02.02.1951
Efri deild: 61. fundur, 70. löggjafarþing.
Sjá dálk 1181 í B-deild Alþingistíðinda. (2457)

173. mál, gengisskráning o.fl.

Hannibal Valdimarsson:

Herra forseti. Hæstv. dómsmrh. viðhafði þau orð í ræðu sinni, að Alþýðusamband Íslands hefði sýnt glöggan skilning á framkvæmd gengislaganna. Verður ekki annað sagt en að sýnd hefur verið furðanleg þolinmæði, þótt þyngri byrðar kæmu á verkalýðinn en látið var í veðri vaka að þær yrðu, þegar verið var að koma þeim á. Var sagt, að kaup skyldi ekki breytast á 6 mánaða fresti. En hver varð kjararýrnunin? 8%, og er það ekki lítil kjararýrnun. En þetta þoldi verkalýðurinn möglunarlaust s.l. hálft ár, 1950. Í gengislækkunarlögunum er loforð um, að eftir að verkalýðurinn væri búinn að taka á sig kjararýrnun, eftir að hafa fengið óbreytt kaup fyrri hluta ársins, skyldi hann 1. ágúst 1951 fá fulla uppbót samkvæmt þeirri vísitölu, sem þá kæmi út. Þannig er verkalýðurinn búinn að bera þyngri byrðar en upphaflega var ætlað. Var þá ekki siðferðisleg skylda ríkisstj. að hlaupa til og breyta gengislækkunarlögunum, þegar verkalýðurinn hefur borið þessar þungu byrðar möglunarlaust? En hún hleypur til, þegar hún sér, að vísitalan muni vaxa, og ætlar að nema lögin úr gildi fyrir jólin, en tekst ekki. Skiptir það ekki máli fyrir verkalýðinn, að svona hefur til tekizt? Nú á fyrsta mánuði ársins hefur orðið 5% hækkun, og ef á næstu 6 mánuðum verður eins, eru það 30%, sem að óbreyttum gengislækkunarlögunum ætti að bæta með 30% álagningu á kaupið. Var gerð tilraun til að hlaupast frá þessu fyrir jólin, og nú er gerð úrslitatilraun til að svíkja þann verkalýð, sem tók á sig þyngri byrðar en lofað var samkvæmt lögum. Verði þetta frv. að lögum, skal búið við kaupgjaldsvísitölu 123 stig. Þetta á ekki að vera aðeins á fyrri árshelmingi, heldur allt árið 1951. Þetta kemur í staðinn fyrir það, að samkvæmt gengislækkunarlögunum mátti búast við því, að hún væri orðin 150–160 stig.

Það er vægast sagt verið að svíkjast undan loforðum um að gefa fólkinu bætur eftir allar þessar þungu búsifjar. Atvinnurekendur og ríkisvaldið njóta þessa árið 1951. Svo er ríkið búið að svíkjast um þær bætur, sem það var áður búið að lofa. Fólkið hefði munað um það, hvort það væri reiknað með kaupgjaldsvísitölu 123 stig eða 160 stig. Verkalýðurinn þykist ekki eiga ríkisstj. gott að gjalda, þegar hún hefur hvað eftir annað svikizt um að mæta kröfum hans og þráfaldlega reynt að komast undan skuldbindingum sínum. Hæstv. ráðh. svaraði ekki þeirri fyrirspurn hv. 4. þm. Reykv., hvort hann teldi mögulegt, að verkalýðsfjölskylda kæmist af með minna kaupgjald en hún hefur núna. Það vita allir, að það er alls ekki hægt. Þetta var ekkert svar, sem hann var með.

Hv. 1. landsk. þm. benti á, að eins og nú stæðu sakir, þyrfti fólk kaupuppbót eftir vísitölu, en þyldi ekki verkföll. En kauphækkun í samráði við atvinnurekendur næst ekki nema með verkföllum. Það liggur í augum uppi, að verði þessi leið farin, verður ekki komizt hjá verkföllum. Málið liggur ekkert skýrara fyrir, þó að hæstv. ráðh. hafi reynt að svara þessu, því að hann kom ekki að kjarna málsins.

Í lok ræðu sinnar vék hæstv. ráðh. að því, að það væri aðeins verið að afnema sjálfkrafa kauphækkun eftir samningum, sem gerðir voru áður en gengislækkunarlögin voru sett. Það er eðlilegt, að samningar og ákvæði séu túlkuð eftir gildandi lögum. Til eru samningar, sem voru gerðir eftir gengislækkun, samningar verkalýðsfélaga á Vestfjörðum. Þar segir, að kaup breytist í fullu samræmi við vísitölu hvers mánaðar, nema annað sé ákveðið með lögum. Þessir samningar eru í fullu gildi, hvort sem þeir eru gerðir fyrir eða eftir gildistöku laganna.

Hv. 4. þm. Reykv. minntist á till., er við fluttum fyrir jólin, er við fórum fram á að lögfesta það, að kaupgjald breyttist í samræmi við vísítölu næsta mánaðar á undan. En ríkisstj. ætlar ekki að sættast á neitt. Ef hún vill sættir í þessu, er eðlilegast að fara að eins og í sumar, að hætta við lögfestinguna, fella niður 1. gr. l. síðan fyrir jól og heimila kauphækkun. Það kostar lítið að halda dýrtíðinni í skefjum, en það getur kostað mikið, ef ganga á á gefin loforð og ríkisstj. gerir ekkert til að halda verðlaginu í skefjum. Þetta væri smávægileg bót á móti loforðum gengisbreytingarlaganna. Þá var áætlað, að verðhækkunin yrði svo smávægileg, að jafnvægi næðist á fyrri helmingi ársins 1951. En nú hefur dýrtíðin greikkað sporið. Það hefur orðið 11 stiga verðhækkun á síðari helming ársins 1950 og 5% verðhækkun á fyrsta mánuði ársins 1951; svo lítur út fyrir 30% hækkun á fyrri helmingi ársins 1951. Eðlilegast væri, að ríkisstj. horfðist í augu við, að viðhorfið í verðlagsmálunum er allt annað en gert var ráð fyrir í gengislækkunarlögunum. Nú er sívaxandi dýrtíð, og verkafólkið getur ekki búið við óbreytt kaup. Þá horfist ríkisstj. í augu við afleiðingar verka sinna og vill engar bætur. Hún vill setja band á verkalýðinn og hlaupast frá loforðum sínum og biður um hlífð. Það er velkomið, að verkalýðurinn fari út í verkfall, því að hann heldur það ekki út í átökunum við atvinnurekendur. Það er í raun og veru ekki gert annað en hvetja til stéttabaráttu og tekið fyrir allar leiðir til friðsamlegrar lausnar. Eina leiðin, sem opin er, er stéttastríð. Hæstv. ráðh. bað mig að hugsa mig um, áður en ég hvetti til verkfalla. Ég held, að það væri ríkari ástæða fyrir stjórnina að athuga sinn gang, áður en hún knýr þetta í gegn, jafnvel þó að hún hafi fylgi stjórnarflokkanna til. Það er of seint að benda á friðsamlega lausn, þegar búið er að knýja þetta í gegn. Þó að verkalýðurinn þoli ekki langvinn verkföll, þolir þjóðin ekki langvarandi stöðvun atvinnuveganna. Ríkisstj. hefur engan rétt til þess að knýja verkalýðinn út í verkföll, og er sízt hægt að kalla það ábyrgðartilfinningu af ríkisstj. og ekki víst, að atvinnurekendur færu með sigur af hólmi. En orsökin til þessa stríðs væri áreiðanlega löggjöf sú, sem verið er að knýja í gegn, og yrði ríkisstj. þá kvödd til ábyrgðar, en ekki verkalýðurinn. Ég veit, að ráðh. vill ekki færast undan því að svara þeirri spurningu, hvort hann teldi, að fjölskylda gæti komizt af með þetta kaup. Það er ekki ódýrara fyrir þjóðina að knýja menn á sveitina. Ekki styrkir það þjóðfélagið, að farið er að bera á því, að hundruð verkalýðsfjölskyldna eru að komast á opinbert framfæri og fer fjölgandi vegna dýrtíðar og atvinnuleysis. En það þýðir ekki að opna augu ríkisstj. og segja henni, að hún sé komin í ógöngur. Hún ræður ekki við neitt og lokar öllum leiðum nema stéttabaráttu. Það er ekki hægt að segja annað en hún hafi þó verið aðvöruð fyrir jól. Ríkisstj. verður að horfast í augu við afleiðingarnar, og hún veit, hverjar þær verða, meira eða minna langvinn verkföll. Þjóðin kemst ekki hjá því að borga þá dýrtíð með kauphækkun eða með því að taka fólk á opinbert framfæri.