12.01.1951
Neðri deild: 48. fundur, 70. löggjafarþing.
Sjá dálk 1141 í B-deild Alþingistíðinda. (2403)

46. mál, orkuver og orkuveita

Skúli Guðmundsson:

Herra forseti. Hv. 7. þm. Reykv., sem er form. iðnn. og frsm. í þessu máli, gat ekki verið viðstaddur umr. hér, og bað hann mig því að koma á framfæri skrifl. brtt. frá iðnn. við þetta mál. N. hafa borizt tilmæli frá hv. þm. S–M. um það. að inn í þetta frv. verði bætt ákvæðum um heimild fyrir rafveitur ríkisins til að virkja Grímsá í Skriðdal í Suður-Múlasýslu í allt að 750 hestafla orkuveri fyrir Egilsstaði, Eiða og nágrenni.

Fyrir liggur áætlun um þetta orkuver frá raforkumálastjóra. Er stofnkostnaðurinn áætlaður 1.900 þús. kr. Síðan er gert ráð fyrir orkuveitu frá virkjunarstaðnum að Egilsstöðum og Eiðum, og er jafnframt ætlazt til, að veitan nái til 18 sveitaheimila utan við þá staði. Gert er ráð fyrir, að sú veita kosti um 1.560 þús. kr., þannig að heildarkostnaðurinn er áætlaður um 31/2 millj. kr. Til samanburðar má geta þess, að orkuveitan, sem frv. fjallar um, í Fossá í Hólshreppi í Norður-Ísafjarðarsýslu, er ráðgerð 700 hestöfl, en ásamt rafveitu til Bolungavíkur er kostnaðurinn áætlaður 3,1 millj. kr. Ef virkjunin er tekin út af fyrir sig, virðist hún vera heldur ódýrari í Grímsá en Fossá. Nú er það till. iðnn., að ákvæðum um þessa virkjun sé bætt inn í frv. Ég vil leyfa mér, að fengnu leyfi hæstv. forseta, að lesa upp 1. gr. eins og hún yrði, ef þessi brtt. yrði samþ.:

„Ríkisstjórninni er heimilt að fela rafmagnsveitum ríkisins:

1. að virkja Fossá í Hólshreppi í Norður-Ísafjarðarsýslu til raforkuvinnslu í allt að 700 hestafla orkuveri og leggja þaðan aðalorkuveitu til Bolungavíkur.

2. að virkja Grímsá í Skriðdal í Suður-Múlasýslu til orkuvinnslu í allt að 750 hestafla orkuveri fyrir Egilsstaði, Eiða og nágrenni.“

Í samræmi við þetta er lagt til, að fyrir tölurnar „3,1 millj. króna“ og „1 millj. króna“ komi „5 millj. króna“ og „1,6 millj. króna“. Þá er lagt til, að orðið „orkuverið“ í 3. gr. breytist í „orkuverin“ og „orkuvers þess“ verði „orkuvera þeirra“. Að lokum er lagt til, að fyrirsögn frv. breytist og verði: „Frv. til l. um ný orkuver og nýja orkuveítu rafmagnsveitna ríkisins“.

Ég sé ekki ástæðu til að fara fleiri orðum um þessa brtt., en vil leyfa mér að afhenda hæstv. forseta hana.