12.01.1951
Efri deild: 48. fundur, 70. löggjafarþing.
Sjá dálk 1112 í B-deild Alþingistíðinda. (2289)

82. mál, sala jarðeigna í opinberri eigu

Landbrh. (Hermann Jónasson):

Herra forseti. Það er vitanlega rétt hjá hv. 1. þm. Eyf., að það er skaðlaust að samþ. heimildina, því að hún er þegar til staðar í l., ef ábúandinn hefur haft ábúð á jörðinni í samfleytt 3 ár, og sú heimild hefur verið notuð í tveimur eða fleiri tilfellum, ef ég man rétt. Það er líka þannig, að þegar jarðir eru seldar með því skilyrði, að þær séu gerðar að ættaróðali, þá eru horfnir a.m.k. að verulegu leyti þeir ágallar, sem eru á því; að jarðir séu í einstaklings eign, af þeirri ástæðu, að þá er útilokað, að hægt sé að braska með jarðirnar, og það er þá ekki nein hætta á því, að það verði kynslóð eftir kynslóð ofvaxið að kaupa þær vegna okurverðs og margir bændur stynji undir því mikið af sinni búskapartíð. En eins og fjárveitingum til bygginga á jörðum, sem eru í ríkisins eign, er háttað, þá er auðsætt, að það er ekki hægt að sinna því máli eins og raunverulega er skylda ríkissjóðs að l., og er það til ákaflega mikilla leiðinda og trafala, enda er það svo nú, að kröfurnar á ríkið eru með öðrum hætti en áður, eftir að búskaparhættir hafa breytzt. Það var einu sinni svo, að menn létu sér nægja húsakynni, sem enginn lætur sér nægja nú, menn létu sér enn fremur nægja peningshús, sem enginn gæti nú unað við lengur, en af þessu leiðir, að þær skyldur, sem á ríkinu hvíla um byggingar, eru geysimiklar. Enn fremur er nú byrjað að leggja rafmagn heim á marga bæi og raflagnir í íbúðir, og það eru gerðar kröfur um, að ríkið borgi það, og margt er það fleira, sem ríkið þarf að sinna nú, en þurfti ekki að sinna áður. Það þyrfti raunverulega heila stofnun til þess að anna þessu, ef það ætti að fara vel úr hendi, án þess að verða sá trafali í afgreiðslu, sem verður þegar svona ný viðhorf skapast, og þetta kostar meira fé en ríkið hefur séð sér fært að leggja fram í þessu máli. — Þetta vildi ég aðeins segja í sambandi við þær heimildir, sem ríkisstj. hefur veitt til að selja ábúendum þessar jarðir, ef þeir hafa haft ábúð í 3 ár, þó með þessari kvöð, að jarðirnar séu aldrei seldar meðan einhver úr ættinni vill nýta þær. Ég ætla svo ekki að ræða þetta mál nánar, en vildi aðeins segja frá þessu í sambandi við þetta mál, um leið og ég upplýsi, að þessi heimild, sem hv. 1. þm. Eyf. minntist á, er til staðar.

En aðalefnið í þessu máli mínu var það, að ég vildi fara fram á og tala fyrir, þó það sé ekki tekið upp í þetta mál, heimild til þess að selja eina jörð, sem er í þeirri sýslu, sem ég er umbjóðandi fyrir; það er þjóðjörðin Birgisvík. Þetta stendur þannig af sér, að norðarlega á Ströndum er Kaldbaksvík, þar eru tveir bæir, Kaldbakur og Kleifar. Þessi vík er mjög fræg fyrir það, hvaða maður nam þar land fyrst, og þarf ekki að rekja það hér. En alla leið frá Kaldbaksvík, sem er norðarlega í Kaldrananeshreppi, er strandlengja, sem er mjög erfið yfirferðar, alla leið að Veiðileysufirði. Á þessari leið voru 2 bæir, Birgisvík og Kolbeinsvík. En rétt hjá Birgisvík er svokölluð Veiðileysuófæra, sem er mikill farartálmi, þar sem verður að fara undir klettum og sæta sjávarföllum. Nú eru báðar þessar jarðir í eyði, Kolbeinsvík og Birgisvík. Á Kleifum í Kaldbaksvík býr Jósteinn, sonur Guðmundar bónda í Birgisvík, og er einn af 12 börnum hans. Hann vill kaupa þessa jörð og hefur sótt eftir því nú undanfarið. Kleifar eru í Kaldrananeshreppi, en Birgisvík í Árneshreppi. Þessi maður hefur ekki viljað sleppa forkaupsrétti sinum gagnvart manni, sem er í öðrum hreppi, og nú fyrir nokkrum dögum hefur hann gert kröfu til þess að fá jörðina keypta og telur að hreppurinn falli frá sinni kröfu, ef hann gerist einn bóndi af þremur í Veiðileysufirði. Ef hann fær jörðina, þá ætlar hann sér að byggja þar og setja upp bú. Ég mun því fara fram á það við hv. n., að við næstu umr. verði þessu bætt inn í, því að það er mjög áríðandi að fá byggðar jarðir, sem liggja á svona fjölfarinni leið. Það er mikið mein, að á svona langri leið skuli engin byggð vera.