06.03.1951
Efri deild: 85. fundur, 70. löggjafarþing.
Sjá dálk 368 í C-deild Alþingistíðinda. (3602)

165. mál, menntaskólar

Hannibal Valdimarsson:

Herra forseti. Ég ræddi þetta mál nokkuð við 1. umr. þess, auk þess sem hv. frsm. meiri hl. menntmn. hefur rætt það allrækilega og vitnað í þau gögn, sem fylgja nál. okkar. Síðan hefur hv. þm. S-Þ. rætt málið nokkuð, og er það ekki nema eðlilegt, þar sem málið er mikilsvert og á rétt á því að vera rætt ýtarlega, hvort sem það ber að á fyrsta eða síðasta degi þingsins, og veit ég, að hæstv. forseti viðurkennir það. Ég vil þó taka fram, að við nm. í meiri hl. ætlum okkur ekki að beita málþófi í því, heldur aðeins að ræða sem flest atriði þess, svo að það megi verða sem ljósast fyrir hv. þdm.

Ég hef ekki enn heyrt framsögu hv. minni hl. menntmn. í þessu máli, en ég þykist þó vita, hvernig þessum tveim hv. þm. er innanbrjósts. Það kemur fram í nál. þeirra, að þeir hafa ekki haft hugann óskiptan við þetta mál. Þeir hafa á fundum menntmn. hlýtt á mál þeirra manna, sem þar hafa mætt. Þeim var því ljóst, að þetta fyrirkomulag mundi kosta mikið fyrir ríkið, enda segjast þeir treysta því, „að ríkisstj. láti athuga rækilega, áður en til framkvæmda kemur, hvern kostnað slíkt fyrirkomulag hefur í för með sér.“ Þessi málsgr. úr nál. hv. minni hl. sýnir glögglega, að þá uggir mjög um það, að af samþykkt þessa frv. muni leiða mikinn kostnaðarauka fyrir ríkissjóð. Enn fremur hefur þeim orðið ljós hættan, sem gæti stafað af þessu frv., þegar rektor menntaskólans í Reykjavík sagði okkur frá því, að það væri ekki aðeins, að allar kennslustofur skólans væru nú fullsetnar, heldur væri kennt úti í Íþöku og úti í fjósi og uppi á hanabjálkalofti. En samt á að fara að bæta við bekkjum í skólann og það alveg að ástæðulausu.

En hv. þm. minni hl. hefur verið þessi hætta ljós, því að þeir segja í nál. sínu: „Enn fremur verði athugað, hvort fjölgun sú í skólunum tveimur, sem þar er ráðgerð, sé nokkuð varhugaverð frá heilbrigðislegu sjónarmiði.“ Þeir viðurkenna þannig, að með framkvæmd þessa frv. mundi verða teflt á tæpasta vaðið með heilsu unglinganna, ef ætti að fara að kássa fleiri nemendum saman við menntaskólann í Reykjavík. Það hefur heldur ekki farið fram hjá þeim, þegar rætt var um þann húsakost, sem menntaskólinn á Akureyri hefur yfir að ráða. Það þætti alls staðar óforsvaranlegt að kenna í kjallara eins og kjallaranum í menntaskólahúsinu á Akureyri. Það eru ekki nema rúmir 2 metrar undir loft í þeim stofum, auk þess sem kjallarinn er grafinn í jörð, og því langt frá því að vera þar sú birta, sem tilskilin er í kennslustofum. Slíkar kennslustofur mundu því hvergi vera viðurkenndar. Þannig játar hv. minni hl. mjög skýrt, að hann óttist, að þarna eigi að taka óþarfan bagga á herðar ríkissjóðs, og í annan stað, að brotið verði í bága við nauðsynlega heilsuvernd í skólum landsins, sem ríkinu ber skylda til að hafa, og það ekki síður í miðskóladeildinni. En það er engin nauðsyn til að tefla á tæpasta vaðið í þessum efnum, því að það er nóg sómasamlegt húsnæði til undir alla kennslu á gagnfræðastiginu.

Ég vil nú um sinn ræða við hv. þm. S-Þ., sem hefur tekið að sér að verja þetta mál miklu fremur en minni hl. menntmn. Hv. þm. S-Þ. virðist vera hneykslaður yfir því, að við í meiri hl. skyldum hafa látið prenta öll þessi gögn með nál. okkar. Nál. okkar tekur að vísu fram öll helztu atriði, sem máli skipta, en svo leiðum við fram sem sönnunargögn niðurstöður margra fremstu manna í fræðslumálum landsins. Meðal þessara fylgiskjala eru bréf frá fræðslumálastjóra um þetta mál. Fylgiskjal III sýnir mismuninn á kostnaði við miðskóladeild í menntaskóla og gagnfræðaskóla, og er niðurstaðan sú, að miðskóladeild í menntaskóla muni kosta um 21 þús. kr. meira en sama deild í venjulegum gagnfræðaskóla. Í IV. fylgiskjalinu eru ályktanir milliþn. í skólamálum frá 1949, sem er ekki ómerkari aðili í þessum málum en hver annar, og hafa þær ályktanir mikið gildi, þótt þær séu orðnar tveggja ára gamlar. Þá er tekið innlegg frá félagi menntaskólakennara, og er það frá 1945, svo að það er líklega einna skeggjaðast. Síðan kemur bréf frá landssambandi framhaldsskólakennara, og að lokum yfirlýsing frá gagnfræðaskólakennurum frá 23. febrúar 1951. Þetta eru því að nokkru leyti ný gögn og að öllu leyti merk gögn í sambandi við þetta mál, og ég vænti því, að hv. þm. S-Þ. liti meira á innihald þeirra en það, hvað gömul þau eru, og láti það ekki henda sig að fordæma þau vegna þess, að eitt þeirra er frá 1945. Eða hvað segir þá hv. þm. um sönnunargildi þeirra gagna, sem innihalda samþykki kaupfélagsfunda um þetta menntamál og eru frá árunum 1945 og 1946? Skeggjuð börn það, og hafa líklega verið það frá fæðingu. Það voru fánýt gögn í þessu máli, en þó þau helztu, sem sjömenningarnir gátu komið fram með til stuðnings sínum málstað. Þar var ekki verið að leita álits fræðslumálastjóra á þessu máli eða álits kennara eða milliþn. í skólamálum, sem eru mætir aðilar í þessu máli. Nei, heldur var leitað á kaupfélagsfund eftir stuðningi við þetta menntamál. Það fannst hv. þm. S-Þ. hlálegt, að fram skyldi koma í áliti milliþn. spásögn um það, að ef menntaskóla Akureyrar yrði veitt þessi undanþága, þá kæmi menntaskólinn í Reykjavík á eftir með sömu kröfu, „því að auðsætt er, að hið sama verður að gilda í þessum efnum fyrir menntaskólana báða“, segir nefndin. Þetta er síður en svo nokkurt hégómaatriði. Hún sá þetta fyrir fram, að það er ekki hægt að veita menntaskólanum í Reykjavík annan og skarðari rétt en menntaskólanum á Akureyri. Ef annar fær undanþágu, þá verður hinn að fá það líka. Þessi spásögn hefði máske verið hláleg, hefði hún ekki komið fram, en hún var einmitt sannleikanum samkvæm, því að þetta hefur nú þegar rætzt.

Hv. þm. S-Þ. vildi halda því fram, að hér væri um smávægilega lagasetningu að ræða, þar sem væri farið fram á framlengingu á undanþágu, en ekki neina breyt. á lögum. Því verður ekki á móti mælt, að hér er um að ræða breyt. á skólalöggjöfinni, þar sem í stað fjögurra ára menntaskóla á nú að koma sex ára skóli, og ef lögunum væri fylgt, þá kæmi sjö ára samfelldur menntaskóli, þriggja ára miðskóladeild og fjögurra ára lærdómsdeild. Þannig yrði fjögurra ára skóla breytt í sjö ára skóla, og það gæti sannarlega ekki talizt nein undanþága. Málið er því raunar orðið stærra mál en það var, þegar sjömenningarnir fóru á stað með það. Síðar má svo ræða það, hvort rétt er að breyta menntaskólunum í sjö ára skóla, og í sambandi við það, hvort unglingar á 12 ára aldri geti átt nokkra samleið með 20 ára fólki.

Þá er það hér ein fullyrðing, sem hv. þm. S-Þ. bar fram og ég vil leiðrétta. Hann fullyrti, að þessi breyt., sem hefði orðið á frv., væri ekki runnin frá menntaskólanum í Reykjavík sjálfum. Rektor menntaskólans mætti á fundi í menntmn., og þar sagði hann m. a.: Það var að mínum óskum, að Gylfi Þ. Gíslason flutti þessa breyt. á frv. fyrir hönd menntaskólans í Reykjavík. — Og hann fór fram á þetta vegna þess, að hann vildi ekki sætta sig við það, að hans skóli yrði settur hjá. Hann vill ekki, að það geti gengið æ ofan í æ, að þeir þurfi ekki annað en koma frá menntaskólanum að norðan og stappa niður fætinum, svo að ríkisstjórnin hrökkvi öllsömun í kút og Alþ. samþ. þegar allt, sem þeir fara fram á, á meðan það heyrir til undantekninganna, að menntaskólinn í Reykjavík fái það, sem hann fer fram á. Rektor sagðist því hafa óskað eftir þessari breyt., svo að eitt yrði látið ganga yfir skólana, að ef menntaskóli Akureyrar fengi undanþáguna, þá fengi menntaskólinn í Reykjavík hana líka, — enda var það þetta, sem milliþn. sá fram á, að hlyti að verða.

Eitt af þeim atriðum, sem hv. þm. S-Þ. vék að, var þetta, að málið væri að nokkru leyti flutt vegna ónotaðs húsrúms menntaskólans á Akureyri. Hv. frsm. n. vildi ekkert fullyrða um, hvernig húsnæði menntaskólans á Akureyri væri, af því að hann hefði ekki séð það. En ég hef séð það með eigin augum og veit, að menntaskólinn á Akureyri þarf að rýmka mikið til í sínu aðalskólahúsi. Hann þarf að geta komizt hjá því að nota kjallarann sem kennslustofu og ætti ekki rétt á því nema með undanþágu heilbrigðisyfirvaldanna, hann þarf að umbreyta húsrúmi á efri hæð hússins, hann þyrfti að eiga kost á samkomusal, þegar hann er mörg hundruð nemenda skóli, og hann þarf að flytja eldhúsið upp í nýja heimavistarhúsið, og hann hefur fulla þörf fyrir allt heimavistarhúsnæðið í nýja skólahúsinu, heimavist fyrir 160 nemendur. Hann hefur fulla þörf fyrir það, ef hann ætlar sér að fullnægja eftirspurninni um heimavist fyrir þá nemendur, sem ljúka miðskólaprófi í miðskólum og gagnfræðaskólum í sveitum og kauptúnum og sækja um heimavist fyrir nemendur í lærdómsdeild menntaskólans. Ég hélt, að það væri tilgangurinn með hinu nýja heimavistarhúsi að sjá fyrir heimavist fyrir nemendur menntaskólans á Akureyri í lærdómsdeild hans víðs vegar að af landinu, sem lokið hafa landsprófi með framhaldseinkunn, einkunninni 6. En undanfarin ár hefur verið mikill misbrestur á því, að skólinn gæti innt þessa skyldu sína af hendi, vegna þeirrar undanþágu, sem hann hefur notið. Ég sé að vísu, að dæminu er stillt upp þannig í grg., að ef hann hefði fullnægt öllum umsóknum, sem fram hafa komið um heimavist, þá mundu standa nokkur rúm auð. En þetta segir ekki nema hálfan sannleikann, því að miklu fleiri hafa viljað fá heimavist á Akureyri en hafa sótt um það. Mér er kunnugt um, að einungis 2 af mínum nemendum sóttu um heimavist í fyrra og fengu báðir neitun, þá vissu hinir nemendurnir, að ekki þýddi að biðja um heimavist, og sendu því ekki umsókn, en heimavist vildu þeir samt fá. Ég fullyrði því, að ráðstafanir sem þessar eru út í bláinn. Aðspurður í haust svaraði rektor, að það mundu verða litlu fleiri pláss í heimavist fyrir aðkomunemendur í lærdómsdeild á næsta ári en í vetur, því að það gengi illa að fá efni og fé til þess að þoka heimavistarhúsbyggingunni verulega áfram, og svo það, sem hann veit um, að nemendur í gagnfræðadeild eru aðkomumenn, sem orðnir eru nemendur skólans og ekki er hægt að neita um heimavist, þannig að þeir taka heimavistarhúsnæði frá lærdómsdeildarnemendum. Nú mætti segja, að það væri nokkur ástæða til, að menntaskólinn á Akureyri notaði kjallaraplássið og kannske hanabjálkann eins og verður að gera í menntaskólanum í Reykjavík. En ég vil benda á það, að í gagnfræðaskólahúsinu á Akureyri er svo rúmt, að þar er ekki tvísett í neina kennslustofu. Þar þyrfti ekkert ólöglegt skólahúsnæði að nota til að framkvæma þá kennslu, sem hér verður að leita heimildar til að mega nota. Og til hvers er þetta gert? Er gagnfræðaskólinn á Akureyri ófullnægjandi skóli, og er frágangssök, að unglingar nemi þar sín fræði og ljúki unglingastiginu og miðskólaprófi? Ég hygg, að enginn beri sér það í munn. Þar er bæði húsrúm og góðir kennslukraftar, eins og í hinum skólanum, enda hefur þar verið vel unnið, eins og hv. þm. S-Þ. tók fram áðan, þegar hann spurði, hvort nokkur vildi bera brigður á, að þar væri vel unnið, og sannleikurinn er sá, að þar hefði verið vel unnið, þrátt fyrir það að þessi undanþága hefði ekki verið veitt fyrir 2 ár, og hvaða nauðsyn var þá á því að framkvæma þessa undanþágu fyrir 2 ár? Það hefði meira að segja verið unnið á ódýrari hátt.

Þá var ein af röksemdum hv. þm., að gott væri að ljúka því á 2 árum, sem áður var gert á 3 árum, — það væri gott fyrir nemendur, aðstandendur, ríkið og fyrir alla. En það þarf enga lagabreytingu og enga undanþágu til þess, að gáfaðir nemendur og þroskaðir, sem hafa stundað sjálfsnám, og hvernig sem þeir nema sín fræði, megi ganga — án þess að hafa setið í nokkrum skóla — undir landspróf og sýna, hvort þeir standast það. Fólki er það eins frjálst og í gamla daga, þegar hv. þm., sem hér situr nú, hv. þm. N-Þ., tók gagnfræðaskólann á Akureyri á 2 vetrum. Það er jafnfrjálst nú einstaklingum, sem vel eru þroskaðir og vel gefnir og vel undirbúnir, þótt þeir hafi stundað nám utanskóla, að hlaupa yfir 1–2 vetur, eftir því sem þeir geta. Það á fullan rétt á sér að óbreyttum lögum. En það er ekki gott fyrir 12–14 ára unglinga að eiga að pressast í gegnum nám á 2 vetrum, sem er það viðamikið, að nemendum er ekki ætlandi meira — vel gefnum unglingum — heldur en að ljúka því á 3 vetrum. Með því að gera orðalista og skrár nákvæmlega yfir það námsefni, sem tilskilið er, er hægt að láta unglinga læra þetta líkt og páfagauka með því að kalla til allt þeirra þrek á 2 árum, en menntun hlýzt varla af slíku, um það held ég að kennarar, uppeldisfræðingar og foreldrar mundu vera sammála, ef þeir kynntu sér þessi mál, því að það er tvímælalaust ekki gott fyrir heila árganga nemenda að eiga að pressast í gegnum miðskólaskyldu á 2 vetrum, því að vel gefnir unglingar eiga nóg með það á í vetrum. En einstaklingum, sem vilja stytta sér leið, er það frjálst, eins og áður segir.

Þá er það um kostnaðinn, það hélt ég að væri ekki hægt að deila um. Það er verið að leggja auknar fjárhagslegar byrðar á herðar ríkissjóðs með því að samþ. þessa breyt. Það er í fyrsta lagi alveg óyggjandi, að ríkissjóður ber allan kostnað við rekstur menntaskóla og mundi því bera allan kostnað af rekstri miðskóladeildar við slíkan skóla, en ekki nema helming rekstrarkostnaðar í skólum gagnfræðastigsins að fráteknum launum fastra kennara þar. En hér við bætist það, sem kemur fram í útreikningum fræðslumálaskrifstofunnar, að það kemur aukinn kostnaður á ríkið við að framkvæma kennslu gagnfræðastigsins í menntaskólunum. Í fyrsta lagi af því, að það er mismunur á föstum launum kennara í menntaskólum og gagnfræðaskólum. Þegar kennarar gagnfræðastigsins hafa 24000 kr. í laun, þá hafa kennarar menntaskólanna 28800 kr., mismunur 4800 kr., að því er föstu launin snertir hjá einum manni. Þá er það annar mismunur, sem kemur fram, þegar þetta er borið saman. Kennsluskylda menntaskólakennara er 27 stundir á viku, en kennsluskylda gagnfræðaskólakennara 30 stundir á viku. Mismunur á launum slíkra kennara er því 2494 kr. eftir því, hvort þau eru reiknuð út eftir skala gagnfræðaskólakennarans, miðað við hans vinnutíma, eða menntaskólakennarans. Þessar 3 stundir á viku gera þennan mismun. Svo kemur mismunandi há launauppbót og verðlagsuppbót. Nemur sá mismunur 3 þús. kr. eftir því, hvort miðað er við gagnfræðaskólakennara eða menntaskólakennara. Svo er það enn mismunur á verðlagi kennslustunda stundakennara við gagnfræðaskóla, þegar það er borið saman við verðlag á stundakennslu menntaskólakennara. Sá mismunur er á þessa leið: Menntaskólakennarinn hefur kr. 32.67 á klukkustund, en gagnfræðaskólakennarinn kr. 27.58. Ég man eftir því, að það hefur nokkuð oft komið fyrir, að einn hv. þm. þessarar d. hefur talað um, að ástæða væri til að lengja vinnutíma kennara. Þætti mér fróðlegt að sjá, hvort þessi hv. þm. vill nú stuðla að því að lögleiða það, að kennarar, sem nú vinna 30 stundir á viku að kennslu í gagnfræðaskólunum, skuli færðir í 27 stundir, því að jafnframt því sem krafizt yrði sama kaups, yrði krafizt sama vinnutíma við að kenna unglingum í Reykjavík eins og við menntaskólann á Akureyri, og þess yrði krafizt við gagnfræðaskólana á Akureyri, á Ísafirði, á Laugarvatni og annars staðar. Það má vera, að sá rausnarandi ríki hér innan veggja í kaupgjaldsmálum gagnvart kennurum að stytta vinnutímann og hækka kaupið, allt í þeim tilgangi að koma þeirri reglu að í skólakerfinu, sem hér er stefnt að vitandi eða óafvitandi. — Annar rekstrarkostnaður á deild er a. m. k. 10 þús. kr., svoleiðis að ein deild, sem væri hér um að ræða, kostaði ríkið 21 þús. kr. í auknum útgjöldum. Ávinningurinn skildist mér að ætti að liggja í því, frá sjónarmiði hv. þm. S-Þ., að allt þetta ætti að vinna upp með því að framkvæma þetta á 2 árum, en það er hvorki til ávinnings fyrir börn né foreldra eða þjóðfélagið að fara þannig að, því að hér er ekki um það að ræða, að við fengjum ávinning með bættri kennslu eða uppeldi, því að ég held, að peningalegan ávinning sé ekki hægt að vinna upp með uppeldislegum ávinningi, það er síður en svo, ég held það mundi bætast við hallann. Þetta var um kostnaðarhliðina:

Þá var eitt atriði, sem hv. þm. S-Þ. hélt fram. Hann taldi, að menntaskólinn á Akureyri ætti einn að fá þessi réttindi, og sagðist treysta á, að fræðslumálastjóri og menntmrh. mundu beita sér gegn því, að menntaskólinn í Reykjavík fengi þennan sama rétt, þótt heimild væri samþ. til handa þeim báðum. Ég held, þegar það er upplýst fyrir þm., að rektor menntaskólans í Reykjavík krafðist sama réttar fyrir menntaskólann í Reykjavík og menntaskólann á Akureyri, að það blasi öðruvísi við en þegar hv. þm. S-Þ. hélt sína ræðu, að framkvæma þetta þannig að veita menntaskólanum fyrir norðan heimildina, en neita hinum menntaskólanum um hana, því að undanþágan er eftir beiðni rektors.

Þá var hv. þm. að gefa í skyn, að kennarar gagnfræðastigsins hér í Reykjavík hefðu verið spanaðir af stað, og hann sagði, að það væri hægt að skera upp herör í landinu um að auka kaupkröfurnar og annað þess konar. Hér hefur engin herör verið skorin upp, en ég hefði viljað vænta þess, að hv. þm. teldi það sanngirnismál, að gagnfræðaskólakennarar, sem ganga að starfi við að kenna undir landspróf á Skólavörðuholtinu og sumir eru háskólamenntaðir og engu síður menntaðir en menntaskólakennararnir, hefðu sama kaup og sömu kjör við að kenna sömu fræði undir samskonar próf og menntaskólakennararnir. Eða finnst hv. þm. sanngirni í því að hafa gagnfræðaskólakennarana í lægri launaflokki en menntaskólakennarana, þegar þeir væru að kenna nemendum sams konar fræði í menntaskólanum?

Þá er það beint brot á gildandi löggjöf að setja inn í bráðabirgðaákvæði l., að miðskólaprófi skuli ljúka eftir tveggja ára nám. Skólakerfið er þannig byggt upp, að það er 6 ára barnaskóli, þá 2 ára unglingaskóli, þá 3 ára framhaldsskóli, miðskóli, og svo 4 ára menntaskóli. Svo kemur bráðabirgðaákvæði um, að miðskólinn við menntaskólana á Akureyri og í Reykjavík sé 2 ára skóli. Hvernig vill háttv. Alþingi hnýta slíku aftan við lögin? Nei, 2 ára framhaldsskóli er unglingaskóli, en ekki miðskóli eftir gildandi lögum. Yfir þetta hefur þeim 7 þm. Norðlendinga skotizt, þegar þeir fluttu þetta mál.

Í sambandi við þetta minntist hv. þm. S-Þ. á það, sem er rétt, að framhaldsdeildarkennarar við gagnfræðaskólann á Ísafirði hefðu ekki sama tímakaup og kennarar við 1. bekk menntaskóla, þar hafa kennararnir gagnfræðaskólakennarakaup og láta sér það nægja. Út frá þessu dró hann þá ályktun, að ég ætti að aftra gagnfræðaskólakennurum í Reykjavík frá því að vera með meiri kröfur að því er laun snertir fyrir kennara gagnfræðastigsins, þó að menntaskólakennararnir hér fengju hærri laun í gagnfræðadeild. Þetta finnst mér veik rök. Vitanlega eru gagnfræðaskólakennararnir á Ísafirði að gefa eftir af sínum rétti til þess að greiða fyrir fátækum nemendum, sem yrðu að sækja nám að heiman, ef þeir fengju ekki þessa kennslu á sínu heimasvæði. Það hefur ekki fremur áhrif á kaupgjald kennaranna í landinu en þegar gagnfræðaskólakennararnir á Akureyri unnu að því að knýja fram menntaskólamálið og tóku að sér heilan vetur að kenna án endurgjalds. Þessi lofsverða fórnfýsi til að bjarga aðstöðu unga fólksins til mennta er alveg á sama hátt unnin af kennurunum við gagnfræðaskólann á Ísafirði. Hv. þm. S-Þ. má því ekki vænta þess, að ég bandi hendinni á móti gagnfræðaskólakennurum hér, því að ég er sannfærður um, að það er sanngirnismál, að þeir fái sama kaup fyrir sömu vinnu og menntaskólakennararnir eiga að fá fyrir sama starf.

Þá vék hv. þm. S-Þ. að því, að það bæri að fullnægja óskum kennaranna við menntaskólann á Akureyri, þar sem þeir bæðu um þessa breyt., þetta væru óskir fólksins og ég hefði oft lagt áherzlu á, að óskum fólksins bæri að fullnægja. Það er óneitanlegt, að kennarar menntaskólans á Akureyri óska eftir þessu, en að þetta sé vilji fólksins, það er ekki nákvæm framsetning á sannleikanum, því að um þetta er deilt, og það verulega. Hver er afstaða kennaraliðsins við gagnfræðaskóla Þorsteins M. Jónssonar? Hún er gagnstæð afstöðu kennaraliðsins við menntaskólann. Hvorir tveggja eru fulltrúar fyrir vilja fólksins. Þar kemur fram kennaralið á móti kennaraliði. Ég veit um það, að sumir vilja á Akureyri, að þessi kennsla til landsprófs sé innt af hendi af gagnfræðaskólanum, og ég tel enga þörf á að gera neina undantekningu frá reglunni. Hins vegar er það skiljanlegt, að Akureyrarkaupstaður vilji þiggja það, að ríkið taki að sér að öllu leyti að bera kostnaðinn við gagnfræðadeild kaupstaðarins. Ég er sannfærður um það, að ef þetta er samþ., þá munu koma kröfur frá hverju sýslufélagi um, að ríkið standi undir rekstrarkostnaðinum við gagnfræðaskólana að öllu leyti, úr því að ríkinu er heimilað að reka að öllu leyti gagnfræðaskóla á Akureyri og í Reykjavík, og það er sanngirniskrafa. Það er gengið um þær dyr, sem búið er að opna fyrir bæjarfélögin og sýslufélögin. — Það eru nú starfandi 2 héraðsskólar á Norðurlandi, á Reykjum í Hrútafirði og Laugum í Þingeyjarsýslu, og það eru gagnfræðaskólar á Húsavík og á Siglufirði og ég held í Ólafsfirði, unglingaskóli er a. m. k. kominn í Ólafsfirði og Dalvík, tveggja ára skóli. Hvarflar það að nokkrum manni, að þeir aðstandendur, sem eiga að senda unglingana á gagnfræðaskólann á Húsavík, vilji heldur láta þá fara til Akureyrar frá heimilum sínum í 2 ár til þess að stunda þar nám en láta þá vera í skólanum á Húsavík? Ég læt ekki hvarfla að mér, að þeir, sem geta stundað nám t. d. á Húsavík, vilji heldur fara til Akureyrar og stunda þar nám frá því að þeir eru 12 ára. Það þarf enginn að segja mér, að t. d. Húsvíkingar, Siglfirðingar eða Skagfirðingar vilji fremur senda unglingana frá sér en að þeir stundi sitt nám í heimahéruðum. Ég veit, að foreldrum þykir miður að senda unglingana frá sér, áður en þeir hafa komizt á hærra þroskastig. Er kannske höfuðvinningurinn við þetta fyrirkomulag, að foreldrar þurfa ekki að senda unglingana á barnsaldri til náms í Reykjavík og á Akureyri. — Eins og það komu óskir frá menntaskólanum á Akureyri, komu mótmæli frá gagnfræðaskólanum, skólanefnd og kennaraliði þess skóla.

Að því hefur verið vikið, að í fleiri atriðum sé víkið frá skólalögunum í framkvæmd en með því að veita undanþágu fyrir menntaskólann á Akureyri, þar sem kennsla á framhaldsskólastigi færi fram í barnaskólum. Þetta er eingöngu samkvæmt skólalöggjöfinni. Vegna skorts á húsrúmi hefur verið sett upp gagnfræðadeild í húsakynnum barnaskólanna, sem er alveg gagnfræðadeild eftir fyrirmælum skólalöggjafarinnar. Er alls ekki vikið þar út frá þeirri löggjöf. Á sama hátt er það ekki á rökum reist, að byrjað sé að framkvæma lærdómsdeildarkennslu í tveimur öðrum skólum, Laugarvatni og Ísafirði. Þetta er aðeins gert til þess, að framkvæmd löggjafarinnar „decentraliserist“.

Við skulum nú líta á afleiðingarnar af því, ef gagnfræðadeild á að starfa við menntaskólana á Akureyri og í Reykjavík. Þá minnka möguleikarnir fyrir þá nemendur, sem byrja á Laugarvatni eða Ísafirði, til að komast í menntaskólana. Þeir verða útilokaðir frá þessum skólum. Nú er tveggja ára kennsla í lærdómsdeild á Laugarvatni og um 20 nemendur, sem taka landspróf á Ísafirði. Þessir nemendur munu líklega ekki geta komið hingað til Reykjavíkur, og erfitt hefur verið að koma nemendum frá Ísafirði inn í menntaskólann á Akureyri, og verður það enn þá erfiðara, ef tveimur vetrum verður bætt við. Ég tel, að ef þessi undanþága verður veitt, yrði það óumflýjanleg nauðsyn, að það kæmu menntaskólar á Ísafirði og á Laugarvatni. Ég harma það ekki, en vil benda á, að afstaða hv. þm. S-Þ. mundi greiða götu þessa máls.

Nú er klukkan orðin rúmlega 7, og mig langar ekki í næturfund og efa, að þessu máli verði bjargað með málþófi, þó að ég búist við, að hv. hm. S-Þ. mundi vilja halda fundinum áfram. — Ég hef nú rætt þau atriði, sem snerta þetta mál, og er ljóst, að öll rök mæla gegn því. (KK: Að undanskildum þeim, sem eru með því.) Ég hef vikið að því, að það er svo frá þessu gengið, að talað er um tveggja ára miðskóladeild, en samkvæmt lögum er hún ekki til. Tveggja ára framhaldsskóli er og verður unglingaskóli. Til þess að vera miðskóli þurfa að vera 3 ár.

Til þess að færa frv. í áttina til að vera frambærilegt, höfum við hv. 8. þm. Reykv. leyft okkur að bera fram svo hljóðandi brtt.: „1. Orðin „tveggja ára“ falli niður. 2. Eftir orðunum „ástæður leyfa“ komi: enda séu þar kenndar allar sömu námsgreinar og í bóknámsdeildum gagnfræðaskólanna.“ Sem sé falli orðin „tveggja ára“ niður og heimilað verði að starfa með óskiptri miðskóladeild. Skilgreiningin á orðinu miðskóladeild er í lögunum. Tel ég þetta orðalag til bóta og sjálfsagða leiðréttingu. í öðru lagi séu kenndar þar allar sömu námsgreinar og í bóknámsdeildum gagnfræðaskólanna. Virðist mér þetta nauðsynlegt. Hvort sem nemendurnir taka prófið frá gagnfræðaskóla eða öðrum skóla, eiga þeir allir að öðlast sömu réttindi að afloknu prófi. — Þótt þessi leiðrétting verði gerð á frv., tel ég það samt ekki réttlæta það, að málið nái fram að ganga. En það eru þá skornir af tveir illir agnúar. Leyfi ég mér að leggja till. okkar fram í trausti þess, að deildin samþykki hana sem leiðréttingu á málinu.

Ég hef nú rætt um húsnæðishlíðina og kostnaðarhliðina á málinu, og er auðséð, að þetta mundi leggja aukinn kostnað á ríkið, og er ekki ráðlegt að breyta, löggjöfinni þess vegna. En þýðingarmesta hliðin er uppeldishliðin. Eru tvenn rök, sem mæla gegn því, að þetta fyrirkomulag sé gott frá uppeldislegu sjónarmiði, og eru þau öllum skiljanleg. Í fyrsta lagi er það, að með því að setja gagnfræðadeild við menntaskólann á Akureyri og menntaskólann í Reykjavík verða þeir skólar gerðir að 500–600 manna skólum. Nú eru á fimmta hundrað nemendur í Reykjavíkurskólanum, og er það of mikið. Þegar fjöldi nemenda er kominn yfir 300, er skólinn að verða of stór. Í öðru lagi verða þá skólarnir ósamstæðir, þegar nemendurnir eru allt frá 12 ára börnum upp í fullorðið fólk. Og þegar velja á skólaskemmtanir, þá hæfir ekki það sama 12 ára börnum og fullorðnu fólki. Það kemur í ljós, að nemendurnir eiga ekki samleið. Efa ég, að það hafi uppeldislega holl áhrif á börn að sjá eldri nemendurna skemmta sér. Stærð skólanna mælir því sterkt gegn frv., og um ókostina frá uppeldíslegu sjónarmiði er ekki ástæða til að fjölyrða, þar sem klukkan er orðin margt og þetta er síðasti dagur þingsins. — Vil ég að lokum brýna fyrir þingmönnum að stiga sízt öfug spor í þessu máli.