26.01.1951
Efri deild: 56. fundur, 70. löggjafarþing.
Sjá dálk 575 í B-deild Alþingistíðinda. (1374)

49. mál, sveitarstjórar

Bernharð Stefánsson:

Herra forseti. Vegna þess, að ég er eiginlega upphafsmaður að því, að þetta mál er fram komið, sé ég ástæðu til að þakka n. fyrir afgreiðslu þess. Þó að nokkur ágreiningur sé í n., þá sé ég ekki, að hann sé svo stórvægilegur, að það ætti að verða málinu að falli.

Ég álít, að mál þetta sé, a.m.k. í sumum sveitarfélögum, langtum meira hagsmunamál en kannske virðist í fljótu bragði, og þess vegna er mjög þýðingarmikið, að það nái fram að ganga, enda er kominn tími til þess. Sumir hafa að vísu haldið fram, að hrepparnir gætu án sérstakrar heimildar ráðið aðstoðarmann oddvita og látið hann hafa svipuð störf og hér er gert ráð fyrir, en það er mjög vafasamt, að það sé löglegt að borga slíkum aðstoðarmanni úr sveitarsjóði, og auk þess væri aldrei hægt að fela slíkum manni alveg sams konar störf og hér er gert ráð fyrir að sveitarstjórinn hafi.

Sá ágreiningur, sem orðíð hefur í n., finnst mér heldur smávægilegur. 1. og 3. brtt. hv. þm. Barð. virðast mér það smávægilegar, að ég sé ekki nauðsyn á, að þar fari breyting fram. T.d. 3. brtt. um að fella niður 8. gr., þar sem tekið er fram, að víkja megi sveitarstjóra frá, ef hann sýnir vanrækslu og hirðuleysi í starfi. Þetta liggur í hlutarins eðli og á við um alla starfsmenn, sem hirðuleysi og vanrækslu sýna, þeim má víkja frá starfi, og má því kannske segja, að óþarft sé að hafa þetta í lögunum, en að það sé skaðlegt, get ég ekki séð. Þess vegna finnst mér, að þessar tvær brtt. hv. þm. Barð. séu þýðingarlitlar. Öðru máli gegnir um 2. brtt. hans, sem er um að fella niður 2. málsgr. 6. gr. frv., sem fjallar um, að sé hreppsnefndarmaður kjörinn sveitarstjóri, þá falli niður umboð hans sem hreppsnefndarmanns. Ég sé ekki neina ástæðu til, að umboð hreppsnefndarmanns falli niður, þó að hann sé kjörinn sveitarstjóri. Ef hreppsnefndarmaður yrði kjörinn sveitarstjóri, þá yrði það í flestum tilfellum oddvitinn, enda væri annað óeðlilegt. Nú má spyrja, hvort það hafi nokkra þýðingu að vera að kjósa oddvita fyrir sveitarstjóra, þar sem hann á hvort sem er að annast þessi störf. Jú, það getur einmitt haft þýðingu. Ágætur maður, sem er kannske búinn að fá æfingu í oddvitastarfinu, fæst oft ekki til að gegna því lengur vegna launakjaranna. Það mun vera í fáum hreppum, sem oddvitinn getur lifað á sínum oddvitalaunum, hann verður að hafa annað aðalstarf til að lifa af. Ég get vel hugsað mér, að hreppur leggi svo mikla áherzlu á að halda oddvita sínum, að hann vilji leggja á sig aukagjöld til þess, en lagaheimild er ekki til, sem leyfir að borga oddvita meira en sveitarstjórnarlögin ákveða. Auðvitað mætti breyta sveitarstjórnarlögunum hvað þetta snertir, en þar sem nauðsyn er til af öðrum ástæðum að setja lög um sveitarstjóra, vegna þess að það er ekki víst, þó að þörf sé á slíkum starfsmanni, að neinn hreppsnefndarmanna sé fáanlegur til þess, þá finnst mér alveg eins handhægt að ganga svo frá lögunum um sveitarstjóra, að möguleiki sé á, að hreppsnefndarmaður, t.d. oddviti, gegni sveitarstjórastörfum. Þó að það sé mjög freistandi af því, hvað mjög er liðið á þingtímann að því er menn halda, að samþ. frv. óbreytt, svo að það geti nú loksins orðið að lögum, þá finnst mér, að 2. málsgr. 6. gr. frv. sé svo meiningarlaus, að ég get ekkí annað en mælt með 2. brtt. hv. þm. Barð. um, að þessi málsgr. falli niður. Ég veit, að verði þetta frv. að lögum, þá mundi hreppur, sem ég þekki til í, óska eftir, að oddvitinn tæki þessi störf að sér, og því ætti það ekki að vera leyfilegt? Því ætti hann endilega að hrökklast úr hreppsnefndinni fyrir það? Er hann ófærari til að hlutast til um málefni hreppsins fyrir það? Það fæ ég ekki skilið.