22.02.1951
Sameinað þing: 45. fundur, 70. löggjafarþing.
Sjá dálk 68 í D-deild Alþingistíðinda. (3909)

168. mál, landhelgisgæzla og aðstoð til fiskibáta

Frsm. meiri hl. (Gísli Jónsson) :

Herra forseti. Ég sé, að hv. flm. og hv. frsm. minni hl. eru hvorugur við. Ég vil ekki ræða þetta mál mjög mikið, en vil þó aðeins benda á nokkur atriði.

Hv. frsm. minni hl. sagði, að það hefði komið skýrt fram í viðræðum við forstjóra Skipaútgerðar ríkisins, að ekki væri unnt að leyfa þeim skipum, sem nú stunda landhelgisgæzluna, víðara starfssvið en þau væru nú á. Ég minnist nú ekki, að þessi dómur félli í hv. fjvn., en það var einmitt rætt við forstjóra skipaútgerðarinnar um það að reyna að haga landhelgisgæzlunni þannig að nota þessi skip, sem fyrir eru, sem bezt. Hins vegar sagði hann, að það væri landhelgisgæzlunni til hagsbóta að fá fleiri skip, og það er öllum ljóst. Hæstv. fjmrh. hefur í dag lýst fjármálaástandinu s. l. ár, þar sem glöggt kom fram, að tekjuáætlun hefur tæplega staðizt og gjaldaáætlun farið fram úr, eins og venja er til, og brýndi hæstv. ráðh. það fyrir hv. þm., að nauðsynlegt væri til þess að geta haldið þeirri áætlun, sem gerð er á Alþ. á hverjum tíma í sambandi við útgjöld og tekjur, að allir aðilar taki saman höndum um að afgreiða fjárl. með viturlegri áætlun og reyna síðan að standa utan um þá áætlun síðar meir. — Ég vil einmitt taka undir slíka aðvörun til alþm., og það er m. a. ein ástæðan fyrir því, að ég vil ekki að órannsökuðu máli vera með að auka útgjöld til landhelgisgæzlunnar, sem ef til vill eru ekki áætluð ríflegar á fjárl. en árið 1951, og þegar vitað er, að ýmsar greiðslur hljóta að koma, eins og hæstv. ráðh. benti á, þá er óvarlegt að stofna til þeirra, nema því nauðsynlegra teljist.

Ég vil einmitt í sambandi við þessa landhelgisgæzlu við Faxaflóa benda á, að ströndin umhverfis Ísland er um 800 mílur, og ef skipa ætti tveimur skipum á hverja 80 mílna strandlengju, eins og hér er gert í Faxaflóa nú, þá þyrfti hvorki meira né minna en 20 skip til landhelgisgæzlunnar við Ísland. Ef síðan á að bæta við 3 skipum, eins og hér er ætlazt til að séu á milli Reykjaness og Öndverðaness, þá þyrfti 30 skip. Það er síður en svo, að ég sé að halda því fram, að þetta svæði þurfi ekki þessa gæzlu, og sérstaklega ef hægt er að fara inn á það svið að verja veiðisvæðið einnig utan landhelginnar, þá er sjálfsagt, að það veitir ekkert af þeim flota, sem hér ræðir um. En menn verða að gera sér það ljóst, að 30 skip kosta meir en 6 millj. kr., sem nú er áætlað í fjárlögum.

Ég tel því, að hv. flm. þáltill. hefði átt að vera þakklátur meiri hl. n. fyrir það að afgreiða till eins og hún kemur frá meiri hl. n. Þar er ekki farið fram á neitt annað en það að athuga, hvort ekki sé hægt að skipuleggja landhelgisgæzluna betur en gert er, og ef það sýnist ekki vera hægt, þá láta að hans óskum.

En þetta finnst hv. flm. ekki nægjanlegt, og vildi ég gjarnan heyra frá honum, hvernig hann hugsar sér að uppfylla þarfir annarra fiskimanna í landinu.

Ég hef ekki heldur skilið forstjóra skipaútgerðarinnar svo, að Faxaflóabáturinn ætti að fara suður fyrir Grindavík, heldur ætti Ægir að verja svæðið frá Reykjanesi austur að Horni. Ég teldi það ekki goðgá, þó að bezta og hraðskreiðasta skipið, eins og Ægir er, skryppi suður fyrir Grindavík, og það sé sannarlega betur séð fyrir landhelgisgæzlunni á milli Reykjaness og Öndverðaness með 2 skipum, eins og þau eru nú, heldur en nokkurs staðar annars staðar á landinu. — En þegar þeir menn, sem hafa bezta landhelgisgæzluna og vilja engu af henni sleppa til þess að ljá nábúa sínum lið, — en það er meginsjónarmið hjá hv. frsm. minni hl., að hann vill engu taki sleppa af því, sem tekizt hefur að ná hér fyrir Faxaflóa, — þá er viðbúið, að slíkt geti orðið til þess að framkalla kröfur frá öðrum um slíka gæzlu, sem þá ekki heldur er hægt að neita um.

Ég vil í sambandi við þetta leyfa mér að benda á það, sem og kom fram hjá hv. frsm. minni hl., að annað skipanna í Faxaflóa er upptekið mjög við að draga bilaða báta að landi. En hver á meginsök á því? Hv. þm. Borgf. barðist fyrir því eins og ljón að draga úr þeim lærdómi, sem mönnum væri gert að skyldu að kunna til þess að vera mótoristar á mótorbát. Nú er komið fram allt, sem ég sagði um það mál. Reynslan sýnir, að fyrir óhyggilega breyt., sem gerð var á löggjöfinni í sambandi við mótorvélstjóra, eru skipin eins og hráviður úti um allan Faxaflóa. Það er engin úrbót að fjölga skipum til að hirða þau upp, heldur verður að gera meiri kröfur til þeirra manna, sem hugsa eiga um vélarnar. Ég held, að hv. fjhn. hafi sýnt fulla viðleitni til þess að bæta úr þessu ástandi með sínum till. Ég tel, að það þurfi ekki að líða langur tími, þar til fæst úr því skorið, hvort hægt er að skipuleggja strandgæzluna með þetta fyrir augum. Ég geri ráð fyrir, að leitað verði álits um það til Skipaútgerðar ríkisins. Hæstv. dómsmrh. og hæstv. fjmrh. gera út um það við forstjóra skipaútgerðarinnar, hvort nauðsynlegt sé að gera þetta. Sannfæri hann þá um það, að það sé nauðsynlegt, þá verður bætt við skipi. Hins vegar munu þeir að sjálfsögðu reyna að fá hann til þess að breyta um og hafa betri hátt á þessum málum en verið hefur.

Nýtt strandferðaskip kemur til landsins að vori eða sumri, og væntanlega bætir það úr í framtíðinni, þó að það auðvitað komi ekki að gagni á þessari vertíð, og verður þá væntanlega hægt að skipuleggja landhelgisgæzluna betur á næsta ári. En ég vænti þess, að hv. alþm. felli aðaltill., en samþ. þá till., sem n. leggur hér fram, vegna þess að í henni felst fullkomin sanngirni annars vegar, og hins vegar í fullu trausti á þeirri ríkisstj., sem nú ríkir, að hún hefjist handa til að skipuleggja ferðir strandbáta eða leigja nýja báta til þess.

Í sambandi við það að leigja bát, þá tekur það tíma og kostar mikið fé að gera þá gæzlufæra. Það þarf að setja í þá einhvern byssuhólk og ráða menn til þessa verks, og mér þykir líklegt, að þeir bátar, sem hæfir eru til strandgæzlu, séu komnir í annað starf, og þarf þá að kippa þeim út úr því starfi. Það hefði sannarlega átt að hugsa um þessi mál fyrr en nú. Það er aðeins eitt atriði, sem kom fram hjá hv. frsm. minni hl. sem rök fyrir því, að ekki mætti draga úr landhelgisgæzlunni hér í Faxaflóa, og það var, að Sæbjörg væri ekki við starf, og ættu þessi skip, sem eftir væru, að víkka út sitt gæzlusvið. En sé það svo, þá er það að sjálfsögðu í verkahring skipaútgerðarinnar að ráða skip í hennar stað, og þarf enga þáltill. til þess að samþ. það.

Ég skal svo ekki ræða þetta frekar. Ég legg til, að till. meiri hl. n. verði samþ. eins og hún liggur fyrir.