16.02.1951
Efri deild: 73. fundur, 70. löggjafarþing.
Sjá dálk 156 í C-deild Alþingistíðinda. (3186)

109. mál, erfðalög

Frsm. meiri hl. (Lárus Jóhannesson):

Herra forseti. Hv. form. allshn. hefur svarað fyrir nefndina, og hef ég þar engu við að bæta, en ég vil geta þess, að ég hef ekki borið þetta mál upp í mínum flokki, en átti tal við allmarga samflokksmenn mína, og þeir hafa álitið, að þetta kæmi ekki til mála, og ég hef satt að segja álitið, að hv. flm. stæði einn uppi með frv., en ég játa, að ég hef ekki sannreynt það.

Hvað viðvíkur fyrirspurn hv. flm. um 11., 12. og 13. gr., þá er það ekkert aðalatriði, og ég get fyrir mitt leyti fallizt á, að þessi nýi tekjustofn renni til Tryggingastofnunarinnar, en ég vil taka það nákvæmlega fram, að samþykki mitt er bundið því skilyrði, að það sé áfangi á leið til fullkomnari tryggingastofnunar, en ekki breyt. á erfðalögunum. Ég segi eins og hv. form. allshn., að ég tel eðlilegast, að þetta komi fram í sambandi við tryggingalögin, enda kæmi þá nánar fram, að þetta væri tryggingamál, en ekki breyting á erfðalögunum.