07.11.1950
Efri deild: 16. fundur, 70. löggjafarþing.
Sjá dálk 91 í C-deild Alþingistíðinda. (3076)

70. mál, lyfsölulög

Flm. (Haraldur Guðmundsson):

Herra forseti. Frv. þetta á þskj. 112, sem ég að þessu sinni flyt ásamt hv. 1. þm. N-M., er samhljóða að öllu leyti frv. um sama efni, sem flutt var á síðasta þingi á þskj. 357, en náði ekki afgreiðslu þá. Ég leyfi mér að vísa í meginatriðum til mjög ýtarlegrar grg., sem því fylgdi þá og rituð var af landlækni, en hann hafði farið með undirbúning málsins ásamt stjórnskipaðri n. Málið hefur þannig fengið ýtarlegan undirbúning. En þótt svo sé, eru enn skiptar skoðanir um tvö meginatriði einkum. Það er þá í fyrsta lagi, hvort taka skuli upp þá einkasölu á lyfjum, sem um ræðir í V. kafla frv., og í öðru lagi, hverjum veita skuli leyfi til rekstrar lyfjabúða hér innanlands.

Ég skal nú ekki taka þau rök, sem áður hafa verið rakin í þessu efni. Það, sem ég hygg hins vegar að allir geti verið sammála um, er þetta, að ekki verði lengur unað við hin ófullkomnu og dreifðu lagaákvæði, sem nú gilda á þessu sviði. Enda er þetta viðurkennt, eins og m. a. sést á því, að hér liggur fyrir annað frv. um sama efni á þskj. 116.

Samkv. frv. okkar á þskj. 112 er gert ráð fyrir, að leyfi til rekstrar lyfjabúða megi veita samvinnufélögum, sveitarfélögum og öðrum almennum stofnunum og samtökum, sem ætla má að gæti í hvívetna hagsmuna neytendanna. Í 4. gr. er svo tekið fram um skilyrði fyrir því, að hlutaðeigendur öðlist rétt til rekstrar lyfjabúða. — Þá er eitt meginatriði í þessu frv., sem fjallar um jöfnunarsjóð lyfjabúða, sem ákveðið gjald á að renna til af lyfjasölu og tekjum lyfsala. Reynslan hefur sýnt, að það er erfitt að semja gjaldskrá, sem eigi jafnt við hinar minnstu lyfjabúðir sem hinar stærstu; hinar smærri þyrftu að geta lagt meira á lyfin, ef salan á að standa undir rekstrinum, en gróðinn hinsvegar mikill af hinum stærstu lyfjabúðum: Til þess nú að ekki þurfi að koma til óeðlileg álagning á lyfin, þá þykir augljóst, að hver einstök lyfjabúð þurfi að geta byggt á viðskiptum við talsvert stóran hóp manna. Nú er því svo háttað, að um þetta getur ekki orðið að ræða í dreifbýlinu viða um land. Því er lagt til, að jafnað verði á milli lyfjabúðanna þannig, að hinar stærri leggi nokkuð af mörkum af tekjum sínum til hinna smærri. Þetta er sanngirnismál, því að vitað er, að af hinum stærri apótekum er ríflegur gróði. — Um þriðja aðalatriðið í þessu frv., þ: e. a. s. einkasöluna eða heildsöluna á lyfjunum, get ég verið stuttorður. Ætlunin er, að hún verði rekin á vegum heilbrigðisstjórnarinnar sem sérstakt fyrirtæki, eins og segir í 45. gr., og á fyrirkomulag við stjórn hennar að tryggja hvort tveggja, að hún verði fremur til hagnaðar en byrði fyrir ríkissjóð og innflutningsálagningu á lyfin sé í hóf stillt.

Ég skal svo ekki að þessu sinni hafa um þetta fleiri orð. Allir eru sammála um, að þessum málum verði að skipa á betra veg en hingað til. Og ég hygg tvímælalaust, að fyrir allan almenning sé sú skipun hagkvæmari, sem lögð er til í frv. okkar á þskj. 112, heldur en sú, sem gert er ráð fyrir á þskj. 116. — Ég leyfi mér svo að leggja til, að frv. verði vísað til 2. umr. og hv. heilbr.- og félmn.