05.12.1950
Neðri deild: 33. fundur, 70. löggjafarþing.
Sjá dálk 165 í C-deild Alþingistíðinda. (3222)

96. mál, fjárhagsráð

Jóhann Hafstein:

Herra forseti. Þetta frv., sem er nú flutt hér af meiri hl. hv. fjhn., eins og þar stendur á þskj., var flutt af fjhn. allri á síðasta þingi. Hins vegar flutti þá hv. þm. V-Húnv. brtt., eins og hann gerir nú, við frv., og hefur hann nú gert grein fyrir sinni brtt. Hefur hann í sinni ræðu gert glögga grein fyrir, hvað skilur á milli þess, sem í brtt. er annars vegar, og ákvæða frv. hins vegar. Um meginefni málsins vorum við sammála.

Það, sem hv. þm. V-Húnv. vék að þáltill., sem fram er komin í Sþ., held ég, að verði tæplega skoðað sem rök fyrir því, að þeir þm., sem hana flytja, séu frekar með hans brtt. en sjálfu frv. Sú þáltill. er fram komin áður en þetta frv. var flutt. Og það kom mjög greinilega í ljós á síðasta þingi og er vitað, að einn af flm. till., hv. 7. þm. Reykv., var einmitt, eins og við ýmsir aðrir á þinginu þá, andvígur þessari takmörkun, þó að þetta sé orðað þannig í þáltill. Ég held því, að ekki sé svo ýkjamikið upp úr því leggjandi. — En varðandi takmörkunina er það, að hv. þm. V-Húnv. rökstuddi hana með því, að hún eigi eiginlega að hjálpa einstaklingum til þess að byggja, sem annars mundu kannske verða afskiptir um að geta byggt yfir sig. Hv. þm. sagði, að fjársterkir aðilar gætu byggt íbúðir, til þess að leigja eða selja. Þetta er að vísu hugsanlegur möguleiki. En það, sem er miklu raunhæfara í þessu efni, er það, að það eru félagasamtök, sem hafa með höndum byggingu hagkvæmra smáíbúða og beinlínis hafa gengið á undan um að skapa ákveðna stefnu í því að byggja hagkvæmar smáíbúðir fyrir einstaklinga, sem með þessu móti, ef brtt. yrði samþ., yrðu enn að sækja undir fjárhagsráð um sínar byggingar og eiga nokkru erfiðara fyrir en ella væri. Ég á hér bæði við bæjarfélög, samvinnufélög og byggingarfélög verkamanna. Ég vil vekja sérstaka athygli á því, að Reykjavíkurbær hefur nú í smíðum — og mun halda því verki áfram, eftir því sem ákvarðanir bæjarstjórnarinnar liggja fyrir um og að svo miklu leyti sem efni og fjárhagur leyfir — smáíbúðabyggingar, sem bæjarfélagið hefur frumkvæði um að koma í framkvæmd á fyrsta stigi, og einstaklingar taka síðan við að byggja húsin, þegar þau eru orðin fokheld. Önnur aðstoð bæjarfélagsins liggur svo í því að lána þeim, sem kaupa húsin, það fjármagn, sem það hefur fest í byggingunni á fyrsta stigi hennar, þ. e. við að gera hana fokhelda. Síðan eignast einstaklingar þessar íbúðir til eigin nota, og er þeim úthlutað til þeirra, sem ekki hafa nothæfar íbúðir eða eru húsnæðislausir. Bæjarfélögunum hefur gengið nokkuð erfiðlega að fá fjárfestingarleyfi fyrir slíkar byggingar, en það mundi ekki allt leysast, þó að fjárhagsráð hefði ekki með þetta að gera, því að meginið af synjunum stafar af skorti á byggingarefni, en það væri illa farið, ef þessi starfsemi legðist niður. Þá liggur það ekki fyrir, hvort einstaklingar sitji fyrir þeim, sem byggt er fyrir á þann hátt, sem ég nefndi áðan, um byggingarefni. Fjárhagsráð gæti því ákveðið, hve mikið hvert bæjarfélag byggir á þennan hátt ár hvert. Ég held varla, að nokkur hætta sé á því, að einstaklingar mundu nota þetta til að byggja til að hagnast á því. Og ég held, að það væri vel þegið, ef fésterkir menn byggðu hús til að leigja þau út, því að það er fjárskortur samhliða með efnisskorti, sem háir mönnum við þessar byggingar. Og það er algengt hér, að einstaklingar leiti til bæjarfélagsins um aðstoð við byggingar, þegar önnur sund eru lokuð, og þeir menn, sem Reykjavíkurbær aðstoðar í þessum efnum, eru þeir, sem ekki hafa aðstöðu til að fá lán úr lífeyrissjóði eða byggingarsjóði verkamanna, því að þeim væru öll sund lokuð, ef þeir gætu ekki sjálfir unnið við húsin, er þau væru orðin fokheld, og þeim væri ekki lánað það fé, sem það kostaði að gera íbúðina fokhelda. Ég get því ekki verið samþykkur þeirri till. hv. þm. V-Húnv. að takmarka þetta við einstaklinga, því að félagsframlag, aðallega frá bæjarfélögum og samvinnubyggingarfélögum, getur auðveldað einstaklingum að koma sér upp þaki yfir höfuðið. Úr hinu geri ég lítið, að fjársterkir menn byggi íbúðir og selji þær svo, því að varla er hægt að hafa verulega upp úr því eins og nú er málum háttað, því að einstaklingar eiga nógu erfitt með að eignast íbúðir, þó að það sé með góðum kjörum, hagstæðum lánum o. s. frv., hvað þá ef þeir ættu að kaupa þær á okurverði hjá spekúlöntum með háum lánum. Ég geri því ráð fyrir, að það mundi vera lítill gróðavegur að leggja slíkt fyrir sig. Ég geri ráð fyrir, að hv. þm. sjái, hvað á milli ber í þessu máli, og því lítil ástæða til að ræða þetta frekar. Ég tel einnig ástæðulausan ótta hv. þm. V-Húnv., sem hann rökstyður brtt. sína með.