06.11.1950
Efri deild: 15. fundur, 70. löggjafarþing.
Sjá dálk 74 í B-deild Alþingistíðinda. (358)

24. mál, aðstoð til bænda á óþurrkasvæðunum

Frsm. meiri hl. (Karl Kristjánsson):

Herra forseti. Ég skal ekki lengja umræðurnar mikið úr því sem komið er, en ræða hv. 6. landsk. gaf mér tilefni til að segja nokkur orð. Hv. þm. deildi á afstöðu n. til brtt. á þskj. 148. Hv. þm. gerði það þó ónotalega og með þeirri ástæðu, að Vestfirðingar skyldu minnast þess, ef málið fengi þá afgreiðslu, sem meiri hl. fjhn. leggur til. Fyrst og fremst er þetta óréttmætt eftir þeirri afstöðu, sem var hjá fjhn. Og að öðru leyti er þetta óréttmætt af því, að hv. 6. landsk. þm. hefur ekki undirbúið þetta mál á þann hátt, að hann hafi nokkra aðstöðu til að undirstrika þetta með þvílíkri áherzlu. Hann gerði lítils háttar tilraun til að snúa út úr orðum, sem ég flutti sem grein fyrir afstöðu n., sem var það, að málið yrði ekki tæmandi í afgreiðslu, ef brtt. yrði samþ., en hins vegar væri hún tengd við mál, sem stofnað væri til að samþykkja, eftir að tæmandi athugun hefði faríð fram við undirbúning þess, sem sagt rannsókn á aðstöðu manna, sem gerð hefur verið ýtarleg á landssvæðum, þar sem bændur náðu ekki inn miklu af heyjum sínum vegna óþurrka. Að þessu leyti er þetta frv. til staðfestingar á bráðabirgðalögum tæmandi. Með því var ég ekki að segja, að sú hjálp, sem þar er veitt út af fyrir sig, væri mikil, eða að sú hjálp, sem hv. 6. landsk. þm. fer fram á, væri órífleg eða of laklega til tekin. En það liggur ljóst fyrir, að hv. 6. landsk. þm. hefur aðeins hugsað um Vestfirði, þó að hann viti, að örðugleikar við sjávarsíðuna voru á fleiri stöðum, og þó að augljóst sé, að ef við frv. um hjálp til bænda eru tengdar brtt. eins og hér er um að ræða, þá gæti margur komið með sín þorp og tengt sína pinkla við þetta. Og mál sjómanna og verkamanna í kaupstöðum yrðu þá afgreidd á miklu verri hátt en sæmilegt væri af þm. að gera og ekki með svo miklum undirbúningi og rökstuðningi sem hjálpin til bænda er veitt, því að hún var veitt eftir ýtarlega rannsókn með rækilegum vinnubrögðum. Og úr því að hv. 6. landsk. þm. fór að minnast á, að ef till. sínum væri vísað frá og þær felldar, þá væru það óskyld vinnubrögð, sem hefðu átt sér stað, þegar aðstoðin við bændur, sem hér er um að ræða, var ákveðin, — þá vil ég segja, að hann fer með flutningi brtt. fram á, að óskyld og verri vinnubrögð þeim, sem hafa verið viðhöfð í sambandi við hjálpina til bænda, verði höfð vegna þeirra, sem við sjóinn búa. En svo að maður liti á eðli þeirrar hjálpar, sem veitt var bændum og hér er um að ræða, og hins vegar eðli þeirrar hjálpar, sem hv. 6. landsk. þm. óskar eftir handa mönnum á Vestfjörðum, þá er þetta tvennt töluvert óskylt. Hjálpin til bænda er ekki hjálp til þeirra vegna þess, að þá vanti brauð. En á það hefur verið lögð áherzla, að fólkið á Vestfjörðum vanti brauð. Bændur vantar ekki brauð, en það, sem í hættu var, var, að þeir felldu bústofn sinn og yrðu ekki búfærir eftirleiðis, sem yrði svo aftur til þess, að þeir leystu margir upp bú sín og bættust í hóp þeirra, sem vantar brauð. Nú er það svo, að sjómenn á Vestfjörðum eyðileggja ekki atvinnutæki sín eins og bændur mundu hafa fellt bústofn sinn, ef ekki hefði komið til hjálp þeim til handa. En ef þá vantar brauð á Vestfjörðum, þá verður úr því að bæta. En þá er eðlilegt, að það komi fram betur rökstutt en hefur komið fram til þessa. Og þá hefði verið eðlilegast, að sveitarstjórnirnar hefðu tekið málið til meðferðar og kallið kæmi frá þeim, því að vitanlega eiga brauðlausir menn að snúa sér til sveitarstjórna heima fyrir, ef um það er að ræða, að þá vanti brauð á líðandi stund.

Ég held því, að það sé enginn greiði og engin fyrirhyggja, sem kæmi fram í því, ef hv. þd. samþ. brtt. þá, sem hér liggur fyrir. Ég held, að málið, sem hún tekur til, verði að undirbúast og að það þurfi að vera ráðrúm til þess, að slíkur undirbúningur komi fram, ef hv. flm. brtt. vilja hann viðhafa. Og það er ekki verið að bera málið út á klakann, þó að brtt. sé felld, því að á bak við stendur till. til þál. á þskj. 15 í sameinuðu þingi, og hún hefur þann kost, að hún er víðtæk í þessu efni. Hún gerir öllum landshlutum jafnt undir höfði. Hún hugsar fyrir þeim, sem skortir aðstoð eftir þetta s.l. sumar. Og þó að ég sé ekki hér að lýsa fyrirheitum um afstöðu mína á þessu stigi til þeirrar till., þá finnst mér liggja ljóst fyrir, að það er allt annað að leggja henni lið annars vegar heldur en hitt að greiða því atkv., að þessi brtt. yrði samþ., sem miðar bara við nokkurn hluta af þeim, sem maður veit að komizt hafa í harðbakka á síðasta sumri.