15.01.1951
Neðri deild: 49. fundur, 70. löggjafarþing.
Sjá dálk 920 í B-deild Alþingistíðinda. (1990)

59. mál, vinnumiðlun

Frsm. 2. minni hl. ( Jónas Árnason):

Herra forseti. Við flytjum hér á þskj. 485 brtt. við það frv., sem fyrir liggur til umr., hv. 3. landsk. þm. og ég. Hv. 3. landsk. þm. er fyrri flm. till., en sökum forfalla hans kemur í minn hlut að fylgja þessum till. úr hlaði, og til þess þarf ekki langt mál.

Efni brtt. er það, að félmrh. skal heimilt að fyrirskipa vinnumiðlun, þar sem þess þykir þörf. Skal í fjárl. ákveða framlög ríkissjóðs til vinnumiðlunar. Þau skulu þó ekki nema meiru en einum þriðja af kostnaði hverrar vinnumiðlunarskrifstofu, sem starfrækt er í samræmi við þessi lög. Allur annar kostnaður við rekstur vinnumiðlunarskrifstofanna greiðist úr hlutaðeigandi bæjarsjóðum.

Það var upphaflega von okkar flm. þessarar brtt., að n. gæti staðið óskipt að þessari málsbót, sem þarna er till. um. Við fengum ekki skilið, að nokkur gæti séð í því hættu, jafnvel á ströngustu sparnaðartímum, að haldið væri opnum dyrum fyrir það opinbera til að hlaupa undir bagga með bæjarfélögum um það að miðla verkalýðnum vinnu á tímum vaxandi atvinnuleysis. En okkur varð ekki að þessari von, því að meiri hl. n. tjáði sig andvígan till. — Nú er það von okkar, að hv. þd. beri meiri gæfu í þessu efni heldur en hv. n., sem athugaði málið, og að hv. d. því samþ. þá smábreyt., sem farið er fram á í brtt.