01.02.1951
Efri deild: 59. fundur, 70. löggjafarþing.
Sjá dálk 1358 í B-deild Alþingistíðinda. (2813)

76. mál, áfengislög

Bernharð Stefánsson:

Herra forseti. Ég tók fram í fyrri ræðu minni, að ég mundi með atkv. mínu vilja stuðla að því á réttlátan og skynsamlegan hátt að koma í veg fyrir ólöglega sölu áfengis í bifreiðum og á öðrum stöðum. Það er smánarblettur á þjóðinni, hve mikil leynivínsala á sér stað í landinu, en ég geri ráð fyrir, eins og kom fram í ræðu hv. þm. Seyðf., að það sé að miklu leyti áfengislöggjöfinni að kenna, því að óvíða meðal menningarþjóða, þar sem vínsala er á annað borð leyfð, mun ríkja eins fáránlegt skipulag í þessum efnum og á Íslandi, þar sem t.d. er samkv. lögum aðeins eitt veitingahús í landinu, sem má löggilda til að selja gestum sínum vín, en svo er til heimild um það í lögum, að undir sérstökum kringumstæðum megi veita vín á öðrum samkomustöðum, en þessi þröngu ákvæði hafa orðið til þess, að undanþáguheimildin er mjög mikið notuð, og eru nú uppi deilur um bað, hvort slíkt sé löglegt. En ég vildi stuðla að því, að komið verði í veg fyrir ólöglega áfengissölu, og ég hefði greitt frv. atkv. mitt án þess að gera nokkra aths. við það, ef það hefði komið hingað eins og það var lagt fyrir Nd., en þar var gert ráð fyrir, að ákvæði laganna næðu eingöngu til atvinnubifreiðarstjóra og eigenda slíkra bifreiða, enda er vitað, að farþegar leggja ekki fyrir sig slíka sölu.

Ég kvaddi mér hljóðs áðan til að fræðast um það, hvort skilningur minn á frv. væri réttur. Ég vildi fræðast um það, hvort ákvæði 2. mgr. 1. gr. gæti bitnað á saklausum. Þau svör, sem ég hef fengið, virðast mér styðja, að minn skilningur á frv. sé réttur. Þetta kom fyrst og fremst skýrt fram hjá hv. frsm. minni hl. allshn., og auk þess virtist mér hæstv. dómsmrh. staðfesta það, þó að hann sé annars með frv. og vilji láta samþykkja það. Hæstv. ráðh. sagði, að hann teldi víst, að svo skynsamlega yrði farið með framkvæmd þessara laga, að ekki yrði refsað fyrir það, þó að flöskur fyndust í bifreið, þó að ekki væri hægt að sanna, að ekki hefði átt að nota þær á ólöglegan hátt. Ég tók hér áðan dæmi um, að bóndi austan úr Skaftafellssýslu — ég á þar ekki við neinn sérstakan bónda, heldur tók dæmi um mann í nokkurri fjarlægð. — keypti vín til að veita í afmælinu sínu, og það fyndist hjá honum á leiðinni austur, og hann væri síðan tekinn og dæmdur sem leynivínsali, ef hann gæti ekki sannað, að hann hefði ekki ætlað að selja það. Nú taldi hæstv. dómsmrh. það mundu vera næga sönnun, ef vitað væri, að maðurinn ætti afmæli á næstunni og hann mundi ætla vínið til að halda upp á það. En nú skulum við hugsa okkur, að ekki standi fyrir dyrum neitt afmæli hjá manni og hann sé ef til vill nýbúinn að eiga afmæli, en hann hafi keypt 10 flöskur af víni til að eiga og veita gestum sínum, — en hvernig á hann að fara að því að sanna. að hann hafi ekki ætlað að selja vínið? Ég skil ekki, hvernig hann ætti að fara að því að koma með slíka sönnun. Samkv. núgildandi lögum má maður fara í áfengisverzlunina og kaupa þar 10 flöskur af víni. en hann má bara ekki fara með það burt úr Reykjavík, jafnvel þó að hann eigi heima alla leið austur í Skaftafellssýslu, nema með því móti að bera það. Og það má dæma manninn sem lögbrjót, ef vín finnst í bílnum hjá honum. Ég held, að hægt hefði verið að ná sama árangri með l. án þess að fara út á þessa hálu hraut. Hvers vegna er þetta ekki aðeins látið ná til bifreiðarstjóra og ef um verulegt magn er að ræða? Það er ekkert getið um það, hve magnið þurfi að vera mikið til þess, að refsað sé fyrir það, svo að það virðist vera hægt að dæma mann fyrir að hafa meðferðis 1 eða jafnvel 1/2 flösku af víni.

Viðvíkjandi því, sem hæstv. dómsmrh. sagði um það, að lög þessi mundu verða framkvæmd með góðgirni og varúð, svo að friðsamur almenningur þyrfti ekkert að óttast, þá mun það, sem betur fer, vera höfuðreglan um framkvæmd laga, en það eru misjafnir menn í svo fjölmennri stétt sem löggæzlumannastéttin er nú orðin, og það eru ýmiss konar árekstrar á milli manna, og má því nota þetta ákvæði í hefndarskyni, ef menn vilja hafa sig til slíks. Og svo eru það Goodtemplararnir. Við skulum hugsa okkur lögregluþjón, sem er Goodtemplar og gegnsýrður af kenningum þess félagsskapar. Hvað mundi hann gera, ef hann fyndi 1/2 flösku af víni í bifreið? Ég veit, að til eru þeir menn, sem mundu draga þann, sem vínið fyndist hjá, fyrir lög og dóm, og þeir hefðu rétt til þess samkv. þessu frv. Maðurinn væri ef til vill austan úr Skaftafellssýslu og væri kominn austur að Jökulsá. Löggæzlumaðurinn mundi nú keyra með hann til sýslumanns, þar sem hann mundi verða yfirheyrður og verða fyrir ýmiss konar óþægindum. Ég vil nú spyrja hæstv. dómsmrh., þó að hann telji, að höfuðreglan á framkvæmd laganna sé, að þau verði framkvæmd með góðgirni og víðsýni, hvort hann neiti því, að lögin geti orðið eins í framkvæmd og ég hef nú lýst, og hvort hann telji heppilegt, að löggjafarvaldið bjóði slíku heim, að menn verði að sanna sakleysi sitt, sem í mörgum tilfellum er ómögulegt. Hér er verið að fara inn á þá braut að heimta, að menn sanni, að þeir ætli ekki að fremja lögbrot. Hvers vegna eru t.d. ekki allir íbúar Raufarhafnar teknir fastir? Mér finnst alveg hliðstætt, ef slíkt væri gert, eins og verið er að gera hér, þó að ekki sé um eins stóra refsingu að ræða, þá er andinn allur sá sami, eins og ef allir íbúar Raufarhafnar yrðu að sanna, að þeir hefðu ekki framið innbrotið s.l. haust. Það er sama hugsun, sem að baki liggur.

Ég mun ekki sem forseti taka þetta mál út af dagskrá, heldur láta atkv. ganga um það að umr. lokinni, en ég vil beina því til hv. n., hvort hún vilji ekki fara fram á, að málið verði tekið út af dagskrá, og athuga, hvort ekki sé hægt að koma þessu betur fyrir, þannig að hægt verði að ná í sökudólgana, en löghlíðnir borgarar fái að vera í friði, þó að þeir séu með eina flösku, 1/2 eða einn pela með sér í bíl.