02.02.1951
Efri deild: 61. fundur, 70. löggjafarþing.
Sjá dálk 1168 í B-deild Alþingistíðinda. (2453)

173. mál, gengisskráning o.fl.

Hannibal Valdimarsson:

Það er ekki í fyrsta sinn, sem hv. þm. Barð. vill reyna að gerast kennari minn í þinglegum vinnubrögðum. Og hann hefur viljað taka fleiri á hné sér. Hann segir hæstv. dómsmrh. til og fleirum af sínum elskulegu flokksbræðrum. Og allur er þessi nemendahópur hans jafntornæmur á þessi þinglegu fræði. Alltaf heldur áminningunum áfram, og alltaf er nóg verkefnið hjá honum. Ég held hann ætti að fara að hætta þessari sífelldu kennsluviðleitni sinni við þingbræður sína. Ekki er nóg með það, að hann vilji kenna, hvernig eigi að halda ræður og hvaða orðaval að viðhafa, heldur er hann oft og einatt að vanda um við þm., hvernig þskj. eigi að vera. Er ekki langt síðan hann tók einn þm. til kennslu í því efni. Ég ætla samt að hætta á að nota minn þinglega rétt til að ræða mál eins og mér sýnist, hvað sem „þingmaður fjárveitinganefndar“ og „yfirþingmaður efrí deildar“ vill segja fyrir.

Það er engum vafa undirorpið, að þetta frv. er orðið til af því, hvernig fór um þá bindingu á frelsi verkalýðssamtakanna um ákvörðun kaupgjalds í landinu, sem meiningin var að hefta í haust með till. hæstv. viðskmrh., en ríkisstj. uppgötvar nú og viðurkennir hér með að hafi misheppnazt, — viðurkennir með því að flytja þetta frv. Af því að ekki tókst að hefta frelsi verkalýðsfélaganna nú fyrir jólin, er talinn sá þjóðarvoði á ferðum, að kaup verkalýðsins hækki frá mánuði til mánaðar, eftir vísitölu mánaðarins á undan. Og það er þessi þjóðarvoði, sem ríkisstj. telur vera á ferð, sem á að hefta með þessu frv. Og þá á að slá föstu, að ekki einungis hinir fastlaunuðu embættismenn ríkisins, heldur líka það fólk, sem tekur kaup samkv. samningum stéttarfélaga, skuli fá laun sín greidd með vísitölunni 123. Þetta held ég sé hafið yfir allan vafa, og veít ég, að ég muni fá kennslustund hjá hv. þm., ef einhver misskilningur hefur komizt inn af tornæmi mínu.

Hæstv. ríkisstj. segist ekki viðurkenna, að lagasetningin í haust hafi neitt misheppnazt. Þetta frv. eru alger mótmæli gegn því. Þeir segja, að það sé svo vafasamt, hvort lagasetningin frá í haust haldi, lögfræðingar séu ekki einu sinni sammála, og það muni þess vegna valda þrætum. Og þeim stendur stuggur af þrætum. Þó er til félagsdómur í landinu, sem ætti að geta á tiltölulega skömmum tíma skorið úr, hvort kaup skuli greiða eftir vísitölu hvers mánaðar samkv. ákvæðunum í haust eða hvort kaup sé fast. Og það sýnist ekki þurfa að standa nein ógn af því, þó að félagsdómur kveði upp sinn úrskurð. En það er áreiðanlegt, að það er að fara úr öskunni í eldinn, þegar er verið að skjóta sér undir hugsanlega misklíð um skilning laganna frá í haust og er nú rokið í að flytja frv. til að binda vísitöluna á vinnulaun samkv. stéttarfélagslegum samningum við 123 stig. Það mun valda — ekki þrætum, heldur ófriði. Þetta frv. í þessu formi á að tryggja það, sem ætlazt var til að næðist með breyt. 19. desember. Þetta er þess vegna önnur tilraunin hjá ríkisstj. til að ná þeim tökum á verkalýðssamtökunum, að þau séu bundin vísitölu á kaupi.

Hv. þm. Barð. hefur nú verið að útskýra það, að hann geti fylgt því, að kaup verkamanna sé greitt með sömu vísitölu og opinberra starfsmanna, brátt fyrir allan þann mikla aðstöðumun, sem hann hefur réttilega lýst að sé milli þessara tveggja aðila. Hann segist geta vel verið sama sinnis og í haust og fylgt þó lögbindingu á sömu vísitölu fyrir verkafólk og opinbera starfsmenn. Ver hann sig með því, að ég hafi slitið ummæli hans frá því í haust úr samhengi. — Nú var tilefni þessa kafla í ræðu hv. þm. Barð. það, að ég hafði sagt, að ef kaup opinberra starfsmanna yrði með lögbundinni vísitölu allt árið 1951, þá yrði því þar með slegið föstu, en samkv. kenningu viðskmrh. um algert frelsi verkalýðsfélaganna til að ákveða sitt kaup og þar með fulla heimild til að láta kaup breytast samkv. vísitölu, — og því hélt ég fram samkv. skýringu viðskmrh., — þá mundi verða bil, kannske geysimikið bil, milli kaupgjaldsins, sem verkalýðssamtökin byggju við annars vegar og opinberir starfsmenn hins vegar. Ég tók sem dæmi, að verkalýðssamtökin fengju sitt samningsbundna kaup reiknað út með vísitölunni 130–150.

Þau dæmi voru beint tekin úr umr. í desember. Og þá er það, sem hv. þm. Barð. grípur tækifærið til að svara, — svara þeirri spurningu, sem ekki var beint til hans, heldur til ráðh. (GJ: Það svar liggur aftar en þessi kafli. ) Ég fer ekki villur vegar. Í innganginum að þessari tilvitnun, sem ég las í samhengi, snerta allar málsgreinarnar þetta atriði. Inngangurinn er þessi, með leyfi hæstv. forseta: „f sambandi við fyrirspurn hv. 6. landsk. til hæstv. ráðh. um það, hvort hann héldi, að starfsmenn ríkis og bæja mundu una því, að ...“ Síðan tek ég allan kaflann, hvers vegna hann hugsar sér þetta, allt til enda, og hætti ekki við upplesturinn fyrr en þm. er kominn út í allt aðra sálma. Ég las allt hans svar, þar sem hann rökstyður, að verkamenn hafi meira frjálsræði um kaup eftir hærri vísitölu og væri ekkert að athuga við það, þar eð þeir stæðu höllum fæti gagnvart margs konar öryggi, sem hinum væri tryggt. Ég tók undir rök hv. þm. og hæstv. ráðh. og kvað mér líka þetta vel. Ég þóttist skilja, að það frelsi, sem var verið að tryggja verkalýðssamböndunum með breyt. í haust, fæli í sér, að með því að vísitala er auglýst 128; yrði kaupgreiðsluvísitala verkalýðsins reiknuð þar eftir. En þá er rokið upp af hv. þm. Barð. og ráðh. og ríkisstj. að hefta þetta, eftir allar frelsisyfirlýsingarnar. Það hlýtur að byggjast á breyttu viðhorfi frá því í haust.

Með því að ræða þetta mál svo ýtarlega við hv. þm. Barð. finn ég, að ég hef brotið gegn ráðleggingu, sem dómsmrh. veitti mér skömmu eftir að ég kom á þing 1946. Þá sagði hann við mig, að auðséð væri, að ég væri nýkominn á þing, þar sem ég enn þá væri að tefja mig á að svara hv. þm. Barð., því að allir þm., sem búnir séu að sitja á þingi nokkurn tíma, séu löngu búnir að læra það að virða hann ekki svars og það mundi mér lærast líka. Ég játa, að ég hef oft hugsað til þessa heilræðis hæstv. ráðh. og stundum hagað mér eftir því, en því miður ekki alltaf. Mun ég muna þetta heilræði enn betur eftirleiðis.

Hæstv. ráðh. sagði, að ríkisstj. hefði af veikum mætti verið að berjast við dýrtíðina. Já, það er áreiðanlega víst, að það er af mjög veikum mætti! Því að fæstir í landinu hafa orðið þess varir, að nein barátta móti dýrtíðinni væri hafin af hálfu hæstv. ríkisstj. Hvað á að segja um úrræðið, sem nú virðist vera á prjónunum hjá hæstv. ríkisstj. til hjálpar vélbátaútgerðinni, að láta útgerðarmenn hafa helming af þeim gjaldeyri, sem vélbátaútgerðin framleiðir, til frjálsra afnota á þann hátt, að þær vörur, sem fyrir hann yrðu keyptar, verði ekki háðar verðlagseftirliti? Er það barátta móti dýrtíðinni? Það verður glæsilegur árangur af þeirri baráttu! Óefað 50–60% verðhækkun á þessum vörum að minnsta kosti, í skjóli þess, að engum öðrum gjaldeyri verði varið til að kaupa sömu vörur. Það verður einokun, sem kaupmenn og útgerðarmenn fá til að græða á. Halda menn, að þessi ráðstöfun hafi engin áhrif á dýrtíðina? Þetta sýnir vel, af hve veikum mætti og vilja ríkisstj. berst gegn dýrtíðinni. Það á að binda kaupið, ekki aðeins hinna föstu opinberu starfsmanna, við 123 vísitölustig, einmitt þegar svona holskeflur, framleiddar af ríkisstj., vofa yfir, það á einnig að binda kaup verkafólks í landinu við 123 vísitölustig. Þessar ráðstafanir finnst mér bera allan keim af lítilli umhyggju fyrir hag verkalýðsins, sem býr við stopula atvinnu, Og ég er sannfærður um, að aldrei verður litið öðruvísi á af verkalýðssamtökunum en að þetta séu mjög óvinsælar ráðstafanir frá hendi ríkisstj. Hæstv. dómsmrh. bað mig að hugsa mig tvisvar um í afstöðu minni til þessa máls, og hann óskaði þess, að ég sýndi þann þegnskap og þá drenglund, sem ég ætti til, með því að þola möglunarlaust festingu kaupgjaldsins í vaxandi dýrtíð. Ég fullyrði, að slík afstaða verkalýðsfulltrúa á Alþingi gagnvart þessu máli, að taka þvingunarráðstöfunum ríkisstj. með þögninni, hún væri ekki til þess, að sýna verkalýðsstéttinni drengskaparlund. — Hæstv. ráðh. óskaði einnig eftir því, að ég styddi ekki að því, að verkalýðurinn færi nú út í verkföll til að ögra ríkisstj. Það er af og frá, að slíkt vaki fyrir mér, og ég mundi alls ekki vilja stuðla að því á nokkurn hátt, að verkalýðurinn legði út í pólitísk verkföll. En ef verkfallsalda rís nú út af þessari lagasetningu, sem hér er verið að koma á, þá yrði ekki um pólitísk verkföll að ræða á nokkurn hátt. Það væru hagsmunasamtök fólks, sem væri statt í neyð. Er búið væri að binda kaupgjald við mikils til of lága vísitölu, eða 123 stig, um leið og boðuð er stórfelld dýrtíðaralda í landinu, þá væru verkalýðsfélögin algerlega neydd til að knýja fram kauphækkanir, og það yrði að gerast með þrálátum verkföllum, ef atvinnurekendur féllust ekki á hækkun grunnkaups. Önnur leið yrði verkalýðsstéttinni ekki fær, ef ríkisstj. býr þannig í pottinn, sem hún hyggur. Og ég er sannfærður um, að enginn ráðherra er svo blindaður í garð verkalýðsins, að ef hann gætti sanngirni og drengskapar, þá kæmist hann að þeirri niðurstöðu, að slík barátta væri síður en svo sprottin af hatri til ríkisstj., heldur blátt áfram af því, að fólkið væri statt í neyð. Hver er nú þróun verðlagsmála í landinu síðan gengisbreytingarlögin voru sett? Svo sannarlega er hún allathyglisverð. Þá var ákveðið, að framvegis skyldi vísitalan, sem þá var miðuð við gildandi verðlag og var 300 stig, vera 100 stig. Þá var sú byrði lögð á herðar verkalýðsins, að kaup skyldi verða óbreytt til 1. júlí á síðastliðnu sumri, en þá skyldi það hækka í samræmi við þágildandi vísitölu, en haldast síðan óbreytt til ársloka. Þá fékk ríkisvaldið tækifæri til að sýna, hvort það væri þess megnugt að koma í veg fyrir verðbólgu og halda vísitölunni óbreyttri, þegar búið var að útiloka áhrif kaupgjaldsins á hana. En hver varð svo niðurstaðan? Sú vísitala, sem átti samkvæmt reikningi ríkisstj. að vera 112 stig í júlí síðastliðnum, en var raunar að minnsta kosti 115 stig, er nú 6 mánuðum síðar komin upp í 123 stig. Hefur þá hækkun hennar á þessum 6 mánuðum numið 11 stigum, án þess að kauphækkanir hafi haft nokkur áhrif á hana, og það held ég sé rétt með farið, að 11% aukning vísitölunnar hafi aldrei átt sér stað á 6 mánuðum fyrr, aldrei á meðan kaup tók breytingum frá mánuði til mánaðar. Dýrtíðaraukningin var einmitt örust á þessum tíma. Og hver er þá skýringin? Hún er sú ein, að ríkisstj. hefur ekki verið eins vakandi gagnvart verðlagi og áður en kaupgjaldið var fest og hefur ekki spornað við dýrtíðinni, er henni var ljóst, að kaupgjaldið kom ekki á eftir verðhækkununum. Hún hafði ekki ábyrgðartilfinningu til að halda grið verkalýðsfélaganna. Ef hæstv. ríkisstj. hefði borið gæfu til að geta sagt við síðustu áramót: Sjáið nú! Nú hefur kaup ekki haft áhrif á vísitöluna og því er hún enn 112 stig eins og í júlí, — þá hefði verkalýðurinn sannfærzt um það, að ríkisvaldið væri þess megnugt að stöðva dýrtíðina, ef hann léti sér nægja óbreytt kaup. En í stað þess horfumst við nú í augu við þá staðreynd, að dýrtíðin vex meira en nokkru sinni fyrr og að ríkisvaldið sýnir því minni ábyrgðartilfinningu sem því verður ljóst, að kaupgjaldið fylgir ekki verðhækkununum. Það er engin leið fyrir ríkisstj. að halda því fram, að kauphækkanir, sem byggðar eru á útreikningi vísitölu fyrir mánuðinn á undan, séu orsök dýrtíðaraukningar. Ég get ekki skilið annað en vísitölureikningur hafi þann aðalkost að koma ábyrgðinni á kaupgjaldi í hendur ríkisvaldsins. Ef ríkisvaldið sýndi vilja og getu til að stöðva dýrtíðina, hvað gerðist þá? Jú, kaup mundi standa í stað. Það mundi engin kauphækkun eiga sér stað frá mánuði til mánaðar, ef ríkisvaldið kæmi í veg fyrir aukna dýrtíð. Og ef það gæti komið vísitölunni niður á við með því að minnka dýrtíðina, þá mundi kaupið lækka um leið. Ég veit ekki, hvernig hægt er að gefa ríkisstj. betri leið til að kontrólera kaupgjaldið. En að ætla sér í hraðvaxandi dýrtíð að fella vísitölukerfið niður og setja kaup fast eins og það var í janúar síðastliðnum, treysta síðan á það, að grunnkaupi verði ekki breytt með samningum við atvinnurekendur, því að líkurnar séu engar fyrir verkalýðinn að fá slíka hækkun, vegna þess að atvinnuleysi sverfi svo fast að, að hann þoli ekki þá vinnustöðvun, sem slík hækkun mundi kosta, —- það er að beita aðstöðu sinni til að kúga verkalýðinn í landinu, en ekki að sýna honum vinsemd eða skilning. Og það er þetta, sem nú er verið að reyna að búa um lagalega, að verkalýðurinn geti enga vörn sér veitt gegn atvinnurekendunum og ríkisvaldinu, nema með því að fara út í þrálát verkföll, sem hann hefur engin efni á.

Hæstv. dómsmrh. sagði áðan, að þessi lög ættu að fyrirbyggja, að kaup hækkaði samkvæmt gömlum samningum. Hverju máli skiptir það, hvort kaup hækkar samkvæmt gömlum eða nýjum samningum, ef þessi löggjöf fyrirbyggir ekki, að hægt sé að gera þessa nýju samninga? Stendur ekki ríkisvaldinu sama ógn af kauphækkun, hvort sem hún stafar af uppbót vegna vísitöluhækkunar eða af grunnkaupshækkun, sem fæst með nýjum samningum? Ég get ekki séð. að þar sé neinn munur á fyrir ríkisvaldið. Ég held, að það sé engin leið að fá samstarf við verkalýðinn í landinu um það að halda kaupinu óbreyttu, nema því aðeins að ríkisvaldið taki þá rögg á sig að koma í veg fyrir, að verðhækkanir eigi sér stað. Ég veit, að ríkisstj. mun bera það fyrir sig, að þarna sé um að ræða dýrtíðaraukningu, sem stafi af verðhækkunum erlendis og hún geti ekki ráðið neitt við. En þá ætti hún bara að gera samning við verkalýðinn og segja: Þið skuluð fá bætta alla þá dýrtíðaraukningu, sem við ekki ráðum við, en önnur verðhækkun skal ekki eiga sér stað. Og þá gæti hún séð, hvort breytingar á kaupi yrðu miklar eftir slíka samninga. En verkamönnum er ekki boðið upp á þetta, heldur treyst á það, að atvinnurekendavaldið muni brjóta þá á bak aftur, um leið og skellur yfir holskefla nýrrar dýrtíðaröldu, sem ríkisstj. hefur hrundið af stað með því að fá mikinn hluta gjaldeyrisviðskiptanna í hendur útgerðarmönnum og bröskurum, sem hún hefur ekki enn sýnt sig að geta haldið í skefjum. Þegar svona er að farið, þá er óhjákvæmilegt, að afleiðingarnar verði verkföll, sem eru byggð á fullkomlega réttmætum grundvelli, þar sem verið er að virða að vettugi hagsmuni þess fólks, sem sífellt berst í bökkum. Og verkföllin eru jafntilfinnanleg fyrir þjóðina alla, þótt til þeirra sé stofnað með fullri sanngirni. En þegar svona er á málunum haldið, þá eru þau óumflýjanleg, og þessi löggjöf mun verða til þess, að verkalýðurinn mun brynja sig gegn því, að kjör hans verði skert um einn eyri, því að hingað til hefur hann orðið að þola kjaraskerðingu til þess að gefa ríkisstj. tækifæri til að sýna, hvort hún væri þess megnug að stöðva verðbólguna í landinu. Sá prófsteinn hefur nú sýnt sig og ríkisstj. ekki í vil, og því er það lágmarkskrafa verkalýðsins, að kaup hans verði ekki lækkað agnarögn frá því, sem nú er. Hver tilraun sem kann að verða gerð til að skerða kjör hans mun nú verða brotin niður. Mér er sama, þótt hv. þm. Barð. telji þetta ógnun við ríkisstj. Þetta eru þær staðreyndir, sem hann og ríkisstj. verða að horfast í augu við nú.