06.03.1951
Sameinað þing: 49. fundur, 70. löggjafarþing.
Sjá dálk 837 í B-deild Alþingistíðinda. (1852)

150. mál, fjáraukalög 1948

Frsm. (Halldór Ásgrímsson):

Við 2. umr. þessa máls sá hv. þm. Barð. ástæðu til þess að bera fram ásakanir á hendur Framsfl. um afstöðu hans til afgreiðslu fjárlaga undanfarin ár og bar honum á brýn, að flokkinn hafi skort ábyrgðartilfinningu í afstöðu sinni til fjárl. Ég ætlaði að svara þessari ræðu hv. þm., en gætti þess ekki, að þessi hv. þm. var síðastur á mælendaskrá, svo að hæstv. forseti var búinn að taka málið af dagskrá, er ég ætlaði að kveðja mér hljóðs.

Hv. þm. sagði, að aðalástæðan fyrir því, hve illa hefði tekizt til um afgreiðslu fjárlaga undanfarin ár, væri mest að kenna heimtufrekju Framsfl. og ráðherra hans, því að þar hefði ekki verið til að dreifa neinni ábyrgðartilfinningu og samvinnuvilja um að afgr. ábyrg fjárlög. — Ég ætla að vísa þessum ummælum hans alveg á bug og álít þau vera í fyllsta máta algerlega óréttmæt og tilefnislaus. Ef hv. þm. óskar eftir að ræða þetta mál meir á þennan hátt, gæti farið svo, að hægt væri að leiða fram sem vitni ábyrga forystumenn í Sjálfstfl., sem sanna, að ef um óábyrga afstöðu til fjármálanna hafi verið að ræða, þá sé ekki síður hægt að finna hana innan Sjálfstfl. en annarra flokka.

Ég skal svo ekki ræða frekar um þetta nema tilefni gefist til. Ég hef ekki rætt þetta mál frá flokkslegu sjónarmiði, en átti nokkra orðasennu við hv. þm. Vestm. út af þessu máli, en hann ræddi málið ekki heldur flokkslega, svo að það er hv. þm. Barð., sem færði málið inn á þá braut, sem það nú er á. Og ef hv. þm. Barð. óskar eftir slíkum umræðum, þá hann um það.