heyrzt á mannfundum og sézt í blöðum um slæma stjórn á Landsbankanum, þótt eitthvað megi sennilega að stjórn hans finna sem flestra annarra fyrirtækja, en það er samt nokkur ástæða til að ætla, að Landsbankinn kunni að geta haft einhliða sjónarmið í þessu efni, og svo er það ríkisstj., sem á að taka lokaákvörðunina. Nú situr hér að völdum ríkisstjórn, sem styðst við 19 þm. af 52, og því miður gæti svo farið vegna flokkaskiptingarinnar hér á landi, að á lengri eða skemmri tímum færi minnihlutastjórn með völd. Slík minnihlutastjórn ætti að hafa það mikla vald yfir atvinnulífi þjóðarinnar og afkomu almennings, að hún með einu pennastriki, sem kannske yrði minna umtalað áður en þetta, gæti gert gerbyltingu í íslenzku atvinnulífi og aðbúnaði fólksins í landinu. Því er haldið fram af hæstv. fjmrh. og í grg., að þetta vald sé víða í höndum ríkisstj. og þjóðbankans, og vefengi ég það ekki, en það er nokkuð annað, þegar valdið hefur um tug ára verið hjá Alþingi, þá er það mikil og alvarleg breyting að fá það í hendur ríkisstj. á hverjum tíma, og ekki sízt af því, að stjórnmálabaráttan hér er harðari, óvægari og miskunnarlausari en víðast hvar annars staðar, og ríkisstj. gæti dottið í hug að nota þetta vald, þótt hún vissi sig með því ganga á móti meiri hluta fólksins í landinu. Þar sem stjórnmálahættir eru þroskaðir og þar sem ríkisstjórnir gera sér fulla grein fyrir ábyrgð sinni og þar sem enn fremur stjórnarandstaðan gerir sér eigi síður grein fyrir sinni ábyrgð, þar er síður hætta á, að þetta vald verði misnotað. Ég óttast meir, að það verði misnotað hér í hinni óvægnu flokkabaráttu, og í huga verkalýðsins og launastéttanna mundi það vekja ugg um það, að hverri þeirra tilraun til betri kjara yrði svarað með gengislækkun þegjandi og hljóðalaust, en slíkt gæti leitt til baráttu, sem orðið gæti afdrifarík og hættuleg íslenzku þjóðlífi. Ég vil því mjög gagnrýna ákvæði 2. gr. og tel ákvæði hennar óskynsamleg hér á landi og ólíkleg til þess að leggja varanlegan grundvöll að viturlegum ráðstöfunum til úrlausnar á verðbólgu og dýrtíðarmálum þjóðarinnar.

Hæstv. fjmrh. hélt því fram, að hér sé ekki um það að ræða, að ekki sé hugsað um, að launastéttirnar fái uppbætur og hafi frjálsar hendur í launamálabaráttu sinni. Þetta er þó ekki nema hálfur sannleikur. Að vísu er gert ráð fyrir í 7. og 8. gr., að uppbætur verði greiddar á laun eftir hækkandi vísitölu, sem reiknuð verður út mánaðarlega fyrstu þrjá mánuðina og á 6 mánaða fresti í eitt ár, en þá má ekki gleyma 4. gr., þar sem grundvöllur hinnar nýju. vísitölu er lagður. Hann á að vísu að vissu leyti að byggjast á sömu reglum og gilt hafa við útreikninginn hingað til, en þó eru frá þessu tvær undantekningar allalvarlegar, og þá ekki sízt sú, að inn í vísitöluna 100, sem reikna á fyrir marzmánuð, skuli koma verð á leigu í húsum, sem byggð eru eftir 1945. Húsaleiga í núverandi vísitölu nemur aðeins um 10%, því að miðað er við verð á húsaleigu í gömlum húsum, sem verið hefur næstum óbreytt allt frá árinu 1939. En ég hygg, að með því að reikna húsaleiguverð í nýjum húsum, eins og gert er ráð fyrir í frv., þá verði það á þann hátt, að aðkeyptar vörur, sem hækka við gengislækkunina, nemi miklu minna í vísitölunni, en áður. Grundvöllur vísitölunnar verður því talsvert annar en áður, og hefur þetta áhrif þegar t.d. á að gefa launastéttunum uppbætur, og því má ekki gleyma, að skýra verður málið rétt í alla staði, og ekki dugir að dyljast þess, að vísitölugrundvöllurinn verður annar en áður, þar sem hækkun vöruverðsins nemur mun minna til hækkunar vísitölunnar en áður, og þegar það er aðeins þrjá fyrstu mánuðina, sem reikna á vísitöluna út mánaðarlega, þá hefur þetta sin áhrif. Ef við tökum dæmi, þá má geta þess, að kornvara er venjulega til í landinu til hér um bil þriggja mánaða. Þær birgðir, sem nú eru til, yrðu auðvitað seldar með sama verði og nú, en á 4. mánuði, þegar þær eru þrotnar, og vörur með hærra verði koma á markaðinn, þá er útreikningi vísitölunnar hætt í 6 mánuði. Þetta sýnir, að það er barnaskapur — ég vil ekki nota orðið blekking — að halda því fram, að lagt sé til með frv., að kjör launafólksins séu óskert, ef grunnkaup hækkar ekki. Í raun og veru er ekki annað hægt, því að eins og hagfræðingarnir skýra frá, þá er ekki hægt að hugsa sér að dæla tugum milljóna af nýju fjármagni í sjávarútveginn án þess, að þær milljónir komi frá einhverjum öðrum þjóðfélagsþegnum, enda draga hagfræðingarnir enga dul á, að frá öðrum stéttum koma um 80–100 milljónir til sjávarútvegsins, og það er líka svo, að þótt hagfræðingarnir hafi tilhneigingu til þess að mála það rauðrósóttum lit, hvað ástandið batni við þeirra aðgerðir, þá komast þeir ekki hjá því að viðurkenna, að kjör launafólks versni, a.m.k. fyrst í stað. Þeir segja á bls. 29 í grg.: „Áhrif þeirra ráðstafana, sem við leggjum til, eru þau, að tilfærsla verður á tekjum til sjávarútvegsins frá þjóðinni í heild, enda falla þá allir styrkir og fríðindi til hans niður. Þessi tilfærsla verður með þeim hætti, að í fyrstu færast nokkrar tekjur frá launþegum almennt til sjávarútvegsins, vegna hækkaðs framleiðslukostnaðar.“ Þess vegna eigum við ekki að fullyrða það, að þær ráðstafanir, sem frv. gerir ráð fyrir, hafi ekki nokkra eða verulega kjaraskerðingu í för með sér fyrir launafólk í landinu. Þvert á móti er það staðreynd, að kjör þess versna. Nú halda hagfræðingarnir fram, og það er undirstaðan undir byggingu þeirra, sem er að mínu viti að ýmsu leyti skynsamleg og af lærdómi gerð, að það sé hagræði fólksins í landinu að koma á frjálsri verzlun og hún sé það sem koma skal. Hv. 1. þm. S–M. undirstrikaði í sinni ræðu, að hann teldi, að á 10 fyrstu mánuðunum, sem lög þessi eiga að gilda, ef frv. verður samþ., yrði neyzluvöruinnflutningurinn minni en verið hefur undanfarið. Mig uggir og, að innflutningur á neyzluvörum almennings aukist ekki svo mjög á næstu tímum, að það hafi í för með sér kjarabætur þær, sem ýmsir vilja vera láta. Ég get fallizt á, að kjaraskerðing almennings komi að nokkru leyti af því, að ekki er á boðstólum í landinu allt, sem fólk þarf og getur keypt. T.d. má nefna, að menn geta iðulega ekki fengið jafngóð föt og skó og kaupgeta þeirra leyfir, og leiðir þetta m.a. til freistingar þeirrar, sem alltaf fylgir litlu vöruframboði, en mikilli kaupgetu, sem sé að leita á svartan markað, sem nokkuð hefur borið hér á, og er það náttúrlega kjaraskerðing fyrir fólk, ef það þarf að kaupa á svörtum markaði brýnustu lífsnauðsynjar sínar, en ég trúi ekki á, að þetta geti lagazt eins fljótt og hagfræðingarnir vilja vera láta, og trúi því ekki heldur, að frjáls verzlun skapi þá byltingu á kjörum fólksins, sem þeir telja. Við höfum á löngum tímabilum búið við frjálsa verzlun, og ég held, að fólki hafi fundizt eins þá, að það hefði við óblíð kjör í verzluninni að búa. Samvinnuverzlun hefur og heldur ekki getað skapað lægra vöruverð með samkeppni, vegna þess að samvinnufélögin hafa aðallega hugsað um að skapa ágóða, sem annað tveggja rennur til félagsmanna eða er lagður í nýjar og stórfelldar fjárfestingar. Ég mæli ekki gegn því — eða minn flokkur, að aukinn sé innflutningur neyzluvöru og að hún geti um allt land verið á boðstólum í sem mestu úrvali, en frelsi og samkeppni í verzluninni er háð miklum takmörkunum og hefur t.d. oft leitt til hringavalds, sem haldið hefur uppi neyzluvöruverðinu. Og þessa verður líka vart hér, þó að í smáum stíl sé, einkum í sambandi við verzlunina, og eru einkakaupsýslumenn þar annars vegar, en samband kaupfélaga hins vegar. Frelsið verður alltaf að hafa sin takmörk, til þess að það verði ekki misnotað, og má í því sambandi minna á orð Jóns Sigurðssonar, sem var viðurkenndur gáfumaður, enda þótt hann væri ekki hagfræðingur. Hann sagði, að frelsi án takmörkunar væri ekki frelsi, heldur agaleysi og óstjórn. Og sannleikurinn er, að svo vill oft fara. Af því, sem ég nú hef rakið í sambandi við þetta frv., má slá því föstu í fyrsta lagi, að samþykkt þess hefur í för með sér kjaraskerðingu fyrir launastéttirnar, auk þess sem verkalýðshreyfingin hefur ekki trú á, að þessi leið leysi vandamálin á hagkvæman hátt. Í öðru lagi vil ég segja, að það er ekki trygging fyrir því, að þessi gengislækkun skapi atvinnuöryggi eða tryggi atvinnurekstur í landinu. Þegar svo er, hlýtur launafólk að vera uggandi um sinn hag. Ekki af því, að launafólk vilji ekki taka á sig byrðar, ef aðrar stéttir gerðu slíkt hið sama og við það skapaðist traustur grundvöllur fyrir atvinnulífið og mannsæmandi lífskjör, en því miður liggur ekkert fyrir í frv., sem tryggir það. Hvernig er nú byrðunum skipt með þessu frv.? Eru þær lagðar á í réttu hlutfalli við getuna? Um það er sérstaklega að finna í 12. gr., um eignarskatt, en þar er aðeins gert ráð fyrir að taka beinan gróða af eignaraukningu vegna gengislækkunarinnar. Það eru því raunverulega engar byrðar lagðar á eignamenn, heldur aðeins hindrað, að þeir hafi beinan gróða af ráðstöfunum, sem aðrar stéttir hafa af þungar byrðar. Byrðarnar verða því þyngstar og framtíðin óvissust hjá þeim, sem hafa af minnstu að taka. Þetta er óréttlátt og verður óréttlátt, nema byrðunum sé skipt niður eftir efnum manna og ástæðum, því að sannarlega eiga þeir að bera byrðarnar, sem breiðust hafa bökin. Ég sakna þess, að ekkert skuli vera í þessu frv. um ýmis mjög alvarleg mál, sem brýn nauðsyn er að leysa í sambandi við heildarlausn á vandamálum þjóðarinnar. Að vísu minnast hagfræðingarnir á sum þeirra í álitsgerð sinni, en frv. sjálft getur þeirra ekki, og má þar fyrst til nefna, að ekkert ákvæði frv. miðar að því að tryggja betri verzlunarhætti, ekkert um réttlátari skattalöggjöf, t.d. meiri frádrátt fyrir efnalitið fólk, ekkert um ráðstafanir í húsnæðismálunum. Hv. 1. þm. S-M. kom nokkuð inn á það mál, að vísu á breiðum grundvelli. Hann talaði um, að byggja þyrfti tveggja og þriggja herbergja íbúðir í kaupstöðum og sömuleiðis þyrfti að byggja í sveitum, en þar tiltók hann ekki herbergjaföldann, enda ekki gert ráð fyrir stóribúðarskatti í sveitunum. Sömuleiðis taldi hann þurfa að byggja útihús í sveitum, og það er sjálfsagt rétt. En sleppum þessari skiptingu. Hins vegar vil ég taka undir það með þm. S–M., að það verður að gera alvarlegt átak í húsnæðismálunum, að minnsta kosti hér í Reykjavik. Við Alþýðuflokksmenn höfum frá mínu sjónarmiði gert skynsamlega till. til úrbóta í þessu máli, og liggur það frv. fyrir Álþingi eins og kunnugt er, og vil ég leyfa mér að vona, að það verði ekki skilið eftir í sambandi við hina miklu reformation, sem hugsuð er með þessu frv. og í sambandi við það. Ég hef ekkert ákvæði séð í þessu frv. um verulega tollalækkun, verðtollurinn á að vísu að lækka í prósentum, en mun þrátt fyrir það hækka verulega í krónutölum, og eru það allmikil vonbrigði, því að veruleg tollalækkun gæti ef til vill bætt nokkuð upp þá gífurlegu verðhækkun á erlendum vörum, sem fylgir svo mikilli gengislækkun sem hér er gert ráð fyrir. Ekkert ákvæði hef ég heldur getað fundið um sparnað í ríkisrekstrinum, og loks ekkert um betri skipulagshætti í útgerðinni. Það er hart að sjá menn, sem kannske gera út einn bát, lifa eins og fína forstjóra af því einu, á meðan við sitjum hér með sveittan skallann yfir jafnalvarlegum ráðstöfunum til bjargar útgerðinni eins og þetta frv. er. Það er einn þátturinn í því, sem þarf endurbóta við í þjóðfélaginu., samhliða gengislækkun, ef gerð verður.

Alþfl. hefur athugað þetta frv. rækilega, og vil ég leyfa mér að endurtaka þakklæti til hæstv. ríkisstj. fyrir það tækifæri, sem hún veitti til þess, og vænti ég, að ekki hafi brugðizt það traust, að með það væri farið sem trúnaðarmál, eins og beðið var um. Og málið hefur líka verið rætt ýtarlega við trúnaðarmenn flokksins innan launþegasamtakanna. Sú gagnrýni, sem ég hef haft í frammi á frv., er í samræmi við þær niðurstöður, sem þessi athugun Alþfl. og fulltrúa launþegasamtakanna hefur leitt til, og er um leið ástæðan fyrir því, að þessir aðilar hafa ákveðið að vera andvígir málinu.

Nú kann einhver að spyrja í sambandi við þessi orð mín, hvaða stefnu Alþfl. vilji þá, þar sem viðurkennt sé, að stöðvunarleiðin sé ekki lengur fær. Út af þessu vil ég taka fram eftirfarandi: Í fyrsta lagi hefur Alþfl. bent á „stöðvunarleiðina“ svokölluðu í dýrtíðarmálunum, sem gefizt hefur mjög vel í nágrannalöndum okkar. Flokkurinn telur það ekki sína sök. að sú leið virðist nú ekki lengur fær. Í öðru lagi er það hlutverk borgaraflokkanna, sem boðað hafa gengislækkun og fengið mikinn meiri hluta á Afþingi með þá ráðstöfun á stefnuskrá sinni, að bera nú ábyrgð á framkvæmd málsins. Í þriðja lagi vil ég svo segja það, að hefði Alþfl. nægilegan styrk með þjóðinni, mundi hann að sjálfsögðu fara aðrar leiðir. Hann mundi láta þjóðfélagið sjálft taka í sínar hendur allan útflutning og innflutning og taka þar með úr umferð hinn gífurlega verzlunargróða. Þannig mætti jafna á milli verðlags á framleiðsluvörunum og innfluttum nauðsynjavörum. Slíkt mætti að vísu kalla gengislækkun, en sú gengislækkun væri í framkvæmd gerólík því, sem nú er talað um, og mundi koma allt öðruvísi niður á þegnana.

Að endingu vil ég svo segja það, að Alþfl. hefur enga löngun til að skapa glundroða og upplausn í landinu og mun því ræða þetta mál á ábyrgan hátt, fyrst og fremst málefnalega. Hins vegar mun flokkurinn standa á verði gegn öllum þeim ráðstöfunum, er ganga á rétt alþýðunnar eða stefna að auknu misrétti í þjóðfélaginu.