09.02.1951
Sameinað þing: 40. fundur, 70. löggjafarþing.
Sjá dálk 32 í D-deild Alþingistíðinda. (3824)

164. mál, jarðarkaup Hvammstangahrepps

Frsm. (Karl Kristjánsson):

Herra forseti. Till. sú, sem nú er tekin til síðari umræðu og væntanlega endanlegrar afgreiðslu, er fram komin fyrir það, að hreppsnefnd Hvammstangahrepps hefur óskað aðstoðar ríkisins til að kaupa jörð, þannig að ríkið gangi í ábyrgð fyrir allt að 100 þús. króna láni til jarðarkaupanna, en fái í staðinn gildar tryggingar. Málinu var vísað til fjvn., og ræddi nefndin það. Eins og nál. á þskj. 641 ber með sér, kom öllum nm. saman um að mæla með því, að samþ. yrði heimild fyrir ríkisstj. til að taka ábyrgð á þessu jarðarkaupaláni fyrir Hvammstangahrepp. Jörðin, sem um er að ræða, heitir Kirkjuhvammur og liggur að kauptúninu Hvammstanga. Það er allvænleg jörð, og hefur kauptúnið haft þar leigunot til landnytjaframleiðslu frá ári til árs. Nú er búizt við, að landeigendur vilji selja jörðina, enda er það miklu heppilegra fyrirkomulag, að kauptúnið eigi jörðina, skipti henni og leigi þeim, sem þar eiga heima. Kauptún og kaupstaðir, einkum þeir smærri, hafa mikla þörf fyrir það að hafa nokkurt landrými til umráða.

Ef skyggnzt er um landið og litið á hag kauptúnanna og smærri kaupstaðanna, þá dylst ekki glöggu auga, að afkoma fólksins hefur til jafnaðar orðið betri þar, sem landbúnaður hefur verið að bakhjarli. Þar hefur fólkið staðizt hörðu árin betur, því að þegar sjávaraflinn hefur brugðizt og vinna á árinu dregizt saman, þá hefur verið mikilsvert fyrir heimilin að geta aflað matvæla með landbúnaðarframleiðslu. Nokkur stuðningur fólkinu á þessum stöðum er það, að oft notast vel vinnukraftur lítilmagnans, svo sem gamalmenna og unglinga.

Ég sé enga ástæðu til að hafa lengri framsöguræðu fyrir þessu máli. Mér virðist það svo einfalt og sjálfsagt. Þessi kaup gefa ekki hættulegt fordæmi, og það ætti engan veginn að verða fjárhagsleg hætta fyrir ríkissjóð. Þessi jarðarkaup eru lítið spor til að tryggja það, að Hvammstangahreppur geti bjargað sér án þess að leita í stærri efnum til hins opinbera.