25.02.1950
Efri deild: 61. fundur, 69. löggjafarþing.
Sjá dálk 543 í B-deild Alþingistíðinda. (863)

53. mál, eignakönnun

Þorsteinn Þorsteinsson:

Herra forseti. Það eru aðeins örfá orð, sem eiga að vera eins konar greinargerð fyrir atkv. mínu í sambandi við atkvgr. um málið.

Ég tel það ágalla á breyt. og aths. n., að þegar búið er að heimta inn þennan skatt og gera upp utan Rvíkur, þá verði að nýju farið með kröfur á hendur mönnum, sem halda að þeir séu búnir að ljúka kvöðum sínum, en niðurstaðan verður þó sú í einstökum tilfellum. Eftir því, sem form. framtalsnefndar upplýsti fjhn., þá mun þessi hækkun ekki verða það mikil, að það muni verða þungur baggi á skattgreiðendum. En hitt er ekki óeðlilegt, að hækkað sé hjá þeim, sem dregið hafa mikið undan skatti, jafnvel svo að hundruðum þúsunda skiptir. En sem sagt, mér þótti ekki rétt að rjúfa samkomulagið í n., þó að mér finnist það ekki geðfellt að láta nú rukka inn hjá mönnum, sem álitu sig vera búna að greiða þetta að fullu. Ég segi bæði kosti og lesti, en mun fylgja brtt., eins og nál. ber með sér.