15.12.1950
Efri deild: 40. fundur, 70. löggjafarþing.
Sjá dálk 1070 í B-deild Alþingistíðinda. (2201)

121. mál, almannatryggingar

Forsrh. (Steingrímur Steinþórsson):

Herra forseti. Ég vildi aðeins segja um þetta örfá orð. Það er vitanlega dálítið óheppilegt, að till. þessi skuli vera skriflega fram komin svona á síðustu stundu og liggja þannig fyrir hv. d. Og ég geri því ráð fyrir, af því ég heyri, að ekki er fullt samkomulag um hana, að það verði að taka hana eitthvað frekar til athugunar.

Nú er það svo, eins og allir vita, að ríkissjóður ber ábyrgð á því, að framlög sveitarfélaganna séu greidd, samkv. núgildandi lögum. Hins vegar hefur oft heyrzt um það rætt, að losa þyrfti ríkissjóð við þessa ábyrgð. Ég held fyrir mitt leyti, að ábyrgð ríkissjóðs á innheimtunni eigi að standa í l. áfram, en hins vegar sé rétt, að hún verði gerð áhættuminni en nú er. Er þá einkum um tvær leiðir að velja, og er hin fyrri sú, sem hér er lagt til að verði farin; hin er sú, að svipta þau sveitarfélög réttindum, sem ekki standa í skilum, unz þau hafa greitt skuld sína. — Ég viðurkenni, að báðar aðferðirnar eru dálítið harðar, og þarf því ekki að undra, þótt forráðamenn sveitarfélaganna kveinki sér nokkuð. En einhverjar ráðstafanir verður hér að gera til þess að tryggja innheimtuna. Það er alveg víst, enda þótt ég nefni ekki að þessu sinni nein nöfn, að útsvarsálög, sem hafa verið innheimt og átt að fara til trygginganna, hafa í sumum tilfellum verið notuð til alls annars. Hafa þá viðkomandi sveitarfélög í fyrsta lagi gert sig sek um hlut og enn fremur gert þá nauðsyn brýnni, að gerðar verði ráðstafanir til þess, að þetta geti ekki komið fyrir.

Það virðist þó ekki heppilegt að ganga til úrslita í þessu máli nú, enda þótt ég hafi vonað, að hægt yrði að afgreiða það til n. í Nd. í dag. En ég vil leyfa mér að spyrja, hvort ekki megi taka till. aftur hér nú, svo að frv. geti þá farið eins og það er til Nd., og þetta sé svo athugað á milli umræðna og e.t.v. orðið samkomulag um þetta atriði, svo að allir mættu vel við una.