02.11.1950
Efri deild: 13. fundur, 70. löggjafarþing.
Sjá dálk 63 í B-deild Alþingistíðinda. (341)

24. mál, aðstoð til bænda á óþurrkasvæðunum

Hannibal Valdimarsson:

Herra forseti. Ég ætla ekki að gera upp á milli þess, sem hér er rætt um í málinu, þ.e. afstöðu hv. þm. Barð. og hv. meiri hl. fjhn., en vil aðeins segja það um afgreiðslu málsins í heild, að ég viðurkenni, að það hafi borið brýna nauðsyn til að rétta þeim bændum hjálparhönd, sem urðu fyrir því óláni í sumar að ná varla inn nokkurri heytuggu. Það er enn fremur augljóst, að þá hjálp varð að veita fljótlega, þannig að bændur vissu í tíma, hvort þeir neyddust til að skera niður bústofninn eða hvort þeim bærist hjálp til að afstýra því. Ef það er rétt hjá hv. meiri hl., að ekki hefði verið unnt að fá ákvarðanir um hjálp gegnum bjargráðasjóð eins fljótt og nauðsyn bar til, þá var réttara að fara aðra leið en að heykjast á málinu. Mér skilst, að hæstv. ríkisstj. hafi brugðið fljótt við, þegar ráða þurfti úr vandanum, og þannig finnst mér að hver ríkisstj. eigi að gera, að leysa úr hverjum vanda fljótt og vel. Ég tel, að málið hafi í aðalatriðunum verið leyst vel með því, að ríkissjóður veitir þessum bændum styrk og lán, því að auðséð er, að bjargráðasjóður hefði ekki verið fær um að annast þessa aðstoð, þótt ríkissjóður hefði útvegað honum lán til þess. Ég álít, að úr því að þessi leið var farin þá beri að fagna því, að bjargráðasjóður ætti að vera betur fær um að veita aðstoð, þar sem neyðarástand steðjar að, og það er því miður svo, að það eru ærin viðfangsefni, sem við ættum að snúast við með jafnmiklum skjótleik og hér er gert.

Þá vil ég í sambandi við þessa aðstoð, sem veitt var vegna óþurrkanna í sumar, lýsa ánægju minni yfir því, að báðir hl. fjhn. eru sammála um, að rétt sé, að Grunnavíkurhreppur sé tekinn í tölu þeirra byggða, sem þessarar aðstoðar eiga að njóta, þó að það séu sem betur fer ekki nema 2 eða 3 bændur í hreppnum, sem þurfa á henni að halda eða gera kröfu til hjálpar. En það, sem ég á við, að sé jafnaðkallandi verkefni og jafnbrýn þörf á að leysa og hér er verið að gera, það er ástandið hjá verkafólki og sjómönnum á Vestfjörðum. Eða hvað finnst mönnum? Halda menn, að það sé ekki mikið áfall fyrir verkamenn og sjómenn, þegar aflinn bregzt ár eftir ár — ekki aðeins síldaraflinn, heldur líka þorskvertíðin í nokkur ár samfleytt, og þegar ástandið er þannig eftir þetta síldarleysissumar, að enginn útvegsmaður hefur getað hafið útgerð á þessari haustvertíð, sem átti að byrja fyrir meira en mánuði síðan? Hraðfrystihúsin á Patreksfirði, Tálknafirði, Bíldudal, Þingeyri, Flateyri, Súgandafirði, Bolungavík, Ísafirði og bæði hraðfrystihúsin við Álftafjörð eru lokuð og allir bátar í naustum, og allir vita, að þarna lifa íbúarnir á sjávarútvegi. Ég er viss um, að hv. þm. hljóta að sjá það í hendi sér, að þetta fólk á jafnerfitt með að draga fram lífið eins og bændur, sem verða fyrir því áfalli að geta ekki aflað heyja fyrir búpening sinn. Hjá þessu fólki á Vestfjörðum er um það að ræða að geta ekki aflað matbjargar ofan í sig og sína. Menn kunna nú kannske að segja: Geta þessir útvegsmenn ekki fengið lán og komið hraðfrystihúsunum í gang? Sannleikurinn er sá, að þeir eru svo sokknir í skuldir, að dyr bankanna eru þeim lokaðar, og þar með leggst allt atvinnulíf í dá. Verklýðsfélögin komu saman í september til að ræða ástandið og gerðu grein fyrir atvinnuástandinu í ályktun til hæstv. ríkisstj., þar sem þau báðu hana um aðstoð til að ráða bót á atvinnuleysinu og að hún tæki á sig að halda niðri verðlagi á nauðsynjum, sem stöðugt hefur farið hækkandi undanfarið, þótt kaupgjald hafi verið bundið um 6 mánaða skeið. Enn fremur buðust þau til að sætta sig við óbreytt kjör, ef atvinnulífið kæmist í gang, en að öðrum kosti kváðust þau neydd til að breyta kaupgjaldinu til þess að fá hærra verð handa hinu vinnandi fólki fyrir hverja vinnueiningu þær fáu stundir, sem til féllu. Þá er því ekki til að dreifa, að sveitarfélögin geti rétt þessu fólki hjálparhönd, því að þau eru sjálf aðþrengd. Nýlega gerði bæjarráð Ísafjarðarkaupstaðar samþykkt um að leggja fyrir bæjarstjóra að láta greiðslur til verkamanna, sem vinna hjá bænum, sitja fyrir öðrum greiðslum, þó að því sé ekki slegið föstu, hvort hægt sé að sinna þessu. En ekkert svar hefur enn borizt við þessu bréfi, hvort hægt sé að veita aðstoð eða í hvaða formi. Hér kemur ekki fram hin sama röggsemi hjá hæstv. ríkisstj. eins og kom fram hjá henni góðu heilli, þegar um var að ræða aðstoð til bænda á óþurrkasvæðinu austanlands og norðan. Það kom fram hjá hæstv. ráðh., að aðstoð bæri að veita úr bjargráðasjóði hvar sem væri á landinu og í hvers konar vandræðum, sem að höndum bæri. Það mundi gleðja mig mjög mikið, ef hæstv. ríkisstj. sæi fært að veita aðstoð til Vestfjarða úr bjargráðasjóði, eins slæmt og ástandið er þar nú, í einhverju formi, hvort heldur sem væri í styrkjaformi eða sem lán, en það er ekki forsvaranlegt að draga aðgerðir í þessum efnum þangað til haustvertíð er úti og þangað til komið er að vetrarvertíð hér við Faxaflóa, því að þá rekumst við á það sama sem skeður hér alltaf árlega, að öll athygli virðist beinast að þeirri vertíð og aðrir landshlutar eru látnir sitja á hakanum þess vegna. En það er til haustvertíð á Vestfjörðum, og það er nauðsynlegt að gera eitthvað til að tryggja, að hún verði nú stunduð eins og venjulega, en það eru litlar líkur til, að það verði hægt, ef ekkert er að gert. Ef hæstv. ríkisstj. vefengir, að ástandið sé eins svart þar fyrir vestan og ég hef sagt, þá getur hún látið fara fram rannsókn á því. Hún getur annaðhvort falið slíka rannsókn stjórn bjargráðasjóðs eða öðrum trúverðugum mönnum. Ég geri mér von um, ef vel tekst með þessa aðstoð, að ekki þurfi að veita milljónir króna til að skapa sómasamlegan atvinnugrundvöll á þeim stöðum, sem verst eru settir, til þess að bátarnir geti komizt út og hraðfrystihúsin geti unnið úr afla þeirra. Það væri hægt að laga mikið ástandið á Vestfjörðum með því að gera út nokkra báta í hverri verstöð og koma hraðfrystihúsunum af stað, og mundi slíkt aðeins krefjast nokkurra hundraða þúsunda króna. Ég vildi vita frá hæstv. ríkisstj., hvort hún hefði gert sér ljóst, hvað er að gerast á Vestfjörðum. Það er ekki þörf milljóna til að bæta úr þessu vandræðaástandi, heldur aðeins nokkurra hundraða þúsunda króna. Ég vildi fá að vita, hvort bjargráðasjóður, sem nú er undanþeginn að veita bændum á óþurrkasvæðinu hjálp, gæti ekki hlaupið hér undir bagga, þar sem ástandið er eins slæmt og raun ber vitni.