17.03.1950
Neðri deild: 68. fundur, 69. löggjafarþing.
Sjá dálk 436 í B-deild Alþingistíðinda. (763)

125. mál, gengisskráning o.fl.

Frsm. 4. minni hl. (Skúli Guðmundsson):

Herra forseti. Ég ætla hér að gera nokkra grein fyrir brtt., sem við 3 þm. erum flutningsmenn að á þskj. 448.

1. till. er þess efnis, að fé það, sem fara á til íbúðarhúsabygginga í kaupstöðum, skal skiptast þannig, að 1/3 af þessu fé megi verja skv. III. kafla l. nr. 44 7. maí 1946, þ.e. um útrýmingu heilsuspillandi íbúða, en 2/3 hlutar renni til verkamannabústaða. Það hefur verið að því fundið af ýmsum, að hætt hefur verið við að framkvæma III. kafla laganna, og þykir því rétt að leggja það til, að þetta sé gert.

Ég skal ekki gera að umtalsefni 2. brtt., því að ég geri ráð fyrir því, að hv. 5. þm. Reykv. muni gera það núna á eftir.

Þá er 3. till., sem er brtt. við 10 gr., um það, að við greinina bætist ný málsgr., svo hljóðandi: „Vörur, sem komnar eru til landsins við gildistöku laga þessara, skulu tollafgreiddar samkv. skráðu gengi bankanna, þegar tollafgreiðslan fer fram.“

Nú er það svo, að samkv. gildandi lögum mun eiga að reikna tollgreiðslur miðað við það gengi, sem skráð var, þegar vörurnar komu til landsins. Hins vegar munu nú hafa safnazt fyrir vörur, sem ekki hefur verið hægt að tollafgreiða. Að óbreyttum lögum ætti því að miða tollafgreiðslu þeirra við núverandi gengi, og það væri náttúrlega gott, ef tryggt væri, að það kæmi almenningi til góða. En nú er það hins vegar vitað, að nú fara að koma til landsins sams konar vörur í alveg eins umbúðum á hærra verði vegna gengisbreytingarinnar, og væri þá erfitt að fylgjast með því, að þær vörur, sem fyrr hafa komið, verði ekki seldar á sama verði og þær, er síðar kæmu, svo að það er þá líklegt, að þessi mismunur lendi ekki hjá þeim, sem síðast kaupa og nota vöruna.

Ég sleppi svo að ræða um 4. brtt., af sömu ástæðu og 2. till.

5. brtt. er við 12. gr. frv., þar er þó ekki um verulegar efnisbreytingar að ræða. Í a-lið þessarar till. er nýtt ákvæði um það, að til tryggingar greiðslu skuldabréfanna fái ríkissjóður veð í hinum skattlögðu eignum, að svo miklu leyti, sem skatturinn er ekki greiddur. — Þá þótti rétt, að nefnd væri skipuð eftir tilnefningu hæstaréttar, sem hefur rétt til þess að ákveða, að niður falli kvöð gjaldanda um veðsetningu, ef hún telur, að veðsetningin muni hindra eðlilegan atvinnurekstur gjaldanda. — B-liðurinn er ekki efnisbreyting, aðeins orðalagsbreyting til frekari skýringar, svo að ákvæðin verði ekki misskilin. — C-liðurinn er beint framhald af 1. till. og í samræmi við hana.

6. brtt. okkar er við 13. gr., og er hún um það, að uppbætur á sparifé skuli greiddar, ef innstæðan hafi staðið óslitið frá árslokum 1941 til júníloka 1946, en ekki til ársloka 1949, eins og ákvæðið er núna. Þessi brtt. er lögð fram vegna ábendingar frá Landsbankanum um það, að frá júnílokum 1946 hafi fólk verið hvatt mjög til þess að kaupa stofnlánadeildarbréf, og þá hafi sparifé mjög mikið verið tekið út í því skyni að kaupa bréfin, og er það þá óeðlilegt, að það fé lendi utan bóta.

Þá er 7. brtt., við 14. gr. frv., svo hljóðandi: „Við greinina bætist ný mgr.: Eignarskattur skv. lögum þessum er ekki frádráttarbær frá tekjum til skatts.“ Að vísu liggur þetta alveg í augum uppi, en það þótti rétt að setja þetta, til þess að taka af allan vafa og koma í veg fyrir deilur um það atriði.

Ég hef þá lokið að gera grein fyrir þeim brtt., sem mér var ætlað að hafa framsögu um, en ég geri ráð fyrir því, að hv. 5. þm. Reykv. komi á hverri stundu og minnist þá á 2. og 4. brtt.

Vegna þess að hv. meðflutningsmaður minn er ekki kominn, vil ég minnast nokkrum orðum á þær till., sem eftir eru og ég gerði ráð fyrir að hann talaði um.

2. brtt. er við 7. gr. frv., í fyrsta lagi um það, að 2. málsl. 1. mgr. falli niður, en þar stendur: „Þetta tekur þó ekki til launa, sem reiknuð eru á grundvelli verðmætis afurða, svo sem aflahlutar og lifrarpeninga.“ En ákvæði um þetta er tekið inn í gr. á eftir 5. mgr. með svo hljóðandi nýrri mgr.: „Þetta tekur þó ekki til launa, sem reiknuð eru á grundvelli verðmætis afurða, svo sem aflahlutar. Þó skulu laun, hluti launa eða aðrar greiðslur til skipverja á togurum og fiskflutningaskipum, sem miðaðar eru við hundraðshluta af afla, aðeins hækka í samræmi við hækkaða vísitölu samkv. þessari grein, en ekki hækka að öðru leyti að krónutali vegna gengisbreytingar skv. lögum þessum.“ Okkur í fjhn. var á það bent, að ef slík breyting yrði ekki á gerð, þá mundu tekjur yfirmanna skipanna hækka óeðlilega mikið, miðað við tekjur annarra skipverja.

Þá er það 4. till., sem er í tveimur liðum. A-liðurinn er um framleiðslugjaldið af ísfiski togaranna. Í frv. er gert ráð fyrir því, að framleiðslugjald sé lagt á verðmæti þeirra sjávarafurða, sem nýsköpunartogararnir afla, hvort sem þeir leggja upp afla sinn hérlendis eða erlendis. Ef gjaldið er lagt á afla, sem togararnir selja erlendis, þ.e.a.s. ísfiskinn, þá er það lagt á það verðmæti sem er umfram £ 8500, en síðan segir í gr., að „ef sala í tveimur næstu söluferðum á undan hefur numið lægri fjárhæð en £ 8.500 í söluferð að meðaltali, skal heimílt að draga það, sem á vantaði, frá gjaldskyldri fjárhæð“, eins og segir orðrétt. Hér er lagt til, að í stað orðanna „tveimur næstu söluferðum“ komi „fjórum næstu söluferðum“, þannig að nú má jafna á milli 5 söluferða í stað 3 eins og áður var.

Þá er það b-liðurinn. Þess hefur verið óskað varðandi framleiðslugjaldið á síldarafurðum, að undanþiggja frá ákvæðinu þær síldarafurðir, sem fluttar eru út fullverkaðar í smápökkum til sölu erlendis, þar sem talið er, að þær þoli ekki þetta gjald. Mun hér vera um að ræða niðursoðna síld.

Sé ég þá ekki ástæðu til að gera fleira að umtalsefni að svo stöddu.