12.01.1951
Efri deild: 48. fundur, 70. löggjafarþing.
Sjá dálk 1119 í B-deild Alþingistíðinda. (2295)

82. mál, sala jarðeigna í opinberri eigu

Landbrh. (Hermann Jónasson):

Það er auðheyrt, að hv. þm. þekkir lítið til á þeim stöðvum, sem hann er að tala um. Allar beztu rekajarðirnar þekki ég eftir að vera búinn að fara 19 sinnum um þessa strönd á flestum tímum árs. Birgisvík er sáralítil rekajörð, og það af þeirri einföldu ástæðu, að norðan Birgisvíkur er Kambstangi, en þetta er bein strandlengja, og við, sem þekkjum rekajarðir, vitum mætavel, að ströndin þarf að liggja á sérstakan hátt við, til þess að þar sé góður reki. Þarna er lítils háttar reki, en hann er naumast umtalsverður af þessari ástæðu, að tanginn liggur þarna fyrir norðan, og rekinn, sá litli sem þarna lendir, staðnæmist þar. Rekinn er aðallega norðan Reykjafjarðar, norður frá Gjögri, það er Reykjanesland, og þar lendir allur rekinn. Tvær beztu rekastrandirnar eru Reykjanesströnd og Gálmaströnd, og þar hefur blessuð kirkjan náð fyrr á öldum í jarðir, og eru þær í eign kirkna í annarri sýslu, og þar eru stöðugar þrætur um, hvort bændurnir megi eiga þetta og þetta af rekanum. Það er þetta, sem reynt hefur verið að koma í veg fyrir með lögum. En þetta kemur ekki jörðinni Birgisvík við, enda er hún innan við Árnes og kemur þess vegna ekki við þeirri hugmynd, sem hv. þm. gerir sér um rekajarðirnar þarna norður frá. En það eru rekajarðir allra nyrzt í Strandasýslu, sem nú eru í eyði, Skjaldabjarnarvík, sem er nyrzti bærinn, og Drangavík, sem er lítið kot. Aðrar jarðir eru ekki í eyði á Ströndum. Það, sem oftast eru kallaðar Strandir, er í kjördæmi hv. þm., og er fyrir norðan Geirólfsgnúp, og þar eru rekajarðir, sem ekki hefur komið til mála, að ríkið seldi, og víða eru víkur, þar sem gæti komið til mála að hægt væri að koma á fót byggðum eins og þeim, sem hv. þm. talaði um. T.d. gætu um 200 –300 manns búið í Árnesi og haft hlunnindi norðar á Ströndunum. — Annars er það um rekann að segja, að þó að hann sýnist nokkuð mikill, þá kemur þar margt til greina, og hann er ekki eins fljóttekinn og lítur út fyrir. Hann hefur verið notaður mikið í mínu kjördæmi og sagaður í 2 myllum, sem reknar eru þar, en nú í sumar hefur t.d. ekki verið hægt að ná í rekann vegna óveðurs, og það er geysilegt verk og kostnaðarsamt að ná honum, svo mikið verk, að þeir, sem rekann á Ströndunum sjá, renna ekki grun í það.

Ég vil aðeins leiðrétta það með nokkrum orðum, að það eru ekki 200 þús. kr., sem varið er til endurbygginga á ríkisjörðum, heldur bætast þar við tekjur ríkisins af fasteignum þess á ári hverju. Hitt er svo að athuga, að ef ætti að byggja upp á þessum jörðum, sem ríkið á í tuga og hundraða tali um allt landið, virðist okkur, að það mundi kosta um 1/4 millj. kr. að byggja upp á hverri jörð og gera það, sem gera þyrfti. Ég ætla ekki að orðlengja frekar um þetta, menn sjá, hve gífurlegt fé það yrði.

Hv. 6. landsk. þm. talar um, að illa sé farið með þá, sem búa á ríkisjörðunum, en það hefur einmitt verið bent á það hér af flokksmanni hans, að með því að byggja upp fyrir stórfé á jörðunum, þá er vitanlega verið að gefa þessum mönnum, ef þeir fá jarðirnar keyptar á eftir, því að það er víst, að peningarnir koma aldrei aftur að fullu við sölu á ríkisjörð. Ég held þess vegna, að það sé betra að ívilna bændunum með því að láta þá fá jarðirnar til kaups sem óðalseign, eins og ríkið hefur heimilað með lögum, og láta þá síðan sjálfa byggja upp á þeim; það hefur, eins og ég sagði áðan, reynzt allt að því helmingi ódýrara í framkvæmd. Til að hjálpa þeim við það er byggingarsjóðurinn með 2% vöxtum og ræktunarsjóðurinn, einnig með 2% vöxtum eða lítið eitt hærri. Fái þeir þessa aðstoð, þá framkvæma þeir þetta á miklu hagkvæmari hátt en ríkið getur gert, og það er þessi stefna, sem ég álít, að við eigum að fylgja. Þegar ríkið byggir og verkið er allt framkvæmt af fagmönnum, verður kostnaðurinn oft ótrúlega miklu meiri en hjá bændunum. Það er ekki mikið, sem byggt hefur verið á prestssetri einu í Árnessýslu, sem ég býst við, að hv. þm. sé kunnugt um, fjós yfir 11 kýr og hlaða; síðast þegar ég frétti, voru komnar í það 510 þús. kr., allt framkvæmt af fagmönnum í Reykjavík. Það er önnur framkvæmd á döfinni vestanlands, sem ég býst við, að eitthvað svipað sé um að segja.

Ég er ekki í minnsta vafa um, ef hv. 6. landsk. þm. rannsakar byggingarmál ríkisins, — og það getur hann auðvitað fengið á þeirri skrifstofu, sem með það hefur að gera í stjórnarráðinu —, þá muni hann sjá, að þessi stefna er miklu skynsamlegri en hin. Ég efast ekki um það, ef þessi vestfirzki bóndi fær þann helming jarðarinnar keyptan, sem ríkið á, þá muni honum takast, ekki síður en öðrum, að byggja upp á jörðinni, og verður miklu ánægðari með það en hitt.

Það eru gerðar kröfur til, að ríkið byggi upp á jörðum sínum, en svo vilja bændurnir kaupa þær, þegar búið er að byggja. Á einni jörð er búið að byggja fjós fyrir 75 þús. kr. Nú vill bóndinn fá jörðina keypta. Ég tek það vitanlega ekki í mál, að bóndinn fái jörðina keypta, nema hann kaupi fjósið líka, það verður alls ekki selt honum fyrir fasteignamatsverð. En svona er það oft. Ríkið byggir fyrir stórfé á jörðunum; þegar það er búið, þá vilja bændurnir kaupa fyrir fasteignamatsverð, sem nær auðvitað engri átt. Ég vildi mælast til þess, að hv. þm. kynni sér, hvernig þetta er í framkvæmd, það getur hann gert á skrifstofunni, sem hann hefur alltaf aðgang að.