18.12.1950
Efri deild: 43. fundur, 70. löggjafarþing.
Sjá dálk 459 í B-deild Alþingistíðinda. (1073)

33. mál, gengisskráning o.fl.

Viðskmrh. (Björn Ólafsson):

Herra forseti. Ég skal ekki fara út í deilur við hv. 1. landsk. út af gengisbreytingunni, um það er búið að ræða svo mikið og rita, að varla verður við það bætt, og það er fyrir löngu búið að sýna, að hann fer í þeim efnum með staðlausa stafi. Ef gengislækkunin hefði ekki verið gerð, þá væri ástandið annað og miklu verra heldur en það er í dag, en ég mun ekki fara lengra út í það, því að ég geri ráð fyrir, að hvorugur muni sannfæra hinn. Hv. þm. sagði, að með því að samþ. brtt. mína á þskj. 399 væri verið að stofna til ófriðar í landinu og að réttur væri tekinn af öllum launþegum í landinu og verið væri að binda kaupgjaldið. En hér er ekki verið að binda kaupgjaldið, heldur er verið að gefa það frjálst, og rökin, sem hv. þm. kemur með nú, þegar lagt er til að þetta verði fellt niður, eru nákvæmlega sömu rökin og sett voru fram gegn þessu ákvæði, sem nú er verið að fella niður, þegar það var sett. Það var sagt, að verið væri að taka af verkalýðnum réttinn til að hækka kaup sitt, og verið væri að binda kaupgjaldið, en nú, þegar þetta er fellt niður, þá er einnig verið að taka rétt af verkamönnum, svo að það, sem hv. þm. heldur fram, stangast hvað við annað, því að kaupgjald væri óháð lagasetningunni, þannig að verkalýðurinn hefði sjálfur fullkomið vald til að ákveða verðið á sinni vinnu. Síðasta málsgr. 6. gr. gengisbreytingarlaganna má segja, að hafi stefnt í þá átt að gera kaupgjaldið háð lögunum, þar sem segir, að skilyrði launahækkunar samkv. þeirri gr. séu, að launagreiðslur hækki ekki af öðrum ástæðum en lögin mæli fyrir, frá því sem þær voru 19. marz 1950 eða samkv. síðasta gildum kjarasamningi fyrir þann dag. Þessi gr. hefur heft talsvert frjálsræði verkalýðsins að hækka sitt kaup. Það, sem á að gera núna, er að fella þetta ákvæði burtu, og ég get . þá ekki séð, að nokkuð hindri verkalýðinn í að ákveða verð á sinni vinnu. Og hvað er það þá, sem ríkisstj. er að gera til að hefta verkalýðinn? Jú, það er það að lýsa því yfir, að ákvæðisréttur hans í kaupgjaldsmálunum skuli vera óskoraður. Annars skal ég ekki ræða mikið frekar um þetta mál nú, en vil af gefnu tilefni og eftir fyrirspurn hv. 1. landsk. upplýsa, að þessi brtt. er sett fram með vitund og vilja hæstv. ríkisstjórnar.