01.03.1951
Efri deild: 78. fundur, 70. löggjafarþing.
Sjá dálk 1262 í B-deild Alþingistíðinda. (2640)

185. mál, landshöfn í Rifi

Frsm. (Vilhjálmur Hjálmarsson):

Herra forseti. Þetta frv. er flutt að beiðni hæstv. ríkisstjórnar í Nd. af sjútvn. þeirrar hv. deildar. Mun það hafa verið afgreitt óbreytt frá hv. Nd. Frv. er hliðstætt l. frá 1946 um landshöfn í Keflavík og í Njarðvíkum. Hafnarstæðið í Rifi mun hafa verið athugað og áætlun gerð á árunum 1944 —1945. Áætlunina hefur nú þurft að endurskoða vegna gengisbreytinga og verðlags, og stendur sú endurskoðun yfir hjá vitamálastjórninni, svo að endanlegar tölur liggja ekki fyrir. Hins vegar er það álit fróðra manna. að aðstaða frá náttúrunnar hendi á þessum stað sé hin ákjósanlegasta. Það er ljóst. að með hessari framkvæmd mundu opnast miklir möguleikar til að nytja hin auðugu fiskimið á þessum slóðum, ekki aðeins fyrir þá, sem þarna eru heimamenn, heldur einnig fyrir menn víðs vegar að af landinu. Í annan stað er svo stór vinningur að höfninni fyrir sæfarendur á þessum slóðum almennt. Á fjárl. er veitt allhá upphæð til þessara framkvæmda, og mun vera ætlunin að haga þeim þannig, að höfnin geti sem fyrst komið í gagnið fyrir bátana þarna í kring, svo sem á Sandi og í Ólafsvík, þar sem útgerð er stunduð við mjög léleg hafnarskilyrði.

Það vaknar nú sjálfsagt hjá einhverjum sú spurning, hvort rétt sé að ráðast í svo miklar nýjar framkvæmdir, á meðan enn er ólokið fjölda hafnarmannvirkja víðs vegar á landinu, þar á meðal landshöfninni í Keflavík. Og það kann að vera réttmæt spurning. En hitt leikur ekki á tveim tungum, að hér er um að ræða mikla framtíðarnauðsyn. Og eitt af því, sem fastast knýr á um það að hefja framkvæmdir nú þegar, er atvinnuástandið á utanverðu Snæfellsnesi; því er svo háttað, að mér skilst, að dráttur á framkvæmdum í þessu efni gæti orðið dýr.

Ég fjölyrði ekki um þetta frekar. N. er sammála um að mæla með samþykkt þessa frv. Einn nm. var fjarstaddur við afgreiðslu þess, eins og nál. ber með sér.