15.12.1950
Efri deild: 40. fundur, 70. löggjafarþing.
Sjá dálk 1067 í B-deild Alþingistíðinda. (2194)

121. mál, almannatryggingar

Haraldur Guðmundsson:

Herra forseti. Ég bið afsökunar á því, að ég mæti ekki fyrr en þetta, en ég tafðist á leiðinni. — Það hefur nokkuð verið rætt um það í n. að bera fram nú við 3. umr. brtt. við 29. gr. frv., en sú gr. fjallar um innheimtu framlags sveitarsjóða. Það hefur komið hér fram í umr., að síðastliðin ár hafi nokkrir erfiðleikar komið í ljós við innheimtu framlags frá einstöku bæjar- og sveitarfélögum, og vék hæstv. forsrh. að því í ræðu sinni hérna um daginn. Það er að vísu rétt, að nokkuð hefur borið á þessu hin síðari ár, en það stafar að mínu áliti af því, að innheimta útsvaranna fer til þess að greiða gjöld, sem eru umfram hin ákveðnu gjöld í fjárhagsáætlunum hlutaðeigandi bæjar- og sveitarfélaga, og hefur þá valdið erfiðleikum á því að inna af höndum önnur lögboðin gjöld, sem tekin hafa verið upp í áætlanirnar. — N. hefur ráðgazt um þetta við skrifstofustjóra félmrn., sem jafnframt er eftirlitsmaður bæjar- og sveitarstjórna í landinu, og gerði hann uppkast að till., sem nú skal greina frá og ég vil leyfa mér að lesa upp, með leyfi hæstv. forseta. Brtt. er svo hljóðandi:

„Við 29. gr.

Aftan við greinina bætist ný málsgrein, svo látandi:

Nú vanrækir sveitarfélag greiðslu á framlagi sínu til Tryggingastofnunar ríkisins í eitt ár eða lengur, og er ráðherra þá heimilt að ákveða, að á útsvör tiltekinna stofnana, fyrirtækja og einstaklinga í sveitarfélaginu skuli lagt hald og þau greidd innheimtumanni ríkissjóðs, þegar þau falla í gjalddaga, og skal sú skipan haldast þar til skuld sveitarsjóðs við Tryggingastofnunina er að fullu greidd.“

Samkv. þessari till. er gert ráð fyrir, að ráðh. sé heimilt, ef vanræksla á framlagi sveitarsjóða til Tryggingastofnunarinnar hefur átt sér stað í eitt ár eða lengur, að leggja hald á útsvörin, þannig að um leið og þau séu greidd, gangi þau til þess að greiða þessar vanskilaskuldir, og sú skipan haldist, þar til skuldin við Tryggingastofnunina er að fullu greidd. — Ég hef ekki haft tækifæri til að halda fund um þetta í n., en ég held, að 4 nm. af 5 séu sammála um að mæla með því, að þessi till. verði samþ., og vil ég mælast til þess, að hv. d. samþykki hana.