16.01.1951
Efri deild: 50. fundur, 70. löggjafarþing.
Sjá dálk 924 í B-deild Alþingistíðinda. (1998)

59. mál, vinnumiðlun

Hannibal Valdimarsson:

Herra forseti. Ég hafði hugsað mér að spyrjast fyrir um það, hvort þetta mál væri flutt af ríkisstj. sem sparnaðarmál, en ég þurfti ekki að spyrja, því að hæstv. forsrh. gat þess sem síðustu og sennilega aðalraka fyrir tilveru málsins, að það væri að nokkru leyti flutt sem sparnaðarmál. Ég verð að segja, að smækkað hefur um sparnaðarmálin hjá hæstv. ríkisstj., þegar þetta er enn þá talið vera í tölu þeirra mála, sem hún flytur til sparnaðar í rekstri ríkisins. Jú, 100 þús. kr. eru ætlaðar úr ríkissjóði til þess að sinna þátttöku í kostnaði af vinnumiðlunarskrifstofum í landinu. Ríkisstj. hefur samkv. l. frá 1935 skipað form. stjórna vinnumiðlunarskrifstofa, og vinnumiðlunarskrifstofum hefur verið ætlað það hlutverk fyrir hönd ríkissjóðs að greiða fyrir ráðningu fólks milli héraða og milli sveita og kaupstaða og milli landshluta. Þetta hef ég talið þjóðfélagslegt hlutverk, sem skrifstofurnar hafa innt af höndum, og þannig þjónað ríkinu á móti þessum 100 þús. kr., sem þær hafa fengið til starfsemi sinnar. Nú á að breyta þessu á þann hátt, að þetta eiga ekki að vera að neinu leyti ríkisstofnanir, — ríkisstj. afsalar sér þeim rétti að tilnefna form. í stjórn vinnumiðlunarskrifstofanna, og þeim er að sjálfsögðu ekki heldur ætlað að starfa nema að ráðningum og vinnuútvegun innan þess sveitarfélags, þar sem þær starfa. Ég tel þetta út af fyrir sig tvímælalaust vera til þess að draga úr gildi þessarar starfsemi, og ég tel illa farið, að hæstv. ríkisstj. skuli breyta á þann hátt, því að nú, með vaxandi atvinnuleysi, var einmitt full þörf fyrir, að vinnumiðlunarskrifstofur héldu uppi sinni starfsemi, að útvega atvinnu út fyrir sveitarfélagið, sem þær starfa í, og útvega fólk til sveita og milli landshluta eftir því, sem atvinnulífið þyrfti á vinnuafli að halda. En þarna er öfugt að farið, þarna á að stoppa, þegar vaxandi þörf er fyrir slíka starfsemi. Hæstv. forsrh. sagði, að það hefði verið tiltölulega lítill kostnaður í sambandi við rekstur vinnumiðlunarskrifstofa. Þó voru þær starfræktar ekki aðeins í Reykjavík, heldur á Akureyri, Ísafirði og í Vestmannaeyjum, á tímabili a.m.k., og í fleiri kaupstöðum landsins, og þær hafa unnið stundum alls ekki ómerkilegt starf. Það var ekki við því að búast á þeim tíma, sem nóg var atvinna í landinu, að vinnumiðlunarskrifstofurnar hefðu mikið að gera, en þó var þeim haldið uppi, en nú fer þörfin fyrir þessa starfsemi vaxandi.

Hæstv. ráðh. minntist á það, að hér í Reykjavík störfuðu 2 vinnumiðlunarskrifstofur. Hvernig getur staðið á því? Hér var starfandi vinnumiðlunarskrifstofa samkv. l., að nokkru leyti kostuð af ríkinu, en samt sá Reykjavíkurbær ástæðu til þess að stofnsetja aðra vinnumiðlunarskrifstofu. Þetta virðist stangast við rök hæstv. forsrh., þar sem hann segir, að lítil þörf sé fyrir tvær skrifstofur hér. (Forsrh.: Ég sagði, að lítil þörf væri fyrir skrifstofur utan Rvíkur). En hér skal nú í vaxandi atvinnuleysi leggja niður ríkisskrifstofuna. Ég get ekki annað séð en að Reykjavíkurbær hætti að bera sinn hluta af ríkiskostnaðinum, ef hann teldi nóg að hafa eina skrifstofu, og neitaði þess vegna að reka aðra skrifstofu við hliðina á hinni, á kostnað bæjarins. Reykjavíkurbær hefur ekki talið nægilegt, að ein vinnumiðlunarskrifstofa væri starfrækt, þó er þess sannarlega þörf, að ríkið reki skrifstofu hér í Reykjavík. Fyrir landbúnaðinn hafa verið reknar þrjár ráðningarskrifstofur, og svo er því haldið fram, að það sé ekki þörf á þessu. Ein breyt. er sú, að sveitarstjórnum er gert skylt að kosta skrifstofurnar. Þetta leiðir til þess, að þær verða lagðar niður, því að þó ríkissjóður hafi þörf fyrir sparnað, hafa sveitarfélögin enn meiri þörf á sparnaði, því að það þrengir meira að þeim en ríkissjóði. Hann sér um sig og hefur auk þess rýmra olnbogarúm til þess að afla sér tekna.

Það verður ekki um það deilt, að nú er brýn þörf fyrir vinnumiðlun í hverjum kaupstað og hverju þorpi og þörf á því að færa atvinnuleysingjana á milli staða, eftir því sem vinna gefst. Þess vegna er það sízt verjandi núna að leggja þær niður, jafnvel þó að ríkissjóður verji til þeirra 100 þús. kr. Hvaða hagsmunum er svo verið að þjóna með sparnaði eins og hér um ræðir? Það vakir ekki fyrir ríkisstj. að spara með þessu, — það er eitthvað annað.

Í löggjöfinni um vinnumiðlun hefur verið ákveðið, að félmrn. skuli skipa formenn í stjórn vinnumiðlunarskrifstofanna. Þetta gat afstýrt því, að vinnumiðlunin væri framkvæmd hlutdrægt, ef meiri hlutinn ýtti undir hlutdrægni í starfsemi þessara stofnana. Hvað viðvíkur vinnumiðlunarskrifstofunum, þá hefur það verið borið fram, að form. væri ekki tilnefndur af félmrn., heldur af atvinnurekendum. Ég held því fram, að skrifstofurnar eigi ekki að vera tæki í höndum atvinnurekendanna. Það er illt, ef hæstv. forsrh. stuðlar að því, að þær greiði fyrir atvinnu hjá vissu fólki, svo að þær verði pólitískt kúgunartæki í höndum vinnuveitenda. Slík skrifstofa verður til bölvunar, en ekki bóta, og er því fé illa varið, sem varið er til slíkrar stofnunar. Að ríkisstj. tilnefni formanninn, er nokkur trygging, en að fella það ákvæði burt, er stórskemmd á lögunum. Tilgangurinn leynir sér ekki. Þetta er ekki runnið undan hans rifjum og á að þjóna allt öðrum hagsmunum en hans, enda er það ekki í samræmi við hans lífsskoðanir, það er mér kunnugt um. Ég lýsi fullkominni andstöðu minni við þetta frv., sem á ekkert skylt við sparnað og er borið fram til að þjóna allt öðrum tilgangi en að þjóna vinnumiðlun í landinu. Alþfl. mun vinna gegn þessu frv., sem væri réttilega nefnt frv. til atvinnukúgunar, því að það er það sannarlega.