21.11.1950
Efri deild: 23. fundur, 70. löggjafarþing.
Sjá dálk 680 í B-deild Alþingistíðinda. (1603)

95. mál, skipun prestakalla

Landbrh. (Hermann Jónasson):

Herra forseti. Þetta frv., sem hér liggur fyrir og ég get ekki tekið þátt í að ræða af ástæðum, sem ég þarf ekki að gera sérstaka grein fyrir, liggur nú ljóst fyrir með þeirri grg., sem því fylgir.

Það er kunnugt, að hér hefur starfað undanfarin ár skipulagsn. prestssetra, og ég átti þátt í því, eftir að ég tók við embætti kirkjumrh., að n. skilaði áliti. Það var og er augljóst mál, að á skipun prestakalla hefur verið aðkallandi þörf að gera verulegar breyt., og hefði ef til vill þurft að gera fyrr en gert er með þessu frv., en ég hef ekki getað flýtt því máli meir en raun er á. Þegar þessar till. komu frá n., átti ég tal við hana um þær, sem hún hefur gert shlj., og ég er og var þeirrar skoðunar, eftir að hafa séð till., að hægt sé að skaðlausu að fækka prestssetrum meir en gert er í frv. Það, sem veldur því, að unnt er og eðlilegt að framkvæma fækkun þeirra, er það, að samgöngur hafa gerbreytzt til hins betra á síðustu árum, og það er því auðveldara fyrir prestana að ná yfir stærra starfssvæði en áður, og enn fremur hafa þær breyt. orðið á störfum þeirra, að starfssvið þeirra hefur dregizt saman, eftir að þeir hættu að hafa kennslu á hendi og eftir að fólki hefur fækkað í ýmsum sóknum. Þetta er svo augljóst atriði, að um það þarf ekki að ræða í áheyrn hv. þm., því að þetta er þeim jafnkunnugt og mér, en að ég legg frv. fyrir eins og hér er gert, stafar af því, að till. n. komu nokkuð seint, og ég treysti mér ekki til að gera alhliða breyt. á frv. á stuttum tíma. Ég tel, að í kirkjumrn. hafi ekki verið til staðar sá kunnugleiki á staðháttum víðsvegar um land, að hægt væri að gera breyt. á frv., sem ekki var tilbúið fyrr en nokkru áður en Alþ. kom saman. Ég hefði að vísu getað gert breyt. á frv. varðandi staði, þar sem ég og aðrir þekkja til, en slíkar breyt. hefðu orðið of yfirborðskenndar, þannig að hægt væri fyrir ráðun. að láta þær frá sér. Enn fremur verður að taka tillit til þess í þessu sambandi, að þó að prestssetrum sé þarna fækkað verulega frá því, sem nú er, og að mönnum sé ljóst, að slíkt sé eðlilegt og framkvæmanlegt, þá er það nú samt svo, að hér er um viðkvæmt mál að ræða, og ef gengið er of langt í að fækka prestssetrum, er hætta á, að málið mæti andstöðu á Alþ. og hljóti ekki afgreiðslu. Þess vegna verður að hafa það í huga, að betra er að koma fram breyt., sem ganga verulega í rétta átt og gera stórfelldar leiðréttingar, eins og þetta frv. leggur til, heldur en að leggja til, að lögð verði niður prestaköll, sem valda mótþróa hér á Alþ. og frv. kunni að stranda fyrir þá sök.

Ég býst við, að ýmsa hv. þm. fýsi að vita eitthvað um það, hve mikinn sparnað þessar ráðstafanir, sem lagt er til, hafi í för með sér, og skal taka fram í upphafi, að það er að sjálfsögðu hægt að gera um það nokkuð nákvæma útreikninga, en ég hef þá ekki við höndina nú og það af skiljanlegum ástæðum, en það verður vitanlega hægt að upplýsa þá n., sem fær málið til meðferðar, um þau atriði. Eins og grg. ber með sér, gerir n. þær till., að þeim sparnaði, sem verður af því að fella niður þau prestssetur, sem lagt er til, og sameina sóknir þeirra nágrannaprestaköllunum, verði varið til að byggja upp önnur prestssetur. Ráðun. gat ekki fallizt á að binda þetta þannig, og mér finnst ekki eðlilegt, að það sé tekin ein framkvæmd þannig út úr, sem sé bygging prestssetra, og ráðstafað fyrir fram um mörg ár. Við vitum ekki um, hvernig ástatt verður hjá okkur á næstu árum, og mér finnst eðlilegt, að það verði á valdi Alþ. á hverjum tíma, hvaða framkvæmdir sitji fyrir.

Ef það væri eitthvað að öðru leyti, sem ég gæti upplýst í þessu máli við þessa umr., þá er ég að sjálfsögðu fús til þess að svo miklu leyti, sem það er á mínu valdi. (Forseti: Vill hæstv. ráðh. gera uppástungu um það, hvaða n. fær málið til meðferðar?) Ég hygg, að réttast sé, að málið fari til hv. menntmn.