28.11.1950
Neðri deild: 29. fundur, 70. löggjafarþing.
Sjá dálk 449 í B-deild Alþingistíðinda. (1045)

33. mál, gengisskráning o.fl.

Halldór Ásgrímsson:

Herra forseti. Það má vel vera, að hæstv. ríkisstj. hafi fulla ástæðu til þess að leggja til, að 11. gr. gengislaganna félli niður. Það mætti samt láta sér detta í hug, að það væri ekki svo nauðsynlegt að fella hana skilyrðislaust niður. Það hefði mátt láta sér detta í hug, að það hefði nægt, meðan togararnir væru reknir með tapi eða verið væri að vinna upp tap, að hæstv. ríkisstj. hefði heimild til að láta niður falla innheimtu á þessu gjaldi. Niðurstaðan af þessu verður sú, ef þessi breyt. verður samþ., að það er kippt til baka því fyrirheiti, sem gefið var í 11. gr. l. um það, að þau frystihús, sem hefðu orðið illa úti í sambandi við lántökur á sínum tíma á árunum 1945–49 eða þar um bil, fengju liðsinni, svo að þau standa þá uppi allslaus og aðstoðarlaus. Eins og hv. þm. N-Þ. tók fram, munu flest þessi frystihús hafa ráðizt í byggingar á þessum tíma samkv. loforði, sem nýbyggingarráð gaf um lán úr stofnlánadeild. Ég vil nú spyrja hæstv. viðskmrh., hvort hæstv. ríkisstj. hugsi ekki til þess að reyna eitthvað að ráða fram úr þeim vandræðum, sem þessi frystihús eru í. Það er ekki eingöngu svo, að þessi frystihús hafi loforð frá nýbyggingarráði um stofnfé, heldur sum jafnvel loforð frá hæstv. fyrrv. fjmrh. um fulla fyrirgreiðslu. Eins og tekið hefur verið fram í umr., hefur sú samþykkt verið í fjárl. undanfarandi ára, að ríkisstj. hefur verið á hverjum tíma heimilt að veita þessum frystihúsum ákveðna fjárhæð eða a.m.k. aðstoð til að útvega slík lán. Það væri því æskilegt að heyra, hvað hæstv. ríkisstj. hugsar sér, hvort hún ætlar að láta málið niður falla, svo að frystihúsin verði skilin eftir á því skeri, sem þau hefur borið upp á, án þess að alvarleg viðleitni verði sýnd til að greiða úr vandræðunum, svo að hægt verði að ljúka þeim byggingum, sem ráðizt hefur verið í, og hins vegar hvort hægt sé að gera þau starfhæf, því að þó að hægt sé að ljúka byggingunum, þá hefur það verið svo, að lánin, sem tekin hafa verið, hafa verið svo dýr, að ekki er hægt að hugsa sér, að hægt sé að starfrækja húsin með slíkum kjörum, hvorki að því er snertir vaxtakjör né lengd lánstíma.