02.11.1950
Efri deild: 13. fundur, 70. löggjafarþing.
Sjá dálk 536 í B-deild Alþingistíðinda. (1180)

65. mál, ábúðarlög

Landbrh. (Hermann Jónasson):

Landbrn. hefur ekki undirbúið neina endurskoðun á ábúðarlögunum; til þess var ekki tími, því að það þurfti að snúast við ýmsu öðru, sem er aðkallandi. Þess vegna er það svo, að þó að það sé skoðun mín, að það þyrfti að breyta ábúðarl., þá taldi ég ekki rétt að gera annað en það að koma þessum ákvæðum þannig fyrir, að breyt., sem gerð var 1945, verði felld inn í l. og þau gefin út í heild. Ef farið yrði út yfir þessa markalínu, þá kæmi margt til greina, bæði þetta, sem hv. 1. þm. N–M. spyr um, og ýmislegt annað. Eins og ég tók fram, verður að leggja það á vald þingsins, hvort það vill fara út í frekari breyt., og er það þá fyrst og fremst á valdi þeirrar n., sem rannsakar málið, að athuga, hvort hægt er að koma þeim breyt. fram án þess að setja í hættu, að hægt sé að koma fram mest aðkallandi breyt.; það verða þessir aðilar að meta, og það verður stjórn Búnaðarfélagsins einnig að meta. — Varðandi það ákvæði ábúðarl., sem skyldar jarðeiganda til að losa jörðina, þá er vel frá því ákvæði gengið, svo að það getur ekki verið jarðeigandans sök, ef jörð er ekki í ábúð, því að það er beinlínis lagt á vald hreppsnefndar að gera ráðstafanir til að auglýsa jörðina fyrir viðunandi kjör án þess að jarðeigandi hafi nokkuð um það að segja, svo að það er ekki jarðeigandans sök, heldur hreppsnefndarinnar, ef jarðir fara að óþörfu í eyði. Þetta hygg ég, að sé rétt, svo að ég efast um, að nokkuð þurfi að breyta þessum ákvæðum ábúðari., þau eru nú, eins og vera ber, allströng í garð jarðeiganda, og þess vegna er það, eins og einhver hefur orðað það, einhver hættulegasta eign að eiga jörð, ef hún er ekki fullbyggð, því að það hvílir slík skylda á jarðeiganda, bæði um það atriði að byggja jörðina og byggja upp á henni, sem er mjög eindregin og í eina átt. Ég efast því um, að nokkur þörf sé á að breyta ábúðarl., því að það verður sjálfsagt ekki komið í veg fyrir, að jarðir fari í eyði, ef hreppsnefnd ekki gerir skyldu sína, því að það er ekki hægt að koma í veg fyrir það með lagaákvæði.