03.02.1951
Neðri deild: 60. fundur, 70. löggjafarþing.
Sjá dálk 1196 í B-deild Alþingistíðinda. (2471)

173. mál, gengisskráning o.fl.

Stefán Jóh. Stefánsson:

Herra forseti. Áður en ég vík að efni þessa frv., tel ég rétt að minnast á þá raunalegu sögu, sem tengd er allri framkomu stjórnarflokkanna í sambandi við launamálin á síðustu tímum. Það vildi svo til, að í sumar voru gefin út bráðabirgðalög um þetta efni. Réttmæt alda verkalýðsins í landinu reis upp gegn þessu. Það sýnir, hvernig hægt er að vekja réttmæta andúð verkalýðsins á aðgerðum löggjafans. Það var að vísu svo, að áður var annað á undan gengið, þar sem voru lögin um gengisbreytinguna, sem lögðu þungar byrðar á herðar verkalýðnum í landinu. Ætla hefði mátt, að þetta hefði skapað óhug verkalýðsins gegn ríkisstj., en þessu til viðbótar voru samþ. lög um aukna tolla og söluskatt, um leið og fyrir jólin var ákveðið að færa takmark kauphækkana frá 1. júlí til 1. febr. Þar með var afnuminn sá litli réttur, sem launþegum hafði verið tryggður. Um leið og afleiðingar vaxandi dýrtíðar eru sem óðast að koma í ljós, þá er verkalýðurinn sviptur því litla öryggi, sem hann hafði að grípa til, þar sem var hækkun kaups til samræmis við vísitölu næsta mánaðar á undan. Það var því eðlilegt, að þetta vekti óhug meðal verkalýðsins í landinu, enda varð sú raunin á, að því var mótmælt af hálfu verkalýðssamtakanna, eins og hæstv. forsrh. hefur nú skýrt frá og lesið upp mótmælaályktun Alþýðusambands Íslands í sambandi við þetta mál fyrir jólin. Ég efast ekki um, að það, sem vakti fyrir hæstv. ríkisstj. við afgreiðslu málsins fyrir jólin, hafi verið það sama og er að finna í 1. gr. þessa frv., sem hér er til umr. Hitt er annað mál, að hæstv. ríkisstj. mun ekki hafa athugað það, hvernig ástatt var um marga samninga milli verkalýðsfélaga og atvinnurekenda í landinu. Ég segi marga, en ekki alla, en mér er líka kunnugt um það, að þá samtímis var mörgum af trúnaðarmönnum alþýðusamtakanna ljóst, að þarna gæti verið smuga, sem hægt væri fyrir verkalýðsfélögin að nota sér til þess að fá meiri launauppbætur en ætlazt var til af hálfu ríkisvaldsins og löggjafarvaldsins. Menn þurfa því ekki að segja, að allir hafi verið jafnfákunnandi um þessi efni og hæstv. ríkisstj., því að meðal annarra ræddu trúnaðarmenn Alþýðusambandsins um þetta mál, rétt um það bil sem þessar breyt. voru gerðar á l. rétt fyrir jólin, og bentu á ákvæði gildandi samninga í þessu sambandi, og gat ég ekkert sagt um það nema við nánari athugun, hvort samningar verkalýðsfélaganna gæfu fullan rétt til dýrtíðaruppbóta þrátt fyrir ákvæði samninganna í árslok 1950. En hvað sem liður þessum skilningi, þá er það víst, að þessi löggjöf fyrir jólin og framhald hennar, þegar mánuður er liðinn af þessu ári, vekur enn nýjan óhug, nýja tortryggni og nýja réttmæta vantrú á skilningi hæstv. ríkisstj. á þörfum og óskum verkalýðsins í landinu, samfara ótal öðrum afskiptum hennar af málefnum, sem fyrr hafa verið á Alþ. og einmitt snerta almenning í landinu og ég mun ekki ræða nánar að þessu sinni. Ég dreg ekki í nokkurn efa, að hæstv. ríkisstj. sé nú að koma með ákvæði í þessu frv., sem var meining hennar að setja í desember 1950. En vægast sagt orkar það mjög tvímælis, hvort breyt. á gengisskráningarl. fyrir jólin 1950 gefi ekki verulegum hluta af verkalýðssamtökunum rétt til þess samkvæmt gildandi samningum að fá mánaðarlegar uppbæfur á laun sín. Það var þess vegna af eðlilegum ástæðum farið af stað, eftir að vísitala janúarmánaðar varð kunn, en ég rek þessa sögu til þess að sýna, hve ríkisstj. hefur verið seinheppin og vakið á sér vantraust af hálfu verkalýðssamtakanna með sinni zik-zakpólitík út af kjaramálum almennings í landinu. Þetta kemur ekki til af því, að ég væni hæstv. ríkisstj. um sérstakan illvilja í garð verkalýðsins í landinu, en ég er viss um það, að hana skortir skilning á högum verkalýðsins og að á bak við hana búa einnig þau öfl, sem eru andstæð kjaramálum verkalýðsins í landinu. Þessi skilningsskortur hæstv. ríkisstj. og þau öfl, sem að henni standa, gera það að verkum, hversu seinheppin hún hefur verið í flestum þeim málefnum, er snerta heill verkalýðsins. Þetta vildi ég sagt hafa út af forminu sjálfu og hinni samhangandi slysasögu hæstv. ríkisstj. út af afskiptum hennar af kjaramálum verkalýðsins og almennings í landinu, fyrst með setningu gengislækkunarl., sem mættu mikilli andúð almennings, síðan er hún lét Alþ. gera breyt. á þeim rétt fyrir áramótin, og enn kemur hún rétt eftir áramótin með frv. til þess að ákveða þetta sama og gert var fyrir jólin. Og allar þessar aðgerðir hæstv. ríkisstj. halda við andúð og vantrú almennings, sem hún hefur skapað sér með öllum sínum aðgerðum í þessum efnum.

Þá komum við að hinu raunverulega efni þessa frv., sem hér liggur fyrir. Hæstv. forsrh. rakti efni hinna tveggja greina frv. og skýrði frá, hvað vekti fyrir ríkisstj. með flutningi þess. Það er ekki nokkrum vafa bundið, að í fyrsta lagi vakir það fyrir hæstv. ríkisstj. með 1. gr. frv. að afnema úr gengisskráningarl. það fyrirheit, sem almenningi í landinu var gefið um leiðréttingu launamálanna um mitt árið 1951. Hitt er jafnvíst, eins og hæstv. forsrh. tók fram, að verkalýðnum er frjálst að fara af stað og krefjast þess af atvinnurekendum að fá leiðréttingu sinna mála varðandi dýrtíðaruppbætur. Ég býst ekki við, að hæstv. ríkisstj. óski sérstaklega eftir slíkri ókyrrð á vinnumarkaðnum í landinu. Ég hefði fyrir mitt leyti heldur ekki óskað eftir henni, en það er hægt af hálfu stjórnarvaldsins og löggjafarvaldsins beinlínis að mana fram slíka ókyrrð, sem ella hefði kannske ekki komið til skjalanna.

Ég sagði áðan, að það hefðu verið gefin loforð í sambandi við gengisskráningarl. um fulla dýrtíðaruppbót til fólksins í landinu, fyrst eftir 3 mánuði, síðan eftir 6 mánuði og svo eftir aðra 6 mánuði, og þetta var gengislækkunarlöggjöfinni talið mjög til gildis. Nú skulum við líta á, hvað segir í grg. hagfræðinganna, sem fylgdi gengisskráningarfrv., um þetta efni. Á bls. 51 stendur þetta — með leyfi hæstv. forseta: „Tilgangurinn með ákvæðum þessa liðs er sá að bæta öllum launþegum þá hækkun á framfærslukostnaði, sem hlýzt af gengislækkuninni, nema þar sem hún hækkar laun þeirra sjálfkrafa. Tilætlunin er að veita launabót, sem svarar til hækkunar á framfærslukostnaði.“ Hér er skýrt til orða tekið. Hér var vinnandi fólki í landinu veitt fyrirheit um það, að þrátt fyrir þá byrði sem það tæki á sig um skeið, þá yrði henni að einhverju leyti létt af því að vissum tíma liðnum með því að bæta laun þess upp með hækkaðri vísitölu. Síðar segir svo í þessum hugleiðingum: „Þykir okkur rétt að ætla 6 mánaða tímabil til slíkrar jafnvægismyndunar og festingar. Fari hins vegar svo, að á þessu tímabili verði almenn verðhækkun að ráði, þá er ákvæði um að bæta launþegunum slíka almenna verðhækkun að öðrum 6 mánuðum liðnum.“ Fari svo, að verðhækkun verði, þá er launþegum beinlínis lofað, að kaup þeirra verði hækkað í hlutfalli við hækkaða vísitölu, eftir að liðnir eru 6 mánuðir ársins 1951. Það er með þessari löggjöf verið að svíkja þetta loforð, og býst svo hæstv. ríkisstj. við, að öllu þessu sé tekið með þögn og þolinmæði af fólkinu í landinu? Ég held, að jafnglöggir og greindir menn og sitja í ríkisstj. muni gerla sjá, að varla er von á slíku. Nú mun hæstv. ríkisstj. líklega segja sem svo: „Að vísu ætluðum við að gera þetta og þess vegna lofuðum við þessu í góðri trú á, að ástandið gerði þetta mögulegt, en nú er málum þann veg háttað, að við getum ekki efnt þetta loforð, þar sem ástandið hefur versnað og áhrif gengislækkunarinnar hafa orðið önnur en gert var ráð fyrir, og þess vegna er það fjörráð við atvinnulífið í landinu að greiða hærri uppbætur en við höfum ákveðið.“ Ég tel það vera fullyrðingar út í loftið, sem ekki sé hægt að færa sönnur á, að íslenzkur atvinnurekstur, ef skynsamlega er rekinn og atheina ríkisvaldsins sé beitt til þess að láta ekki einstaklinga mata krókinn óhæfilega, geti ekki greitt verkamönnum hærri uppbætur með vaxandi dýrtíð. Getur hæstv. ríkisstj. búizt við því, þegar hún hvað eftir annað gerir ráðstafanir til þess að hækka verðlag í landinu og dýrtíðin vex hröðum skrefum, að það sé ein stétt í landinu, launafólkið, sem eigi möglunarlaust að taka á sig þennan þunga bagga? Ég hygg því, ef hæstv. ráðh., sem ég þekki að mörgu góðu, hugsuðu um þetta í ró og næði og létu ekki annars vegar binda sig við barnalegar og einstrengingslegar fræðisetningar, sem hafa þó sýnt sig að geta ekki staðizt, og ef ekki væru hins vegar öfl í landinu, er stæðu bak við hæstv. ríkisstj., sem segðu, að atvinnurekstur okkar þyldi ekki hærra kaupgjald en ríkisstj. vill ákveða, að hæstv. ráðh. muni komast að þeirri niðurstöðu, að það sé rangt og óréttmætt að neita fólkinu um þær kjarabætur, sem það þarf í sambandi við vaxandi dýrtíð. Ég er nokkurn veginn viss um það, þótt enn þá liggi ekki fyrir um það skýrslur, að aðgerðir hæstv. ríkisstj. í sambandi við bátaflotann muni verða til þess að hækka verulega dýrtíðina í landinu, og það mun koma fljótt á daginn. Ég er líka sannfærður um það fyrir mitt leyti, en að rökfæra það nánar gefst mér tækifæri síðar, að hinn skefjalausi liberalismi, sem stjórnarflokkarnir eru uppfullir af og hefur risið á ný í flestum löndum af meira afli en nokkru sinni fyrr, mun ekki færa fólkinu þá heill, sem forkólfar hennar vilja vera láta. Þegar þess er gætt, hvaða vernd er gegn beinum aðgerðum ríkisstj. í þessum efnum verða menn að athuga, að með samþykkt þessa frv. hefur hún kippt burt þeim einasta vonarneista sem menn gátu búizt við að halda í varðandi kyrrð á vinnumarkaðnum áríð 1951, þeim vonarneista, sem var í gengisskráningarl. og ég hef áður bent á, og ef hæstv. ríkisstj. gerir samtímis þessu ráðstafanir til þess að auka dýrtíðina í landinu, getur hún ekki með nokkurri skynsemi búizt við algerri kyrrð á vinnumarkaðnum í landinu, og þá er ekki hægt að áfellast verkalýðssamtökin. Hvað eftir annað er höggvið í þann sama knérunn og verkalýðnum ögrað beint eða óbeint með því, að ríkisvaldið segir við hann: „Þið hafið frjálsar hendur, þið getið hafið vinnudeilur og gert allt, sem þið viljið, til þess að fá kaup ykkar hækkað með frjálsum samtökum.“ Samtímis þessu er kippt burt fornu fyrirheiti um framtíðina varðandi lögákveðnar dýrtíðaruppbætur til launafólks í landinu. Er þetta skynsamlegt af hæstv. ríkisstj.? Ég hef ekki heyrt nein rök færð fyrir því, að það kollvarpaði atvinnulífinu í landinu, þótt verkamaðurinn fengi greitt kaup sitt í samræmi við dýrtíðina. Verkalýðurinn hefur sýnt mikla þolinmæði út af gengisskráningarlöggjöfinni. Það er nú komið á 11. mánuðinn síðan sú löggjöf var sett. Verkalýðurinn beið í 6 mánuði eftir nýrri dýrtíðaruppbót, þótt hann fyndi það á pyngju sinni dag frá degi, að það varð stöðugt örðugra að ná endum saman um launin miðað við verðlag á nauðsynjum. Hann beið þolinmóður eftir að fá þá dýrtíðaruppbót, sem gengisl. ákváðu honum um síðustu áramót, og ég skal ekkert fullyrða um það, hvort hann hefði beðið jafnþolinmóður í þessum efnum til miðs árs 1951. En fyrir þá, sem óska eftir því vegna alþjóðarhags, að ekki fari hér allt úr skorðum vegna látlausra vinnudeilna, þá er sýnilegt, að hér er ekki gerð tilraun til að skapa kyrrð á vinnumarkaðnum næstu 6 mánuði. Hæstv. ríkisstj. verður að taka afleiðingunum af aðgerðum sínum í þessum málum. Verkalýðurinn hefur orðið fyrir vonbrigðum af hálfu hæstv. ríkisstj. Fyrirheit, sem honum höfðu verið gefin, hafa ekki verið efnd, og þegar hann sér fram á, að fyrir aðgerðir ríkisstj. minnkar verðgildi peninga hans með hækkuðu verðlagi, án þess að hann fái hlutfallslegar launauppbætur, hver getur þá láð láglaunafólki, þótt það taki til sinna ráða til þess að bæta hag sinn? — Ég get svo sagt það að lokum, sem ég hef áður sagt í þessum sal, að það er ekki hægt til lengdar að stjórna gegn verkalýðnum. Það mun hæstv. ríkisstj. finna, eftir því sem lengra liður.